31.5.1996

Vættatal í Sigurjónssafni - ávarp

Ávarp við upphaf sýningar í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar á verkum Sigurjóns og Páls Guðmundssonar frá Húsafelli.
9. júlí 1996

Í upphafi máls míns vil ég færa frú Birgittu Spur þakkir fyrir að fá tækifæri til að segja nokkur orð við upphaf þessarar sýningar hér í dag á verkum Sigurjóns Ólafssonar og Páls Guðmundssonar frá Húsafelli undir heitinu Vættatal.

Tilefnið vil ég nýta til að færa frú Birgittu og fjölskyldu hennar þakkir fyrir ómetanlegt framlag þeirra til lista og menningarlífs í Reykjavík með því að stofna og starfrækja Listasafn Sigurjóns Ólafssonar.

Ræktarsemin við list og ævistarf Sigurjóns hér á þessum stað er til fyrirmyndar. Hlutur Sigurjóns Ólafssonar í íslenskri listasögu er mikill og góður. Hér blasir hann ljóslifandi við okkur og í ýmsum myndum í samræmi við hugkvæmni og framtak þeirra, sem safninu stjórna. Rannsóknir og umfjöllun um list Sigurjóns Ólafssonar bregða jafnframt ljósi á þróun listsköpunar í stærra samhengi bæði innan lands og utan.

Á sýningunni Vættatal er teflt fram verkum Sigurjóns og Páls Guðmundssonar frá Húsafelli. Sýningin er framlag Listasafns Sigurjóns Ólafssonar til Listahátíðar í Reykjavík 1996. Ástæða er til að fagna þessu framlagi til þeirrar miklu veislu sýninga og listviðburða, sem nú stendur. Í huga þeirra, sem nálgast þessar sýningar án sérþekkingar, vakna margar spurningar um stefnur og efnistök, því að hér í Reykjavík er þessa dagana unnt að kynnast margbrotnum straumum í myndlist samtímans bæði af verkum innlendra og erlendra listamanna. Hér á þessari sýningu erum við minnt á undirstöðuna sjálfa. Fyrsta skref mannsins á langri braut lista og verkmenningar var að nýta steininn. Teikna og mála hellaveggi og breyta steini í verkfæri. Hér kynnumst við því, sem Páll sér í steininum. Verk Sigurjóns hafa að þessu sinni verið valin vegna skírskotunar þeirra til þjóðtrúar og sagna.

Ég ítreka þakkir mínar til Birgittu Spur og fjölskyldu hennar og óska Listasafni Sigurjóns Ólafssonar til hamingju með sýninguna Vættatal. Ákvörðunin um að setja hana upp á þessum grunni með þátttöku tveggja ólíkra listamanna er í sjálfu sér skapandi ögrun. Sýningin Vættatal er opnuð.