14.9.1996

Stofnun Sigurðar Nordals 10 ára

Stofnun Sigurðar Nordals 10 ára
Ávarp 4. september 1986

Í tilefni af aldarafmæli dr. Sigurðar Nordals prófessors, 14. september 1986, var komið á fót við Háskóla Íslands menntastofnun sem ber nafn hans. Við komum hér saman í dag meðal annars til að fagna því, að þessi stofnun hefur starfað í 10 ár.

Á sínum tíma átti ég þess kost að kynnast Sigurði Nordal. Hann var þá kominn á efri ár en vann að Þjóðsagnabókinni, sem Almenna bókafélagið gaf út í þremur bindum. Starfaði ég þá hjá félaginu og hafði meðal annars þá ljúfu skyldu að vera tengiliður við Sigurð vegna útgáfunnar.

Formáli Þjóðsagnabókarinnar sýnir, að höfundinn skorti hvorki ritsnilld né innsæi. Þar ræðir Sigurður til dæmis um bannhelgina, sem hann telur dýpstu og lífseigustu rót hinnar ævagömlu trúar á huldar náttúruvættir, og segir : “Uppfylling jarðarinnar, offjölgun mannkynsins, gráðugustu og grimmustu dýrategundar hnattarins, er skelfilegri tilhugsunar en svo, að margir dirfist að ræða í fullri alvöru. Hins vegar er landvernd, viðnám gegn eyðingu lífsbjargar og mengun umhverfis af manna völdum, mjög komin á dagskrá.... Því má vel samsinna, að eitthvert trúarlegt viðhorf gæti orðið öruggasta undirstöðuatriði verulegra úrbóta í náttúruvernd. En ef litið er á trúna á bannhelgi sem áminningu einhverra hulinna náttúruvalda, að jörðin sé mannkindinni ekki skilyrðislaust undirgefin, þá eiga Íslendingar í henni og hinni fornu hugmynd um landvætti lifandi kjarna átrúnaðar, sem vonandi kulnar ekki."

Þessi orð birtust fyrir 24 árum og eiga raunar enn meira erindi nú í dag en þá. Þau minna okkur ekki aðeins á mikinn vanda alls mannkyns heldur einnig með hve skynsamlegum hætti má beita skírskotunum til fornra hugmynda í glímunni við vanda samtíðar og framtíðar. Með viti og dirfsku verður þekking forferðanna leiðarljós, þegar tekist er á við úrlausnarefni, sem þá hefði aldrei órað fyrir.

Samkvæmt reglugerð skal Stofnun Sigurðar Nordals “efla hvarvetna í heiminum rannsóknir og kynningu á íslenskri menningu að fornu og nýju."

Sigurður glímdi á sínum tíma við skilgreiningu á hugtakinu menning og afmörkun þess með orðinu “íslensk". Hann lýsir viðhorfum sínum í inngangi forspjalls bókarinnar Íslensk menning og kemst að þeirri niðurstöðu, að bókin sé “hugleiðing um vanda þess og vegsemd að vera Íslendingur nú á dögum, studd við þá þekkingu á fortíð þjóðarinnar, sem höfundur hefur getað aflað sér og talið mestu varða."

Má ekki líta svo á, að Stofnun Sigurðar Nordals hafi tekið við þessu hlutverki? Hún eigi í krafti þekkingar á fortíð þjóðarinnar, rannsóknanna, að vinna að kynningu á vanda þess og vegsemd að vera Íslendingur nú á dögum.? Sjálfur sagði Sigurður, að einsætt væri, hvað sitja skyldi í fyrirrúmi, þegar hugsað væri um skerf Íslendinga til heimsmenningarinnar. Þeir hefðu í bókmenntum og orðsins listum varðveitt og skapað varanleg verðmæti. Ætti að telja fram hið athyglisverðasta í fari þeirra, yrði það á því sviði.

Fyrir fáeinum dögum var ég í Kaupmannahöfn og gat staðfest réttmæti þessa, þegar tími gafst til að líta inn í tvær bókabúðir. Í annarri blöstu við bækur Halldórs Laxness á útsöluborði. Í hinni sá ég í neðstu hillu tvö lítil hefti, sem báru samheitið Edda Myterne - fyrra bindið heitir Nordens Gudekvad og hið síðara Snorris Eddasagn. Bæði heftin hafa komið út í þremur útgáfum, hið fyrra 1926/1968 og 1995, hið síðara 1928/1970 og 1995. Þýðandinn er Thöger Larsen en á titilsíðu stendur, að hann hafi þýtt verkin úr tungumáli, sem er kallað “oldnordisk".

Það hlýtur að vera höfuðskylda þeirra, sem kynna íslenska menningu að útrýma hugtökum eins og “oldnordisk". Auðvitað er þar átt við íslensku. Enn er það merkasta framlag okkar Íslendinga til heimsmenningarinnar að tala og rita íslensku, sömu tungu og Snorri notaði. Þessari einstæðu vegsemd megum við ekki kasta á glæ og eigum að minna á hana í alþjóðlegu samfélagi. Þar er betri jarðvegur en áður fyrir þjóðlegar rætur og meiri skilningur á að leggja rækt við þær.

Minna ber á orðin um íslenskuna í Íslandslýsingu Resens frá 17. öld, þar sem segir, að viðurkenna verði virðuleik þessarar tungu, því að hún sé ein helsta höfuðtunga meðal norðlægra mála, þar sem af henni séu dregin að miklu leyti nútímamálin danska, sænska og norska, jafnvel einnig þýska og enska.

