22.9.1996

Menntaskólinn við Hamrahlíð 30 ára

Ávarp á 30 ára afmæli Menntaskólans við Hamrahlíð
22. september 1996.

Í upphafi máls míns vil ég óska Menntaskólanum við Hamrahlíð, stjórnendum hans, kennurum og nemendum til hamingju með þessi tímamót. Þegar litið er til þess, hve tiltölulega skammt er liðið síðan skólamál á Íslandi komust í það horf, sem við nú þekkjum, er 30 ára samfellt skólastarf vissulega tilefni til að gera sér dagamun.

Í raun stóð aldrei til að stofna nýjan menntaskóla hér við Hamrahlíðina, því að ráðist var í framkvæmdir á árunum 1952 til 1954 á þessum slóðum með það í huga, að Menntaskólinn í Reykjavík yrði fluttur úr Lækjargötunni hingað, það er í útjaðar borgarinnar á þeim tíma.

Ég hef búið hér á næsta bæ, fyrst efst í Blönduhlíðinni og síðan í Háuhlíðinni, síðan 1949 og því fylgst af nágrannaáhuga með öllum framkvæmdum við skólann í rúm 40 ár. Man ég eftir því, að fyrir okkur strákana efst í Hlíðunum var ævintýranlegt að fara í grunn skólahússins, sem hér var grafinn og safnaði í sig vatni. Til minningar um þessa mannvirkjagerð stendur húsið hér fyrir ofan, Háahlíð 9, sem var reist sem rektorsbústaður um 1954. Þar bjó Pálmi Hannesson, rektor Menntaskólans í Reykjavík, þegar hann andaðist 1956, en hann var helsti talsmaður þess, að MR flyttist úr Lækjargötunni. Þeirri hugmynd var hins vegar endanlega hafnað á árinu 1954, þegar faðir minn var menntamálaráðherra.

Þá höfðu verið nokkur átök innan MR um framtíðaraðsetur skólans. Menntamálaráðherra óskaði vorið 1954 bréflega eftir áliti kennara Menntaskólans í Reykjavík á byggingarmáli hans, hvort þeir teldu ráðlegt að flytja skólann alveg í ný húsakynni eða hvort miða bæri að því að hafa hér tvo menntaskóla. Mikill meirihluti kennara samþykkti að skólinn ætti að vera “einn og óskiptur" og naumari meirihluti, að MR yrði áfram við Lækjargötuna.

Það var ekki fyrr en vorið 1965, sem menntamálaráðuneytið ákvað að ráða rektor við nýjan menntaskóla í Reykjavík, sem brátt skyldi hafist handa um að byggja. Kristinn Ármannsson, rektor Menntaskólans í Reykjavík, var að láta af störfum vegna aldurs. Voru tvö rektorsembætti auglýst samtímis. Skyldi annar taka við af Kristni en hinn hefja undirbúning að skólastarfi í væntanlegum skóla við Hamrahlíð, sem gert var ráð fyrir að tæki til starfa haustið 1966. Fjórar umsóknir bárust og var fjallað um þær á kennarafundi í MR. Einar Magnússon var skipaður rektor MR en Guðmundur Arnlaugsson fyrsti rektor Menntaskólans við Hamrahlíð. Vorið 1954 var Einar einn fárra kennara við MR, sem töldu skynsamlegt að hafa tvo menntaskóla í Reykjavík.

Þegar Menntaskólinn við Hamrahlíð hóf störf haustið 1966 hafði einn menntaskóli verið í Reykjavík í 120 ár. Hamrahlíðarskólinn á rætur í Reykjavíkurskóla, sem er arftaki þess skóla, sem upphaflega var stofnaður í Skálholti af Ísleifi Gizurarsyni biskupi snemma á 11. öld. Vegna þess hve breytingar voru litlar í íslenskum skólamálum um aldir, er auðvelt að sjá rætur þeirra stofnana, sem komast á legg.

Fyrir miðja síðustu öld ritaði Jón Sigurðsson forseti hugvekjur um skólamál til að rökstyðja nauðsyn skólastofnana. Komst hann meðal annars þannig að orði:

“Það er því nauðsynlegt hverjum einum, í hvaða stétt sem hann ætlar að komast, að læra fyrst það, sem nauðsynlegt er fyrir alla að vita, og sér lagi það, sem nauðsyn er á í þeirri stétt, sem hann ætlar að ráðast í. En til að læra þetta er hentugastur tími í æskunni, þegar allar gáfur sálar og líkama eru að dafna og opna sig eins og blómhulstur að morgni dags til að draga til sín hinn frjóvganda kraft þekkíngarinnar skynseminni til viðgángs og þróunar. Ef þá vantar yl og vökva, meðan sá tími stendur, má ganga að því vísu, að blómstrið annaðhvort haldi sér luktu alla ævi eða skrælni ávaxtarlaust. Fyrir þessu verður stjórnin að ala önn, að svo verði hagað til að enginn kraftur, ef svo mætti verða, misstist, sem stoðað gæti til velferðar alls félagsins, heldur að sérhverjum stæði vegur opinn til að nema það, sem honum væri best lagið; og þetta verður bæði hægast og affarasælast með því að stofna skóla handa hinum úngu mönnum."

