25.4.1996

Þing Rafiðanaðarsambandsins - ávarp

Ávarp á 13. þingi Rafiðnaðarsambands Íslands
25. apríl 1996.

Í upphafi máls míns vil ég óska ykkur öllum gleðilegs sumars og jafnframt færa Rafiðnaðarsambandinu árnaðaróskir á 25 ára afmæli þess.

Ég þakka fyrir það tækifæri að fá að koma hér til að árétta það mikilvægi, sem forráðamenn sambandsins leggja á gildi menntunar. Raunar hefur Rafiðnaðarsambandið verið til fyrirmyndar, þegar litið er til framtaks þess í menntunarmálum félagsmanna sinna. Rafiðnaðarskólinn er virt stofnun hér á landi og meðal rafiðnaðarmanna í öðrum löndum, sem hafa kynnt sér starfsemi hans.

Framsýni þeirra, sem að skólanum standa, kemur ekki síst fram í áherslu á endurmenntun. Hvarvetna gera menn sér nú gleggri grein fyrir því en áður, hve mikilvæg símenntun er. Án hennar eigum við á hættu að dragast aftur úr og heilu þjóðfélögin að verða undir í samkeppni á heimsmælikvarða. Símenntun er ekki síst mikilvæg í grein á borð við rafiðnað, þar sem framfarir eru örar. Engum blöðum er hins vegar um það að fletta að einmitt á því sviði höfum við Íslendingar haldið í við nágrannaþjóðirnar og jafnvel meira en það. Okkur hefði ekki tekist það án vel menntaðra og metnaðarfullra rafiðnaðarmanna.

Þegar ég las hina myndarlegu ársskýrslu, sem lögð er fram hér á þinginu, rakst ég á kafla, sem ber fyrirsögnina Baráttan við ráðuneytin. Fletti ég honum til að sjá, hvort rafiðnaðarmenn teldu sig eiga í nokkru stríði við ráðuneytið, sem ég hef stýrt í rétt rúmlega eitt ár. Eins og menn vita getur slíkt kostað bæði tíma og orku andspænis ágætum formanni ykkar. Mér til léttis sá ég, að þessa stundina að minnsta kosti standið þið ekki í neinni baráttu við menntamálaráðuneytið. Þvert á móti er þess getið, að menntamálaráðherra hafi orðið við óskum Rafiðnaðarsambandsins um að fella á næstu fjórum árum á brott ákvæði í lögum þess efnis, að menn geti gengið undir sveinspróf eftir að hafa starfað í 10 ár eða lengur á starfsviði löggiltrar iðngreinar.

Þessi lagabreyting kemur til sögunnar, ef frumvarp til nýrra framhaldsskólalaga verður samþykkt eins og ég lagði það fyrir Alþingi síðastliðið haust. Frumvarpið hefur síðan verið til meðferðar í menntamálanefnd þingsins og á ég von á því, að í næstu viku birtist niðurstaða nefndarinnar og Alþingi muni samþykkja nýja skipan framhaldsskólans nú í vor.

Ég lít þannig á, að á grundvelli nýrra laga verði auðveldara en áður að halda áfram hinu miklu og góða samstarfi, sem tekist hefur milli menntamálaráðuneytisins og Rafiðnaðarsambandsins. Tek ég í því efni undir það, sem fram kemur í öðru skjali þessa þings, það er drögum að stefnu Rafiðnaðarsambandsins til ársins 1999. Er gleðilegt að sjá, hve rík áhersla er þar lögð á menntamál. Náist þau markmið öll, er ljóst, að Rafiðnaðarsambandið verður áfram í fararbroddi að þessu leyti.

Á árinu 1991 gerði menntamálaráðuneytið samkomulag við Rafiðnaðarskólann um að skólinn tæki að sér gerð námskrár í faggreinum rafiðngreina. Skólinn stóð vel að þessu verki og hefur umsömdum verkum verið skilað. Fyrr á þessu ári samdi ráðuneytið við skólann um að hann tæki að sér kennslu í faggreinum meistaranáms í rafiðngreinum. Ætti þetta samstarf ráðuneytisins og skólans að geta orðið öðrum fyrirmynd.

Hinn 17. apríl síðastliðinn óskuðu Rafiðnaðarskólinn og Fræðslumiðstöð rafiðnaðarmanna eftir því, að rammasamningurinn frá 1991 yrði endurnýjaður. Stendur vilji minn eindregið til þess, að það verði gert. Hins vegar er eðlilegt, að þess verði beðið, að ný framhaldsskólalög taki gildi, þannig að samkomulagið takið mið af þeim.

Óskir hafa komið fram um, að settur verði á laggirnar svonefndur stýrihópur í rafeindavirkjun, þar sem þeir kæmu saman, er sinna námi á þessu sviði með þátttöku fulltrúa menntamálaráðuneytisins. Hef ég orðið við þessum óskum og vona að góð sátt takist um þessa skipan í því skyni að fyrir hendi sé vettvangur, þar sem menn geti borið saman bækur sínar.

Góðir fundarmenn!

Ég ítreka heillaóskir mínar til Rafiðnaðarsambandsins á þessum tímamótum og læt í ljós vilja minn til að starfa áfram náið með sambandinu að framsýnni stefnu í menntamálum.