Vík ég þá sögunni aftur til Kaupmannahafnar, sem nú er menningarborg Evrópu. Þeir, sem fjalla um viðburði í borginni á þessu ári, eru samdóma um, að fátt hafi staðið betur undir menningarmerkinu en sýning á verkinu Fjórði söngur Guðrúnar. Hana mátti sjá í flotkví í Kaupmannahafnarhöfn og samdi Haukur Tómasson tónlistina. Louise Beck hugmyndasmiður sýningarinnar segist hafa skoðað hina yfirgefnu skipakví og haldið þaðan í Árnastofnun í Kaupmannahöfn, þar sem hún hafi fundið í Eddunum kvæðin um Guðrúnu rituð á kálfskinn. Í sýningarskrá er tekið fram, að Eddukvæðin séu rituð á íslensku og því til áréttingar eru þau birt á tungu okkar í skránni. Var það ekki til að draga úr ánægjunni við að sjá þessa ógleymanlegu sýningu.

Einstæð em eg orðin
sem ösp í holti,
fallin að frændum
sem fura að kvisti,
vaðin að vilja
sem viður að laufi,
þá er in kvistskæða
kemur um dag varman,


syngur Guðrún undir lok verksins, þegar Ragnarök eru á næsta leiti og sjór tekur að flæða inn í kvína.

Kaupmannahafnarbúar og gestir þeirra sýndu menningarframtakinu í höfninni mikinn áhuga. Efnið og tónlistin hæfðu hinni stórbrotnu umgjörð. Að mínu viti skírskotar sá þáttur íslenskrar menningar , sem birtist í Fjórða söng Guðrúnar, til samtímans og sérstaklega til unnenda evrópskrar menningar. Hið sama á einnig við um Íslendingasögurnar. Er gleðilegt til þess að vita, að þær komi á næstunni út í vandaðri þýðingu á ensku. Eiga þeir einstaklingar, sem að útgáfunni hafa staðið, mikinn heiður skilinn.

Framtak af þessu tagi auðveldar alla kynningu á íslenskri menningu. Við það starf er eins og endranær árangursríkast, að af opinberri hálfu sé búið í haginn fyrir áhugasama einstaklinga. Í þeim anda á Stofnun Sigurðar Nordals að starfa og hefur hún á starfstíma sínum lagt fjölmörgum lið í viðleitninni við að kynna íslenska menningu.

Stofnunin hefur samband við stofnanir og einstaklinga í öllum heimsálfum og fær upplýsingar frá þeim. Sinnir fyrirspurnum um kennslu og rannsóknir og kennslugögn í íslensku fyrir útlendinga. Hún gengst fyrir árlegum sumarnámskeiðum í íslensku í samvinnu við heimspekideild Háskóla Íslands og hefur forgöngu um kennslu í íslensku og íslenskum fræðum erlendis, hefur umsjón með sendikennslu og annast þjónustu við sendikennara og sér um kynningu á íslenskri menningu erlendis í samráði við þá. Stofnunin sér um styrki Snorra Sturlusonar en þeir eru boðnir árlega erlendum fræðimönnum, rithöfundum og þýðendum til að dveljast á Íslandi. Þá á hún aðild að hinni nýju Snorrastofu í Reykholti.

Við mótun stefnu um kynningarstarf á íslenskri menningu er óeðlilegt að draga mörk á milli fornrita annars vegar og nútímabókmennta hins vegar, svo að dæmi sé tekið. Við nýtum hvorki efnivið né krafta með réttum hætti nema átakið sé einhuga.

Stofnun Sigurðar Nordals sinnir aðeins einum kynningarþætti íslenskrar menningar. Á menntamálaráðuneytið eðlilega oft beinan þátt í slíku kynningarstarfi. Er vaxandi áhugi bæði austan hafs og vestan á því að líta til hins sameiginlega arfs frá þeim tíma, þegar Ísland var að byggjast. Þennan áhuga á að nýta í þágu íslenskrar nútímamenningar. Einnig tækifæri sem gefast eins og 1000 ára afmæli landafundanna í Norður-Ameríku eftir fáein ár.

Við almenna ferðamálakynningu á Íslandi ber að leggja aukna áherslu á menningarþáttinn. Er ekkert betra til að skapa nýja vídd í íslenskri ferðamennsku og festa hana enn betur í sessi sem öfluga atvinnugrein en aukin áhersla um allt land á listir og menningu. Ætti það ekki að vera erfitt, þegar litið er til hinnar miklu grósku, sem einkennir íslenskt listalíf um þessar mundir. Í nýrri ferðamálstefnu hafa menn sett sér markmið að þessu leyti. Tel ég, að Stofnun Sigurðar Nordals hafi hlutverki að gegna við framkvæmd slíkrar stefnu.

Góðir áheyrendur!

Þegar við metum stöðu íslenskrar menningar, stöndum við alls ekki í sömu sporum og Guðrún, þegar hún segir:
Einstæð em eg orðin
sem ösp í holti,
fallin að frændum
sem fura að kvisti...


Þessi alþjóðlega ráðstefna um íslenska málssögu og textafræði staðfestir það. Vil ég þakka öllum, sem hingað koma og leggja fram krafta sína og þekkingu.

Sigurður Nordal taldi, að í hinni fornu bannhelgi fælist áminning einhverra hulinna náttúruvalda um, að jörðin væri mannkindinni ekki skilyrðislaust undirgefin, og að Íslendingar ættu í henni og hinni fornu hugmynd um landvætti lifandi kjarna átrúnaðar, sem vonandi kulnaði ekki. Sigurður bjó yfir hugmyndaflugi og dirfsku til að gera menningararfinn að tæki í glímunni við nútímaleg úrlausnarefni. Megi það vera okkur leiðarljós, þegar við sinnum þeirri vegsemd að halda íslenskri menningu og tungu fram á alþjóðavettvangi.

Ég óska Stofnun Sigurðar Nordals mikils árangurs í störfum hennar.