Menntaskólinn við Hamrahlíð hefur nú gegnt því hlutverki í 30 ár að auðvelda öllum gáfum sálar og líkama æskufólks að draga til sín þekkingu skynseminni til viðgangs og þróunar.

Skólinn hefur farið eigin leiðir í þessu efni. Stjórnendur hans hafa sýnt framsýni og áræði við brautryðjendastarf sitt. Hér tók áfangakerfið við af hefðbundnu bekkjarkerfi árið 1972. Hefur það orðið fyrirmynd ýmissa framhaldsskóla og erlendir skólamenn hafa komið til landsins til að kynna sér kosti þess. Árið 1972 hófst einnig í MH nám fyrir fullorðna, svonefnd öldungadeild, sem hefur notið virðingar og vinsælda. Hróður skólans hefur borist víða um heim fyrir tilstilli Kórs Menntaskólans við Hamrahlíð, sem gefur honum einnig aukna reisn og aðdráttarafl heima fyrir. Innan veggja skólans hefur verið unnið merkilegt starf í þágu fatlaðra, sem nýtur viðurkenningar á alþjóðavettvangi. Vil ég nota þetta tækifæri til að óska skólanum og Ágústu Unni Gunnarsdóttur kennslustjóra til hamingju með árangurinn í HELIOS-áætlun Evrópusambandsins í þjónustu við nemendur með sérþarfir.

Ég legg áherslu á hina alþjóðlegu skírskotun, þegar þessir mikilvægu þættir í starfi skólans eru tíundaðir, því að með henni er unnt að fá haldgóðan samanburð. Hefur Hamrahlíðarskólinn lengi haft áhuga á alþjóðlegum tengslum skóla og stofnað til samvinnu við skóla í Evrópu um ýmis verkefni. Nú í sumar barst menntamálaráðuneytinu erindi frá skólanum um, að hann fengi heimild til að undirbúa formlega umsókn til International Baccalaureate með það fyrir augum, að geta boðið svonefnt IB-nám og orðið aðili að alþjóðlegum samtökum skóla í þeim tilgangi að auðvelda þeim, sem flytja á milli landa að halda áfram hindrunarlausu námi. Eru almenn markmið þessa náms að veita góða, alhliða menntun, auðvelda tengsl milli landa og menningarheima og stuðla að skilningi milli þjóða.

Að mati ráðuneytisins er MH vel til þess fallinn að bjóða þetta nám. Tel ég eðlilegt, að viðræður fari fram milli skólans og ráðuneytisins um einstaka þætti málsins með það í huga, að þeir liggi ljósir fyrir, þegar ákvörðun verður tekin um umsókn af skólans hálfu. Er í því sambandi nauðsynlegt að kanna til hlítar, hvernig treysta megi almennt fjárhagslegar forsendur skólans. Raunar er það brýnt verkefni, hvað sem líður þátttöku hans í þessu alþjóðlega samstarfi.

Menntaskólinn við Hamrahlíð var að stíga sín fyrstu spor, þegar mikil umbrot voru í skólamálum og tengdust þau meðal annars stúdentauppreisninni í París í maí 1968. Þótt ýmsir af kennurum Menntaskólans í Reykjavík flyttust úr gamla skólanum í hinn nýja, varð til nýr skóli með nýju starfsfólki og nýjum reglum. Inn í hópinn komu menn með róttækar hugmyndir þessara ára. Hefur skólinn að nokkru byggt á þeim síðan, þótt ýmislegt úr tískustefnum úreldist fljótt. Best tekst jafnan, þegar saman fer hæfileg íhaldsemi og framfarahugur í samræmi við nýjar þröfur og þekkingu.

Skarphéðinn Jóhannsson arkitekt mótaði andrúmsloftið innan dyra með hönnun skólahússins. Voru umskiptin mikil, þegar litið er til gamla skólans við Lækjargötu. Til dæmis hefur verið á það bent, að stigar í Hamrahlíðarskólanum minni á Garnier-óperuna í París, en þar eru stigarnir vinsælli samkomustaður óperugesta en sérhannaðir samkomusalir. Skarphéðinn gerði einnig ráð fyrir heimastofum námsgreina en ekki bekkja. Kom það sér vel, þegar áfangakerfið leysti bekkjakerfið af hólmi.

