28.6.1996

Stuðningur við Pétur Kr. Hafstein - Morgunblaðsgrein

Pétur Kr. Hafstein er traustsins verður

Fjórðu almennu kosningabaráttunni um embætti forseta Íslands er senn að ljúka. Aldrei hefur hún verið háð undir jafnmiklum þunga fjölmiðlunar og að þessu sinni. Aldrei hafa menn gengið til kosningabaráttunnar með jafnmiklar heitstrengingar um að beita embættinu jafnt inn á við og út á við. Áherslurnar í málflutningi sumra frambjóðenda hafa að vísu breyst nokkuð í hita leiksins með hliðsjón af því, hvaða vísbendingar skoðanakannanir hafa gefið um almenningsálitið. Að lokum verður erfitt að henda reiður á auka- og aðalatriðum.

Vert er að minnast þess, að forsetaembættið varð til við allt aðrar aðstæður en nú ríkja í þjóðfélagi okkar. Fyrsti forsetinn, Sveinn Björnsson, var raunar ekki kosinn í almennum kosningum heldur á fundi Alþingis á Þingvöllum við stofnun íslenska lýðveldisins 1944. Ólíklegt er, að nokkrir þeirra, sem þar sátu og tóku ákvörðun um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, hafi gert sér í hugarlund þá breytingu, sem yrði á íslenska þjóðfélaginu rúma hálfa öld fram í tímann.

Ákvæði stjórnarskrárinnar um völd og áhrif forseta Íslands hafa verið túlkuð og framkvæmd með varúð og virðingu. Nokkuð hefur borið á því undanfarnar vikur, að menn hafi viljað breyta um áherslur í þessu efni og gefið til kynna, að embættinu fylgdi annað og meira en stjórnarskráin segir. Látið er í veðri vaka, að forseti Íslands geti með sjálfstæðum hætti beitt sér á alþjóðavettvangi án tillits til þeirrar stefnu sem Alþingi og ríkisstjórn hafa mótað.

Varað við ranghugmyndum

Hitinn í kosningabaráttunni og sífelld þörf fyrir að koma einhverju nýju á framfæri við fjölmiðla getur gefið vísbendingar um, að annað og meira felist í því að kjósa forseta Íslands en í stjórnarskránni stendur. Hættulegt er að skapa slíkar ranghugmyndir um forsetaembættið ekki síst, þegar rætt er um samskipti við önnur ríki. Annarra þjóða menn miða almennt viðhorf sín til forsetaembættis við allt aðrar aðstæður en þær, sem eru hér á landi. Þannig hafa þjóðkjörnir forsetar í Finnlandi, Frakklandi og Bandaríkjunum miklu meiri pólitísk völd en forseti Íslands, sem er ábyrgðarlaus af stjórnarathöfnum. Hér hvílir öll pólitísk ábyrgð á Alþingi og ríkisstjórn.

Raunar getur það eitt að kjósa til forseta einhvern, sem hefur í pólitísku starfi eða á öðrum vettvangi, verið með áberandi hætti andsnúinn ríkjandi stefnu þjóðar sinnar í utanríkismálum og samskiptum við önnur ríki, gefið forystumönnum annarra landa hættuleg merki. Síst af öllu þurfum við Íslendingar á því að halda nú á tímum sívaxandi alþjóðasamvinnu að senda frá okkur slík merki. Raunar yrði það í hróplegri andstöðu við þá staðreynd, að meiri samstaða ríkir nú um meginstefnuna í utanríkis- og öryggismálum en nokkru sinni fyrr, frá því að lýðveldið var stofnað.

Á hinu er heldur alls ekki þörf að telja þjóðinni trú um, að hún kjósi forseta til að gegna einhverju allt öðru hlutverki en stjórnarskráin felur forseta Íslands. Slíkt kynni að kalla á óþarfa og erfiða spennu um hið friðhelga forsetaembætti, sameiningartákn þjóðarinnar, hafið yfir flokkadrætti og deilur.

Þegar allt þetta er haft í huga, er ljóst, að líklega er embætti forseta Íslands enginn greiði með því gerður, að um það sé kosið með þeim hætti, sem við gerum. Þeim mun frekar reynir á, að frambjóðendur til þess gangi fram með þeim hætti, að þeir veki ekki ranghugmyndir um stöðu forsetans, hlutverk hans og völd.

Merki embættisins haldið á loft

Í mínum huga er enginn vafi á því, að af þeim frambjóðendum, sem kosið er um í kosningunum á laugardag, hefur Pétur Kr. Hafstein dregið upp raunsannasta mynd af skyldum forseta með málflutningi sínum í baráttu undanfarinna vikna. Pétur er líklegastur frambjóðendanna til að gefa embættinu þá virðingu og vigt sem forsetar lýðveldisins hafa gert fram að þessu. Í rúm 50 ár höfum við kynnst því, hvernig þetta hefur verið gert af fjórum ólíkum einstaklingum. Hver þeirra hefur með sínum hætti sett sinn svip á forsetaembættið en alltaf hefur það verið þjóðinni mikilvægt sameiningartákn. Í forsetakosningum eigum við að velja einstakling sem getur haldið merki þessa virðulega embættis á loft. Pétur Kr. Hafstein er þess trausts verður.