16.6.1996

Bessastaðakirkja 200 ára - ávarp

Ávarp í tilefni af 200 ára afmæli Bessastaðakirkju.


Í fjarveru dóms- og kirkjumálaráðherra er það mér heiður að vera hér í dag fyrir hönd ríkisstjórnarinnar við þessa hátíðlegu og menningarlegu athöfn, þegar 200 ára afmælis Bessastaðakirkju er minnst.

Í bók sinni Bessastaðir, sem kom út 1947, segir Vilhjálmur Þ. Gíslason, að af Bessastaðakirkju sé einkennileg saga. Þótt kirkjan hafi verið á höfuðbóli hafi hún ekki orðið höfuðkirkja. Skýringin er sú, að Bessastaðir voru veraldlegt en ekki kirkjulegt höfuðból. Eins og við vitum einkennist Íslandssagan öðrum þræði af átökum milli hins veraldlega og andlega valds. Kirkjuhúsin á Bessastöðum báru þeirrar togstreitu oft merki.

Vilhjálmur segir orðrétt: „Kirkjurnar voru hugsaðar stórar og byggðar litlar. Svo fór samt að lokum, að myndarleg kirkja reis á Bessastöðum, en um viðhald hennar gekk á ýmsu. Sumir húsbændur á Bessastöðum voru einlægir trúmenn, sem létu sér annt um kirkjuna, öðrum lá það í léttu rúmi, hvað um hana yrði."

Þegar þessi orð voru rituð höfðu Bessastaðir aðeins verið forsetasetur í skamman tíma og ekki hafði verið ráðist í hinar gagngerðu breytingar á kirkjunni, sem við síðan höfum kynnst. Má af þeim ráða, að húsbændur hér á þessum stað síðustu hálfu öld hafi verið í hópi hinna einlægu trúmanna, sem láta sér annt um kirkjuna. Á þessari stundu skal þess óskað, að svo verði enn um langa framtíð.

Sem fulltrúi hins veraldlega valds, er kann að meta mikilvægi kirkjunnar og vill hlut hennar sem bestan jafnt á Bessastöðum sem annars staðar, er mér ljúft að skýra frá því, að ríkisstjórnin hefur ákveðið að færa Bessastaðakirkju 400 þúsund krónur að gjöf, sem renni í orgelsjóð kirkjunnar. Bið ég kirkjuna og söfnuð hennar vel að njóta með hamingjuóskum.