Þegar litið er á þróun íslenskra skólamála á þeim þremur áratugum, sem liðnir eru frá því, að Menntaskólinn við Hamrahlíð kom til sögunnar, hafa breytingarnar orðið meiri en nokkru sinni. Þær eru enn að gerast.

Á síðasta vetri samþykkti Alþingi ný lög um framhaldsskóla. Eftir að grunnskólinn hefur verið fluttur til sveitarfélaganna, ætti ríkið að leggja meiri alúð en áður við framhaldsskólastigið. Er áhyggjuefni, hve margir flosna upp úr námi á því stigi. Þótt fjármunir skipti að sjálfsögðu miklu, þegar hugað er að árangri í framhaldsskólunum, er hitt ekki minna virði að nýta takmarkaða fjármuni með markvissum hætti.

Ríkisstjórnin hefur sett sér það markmið að ná niður halla á ríkissjóði á næsta ári. Er það gert að ráði þeirra, sem besta þekkingu hafa á stjórn efnahagsmála. Óhæfileg opinber skuldasöfnun er í eðli sínu ekki annað en að kasta eyðslu umfram efni á herðar komandi kynslóða. Til að stemma stigu við slíkri eyðslu hafa öll ráðuneyti orðið að draga saman seglin við gerð fjárlaga fyrir næsta ár.

Í menntamálaráðuneytinu hafa menn leitast við að haga samdrætti í útgjöldum þannig, að sem minnstu tjóni valdi. Minni fjárráð hindra ekki að á næstu vikum verður ráðist í það verkefni að semja nýja námskrá fyrir grunn- og framhaldsskóla. Er stefnt að því að verkinu ljúki sumarið 1998.

Framkvæmd nýju framhaldsskólalaganna er hafin og verður unnið að henni stig af stigi. Hefur verið lagt á ráðin um, hvernig það verði gert í bestu samráði við þá, sem í skólunum starfa. Stjórnendur skóla bera meiri ábyrgð en áður og fá einnig aukið frelsi við mótun skólastarfs hver á sínum vettvangi og við meðferð fjármuna.

Góðir áheyrendur!

Í upphafi máls míns minntist ég þess, að við hefðum fylgst náið með því, strákarnir efst í Hlíðunum, hvernig staðið var að framkvæmdum við Hamrahlíðarskólann. Ef í þær hefði verið ráðist á sjötta áratugnum, hefði ég líklega gengið í þennan skóla. Þess í stað hef ég trúað honum fyrir menntun tveggja barna minna. Einnig hef ég búið í nágrenni hans í 30 ár, og gaf það mér tilefni til að segja á Alþingi síðastliðið vor, að ég hefði oft séð nemendur skólans stunda íþróttir utan dyra. Taldi ég ekki beinlínis óhollustu fólgna í því að hafa tækifæri til að anda að sér fersku morgunlofti í Öskjuhlíðinni. Lét ég þess getið, að við erfiðar aðstæður legðu kennarar sig fram um að nýta þá kosti, sem fyrir eru, til að kenna ungu fólki að stunda líkamsrækt. Með þeirri fræðslu væri ef til vill lagður grunnur að viðvarandi íþróttaiðkun við náttúruleg skilyrði, sem nýttist mönnum lengur en á skólaaldri.

Þessi orð féllu á Alþingi, þegar rætt var um þá staðreynd, að skólinn er ekki fullbyggður, því að enn hefur ekki verið reist við hann íþróttahús. Minntu nemendur hans á það á Austurvelli síðastliðið vor og afhentu mér undirskriftarlista óskum sínum til áréttingar. Jafnframt var þess getið, að fleiri en einn menntamálaráðherra hefðu heitið því, að ráðist yrði í smíði íþróttahússins.

Ég tel eðlilegt, að gengið verði til þess sem fyrst í viðræðum forráðamanna skólans og menntamálaráðuneytisins að átta sig á því, hvernig best verði leyst úr skorti á íþróttaaðstöðu við skólann. Sé nýbygging talin skynsamlegasta úrræðið, verði hún sett inn í framkvæmdaröð með hliðsjón af fyrirsjáanlegu fjármagni. Tel ég að svigrúm ætti að gefast á árinu 1998, ef fjárveitingavaldið leyfir.

Hér ætla ég ekki að ganga lengra í þá átt að lofa afmælisbarninu gjöfum, því að ekki fer vel á því að gefa án þess að eiga fyrir gjöfinni. Á hinn bóginn vil ég staðfesta, að úrlausn í þessu efni er brýn fyrir Menntaskólann við Hamrahlíð, þá ágætu menntastofnun.

Ég óska Menntaskólanum við Hamrahlíð til hamingju með afmælið og árna honum heilla um langa framtíð.