19.4.1996

Ræða á aðalfundi Rannís

Ræða á aðalfundi Rannsóknarráðs Íslands
19. apríl 1996.

Hinn 31. mars síðastliðinn voru liðin 400 ár frá fæðingu heimspekingsins René Descartes, sem hefur verið nefndur fyrsti nútímahugsuðurinn. Áður höfðu menn litið á sköpunarverkið sem verk guðs almáttugs, en Descartes setti fram hugmyndina um, að maðurinn gæti í krafti vísinda orðið herra náttúrunnar. Hann sagðist hugsa og þess vegna væri hann til. Auk þess leit hann á þekkinguna eins og tré og væru rætur þess frumspekin, stofninn eðlisfræði og frjósamar greinarnar siðvísindin og nytjavísindin.

Í nútíma þjóðfélögum á borð við hið íslenska er brýnna en nokkru sinni fyrr, að við töku mikilvægra ákvarðana liggi fyrir vísindaleg rannsókn og ráðgjöf. Þótt brjóstvitið hafi lengi verið í hávegum haft meðal okkar, dugar það ekki alltaf.

Við Íslendingar eigum tiltölulega stutta sögu rannsókna og vísinda. Opinber afskipti af málaflokknum í þeirri mynd, sem við þekkjum nú á tímum, er þó enn skemmri, því að Rannsóknaráð ríkisins er stofnað 1940 og Vísindasjóður ekki fyrr en 1957. Það var svo ekki fyrr en 1987, að lög voru sett um heildarskipan yfirstjórnar vísinda- og tæknimála. Var Vísindaráði þá komið á fót til að sinna grunnrannsóknum og veita styrki úr Vísindasjóði en Rannsóknaráð ríkisins sinnti hagnýtum rannsóknum og veitti styrki úr Rannsóknarsjóði. Með lögum, sem tóku gildi 1. júlí 1994, voru Vísindaráð og Rannsóknaráð ríkisins sameinuð í eina stofnun eða eitt ráð, Rannsóknarráð Íslands.

Samkvæmt lögum er það hlutverk Rannsóknarráðs Íslands að treysta stoðir íslenskrar menningar og atvinnulífs með því að stuðla að markvissu vísindastarfi, tækniþróun og nýsköpun. Innan við tveggja ára reynsla er af þessu nýja ráði og starfi þess. Eru miklar vonir bundnar við hina nýju skipan og mikils virði, að vel takist á þessum upphafstíma.

Í stefnuyfirlýsingu annars ráðuneytis Davíðs Oddssonar, sem var myndað 23. apríl 1995, segir, að vegur menntunar og rannsókna verði aukinn, en það sé forsenda nýsköpunar í atvinnulífinu.

Í febrúar síðastliðnum gaf ég út verkefnaáætlun menntamálaráðuneytisins fyrir þetta kjörtímabil. Þar segir, að öflugt rannsóknar- og þróunarstarf sé forsenda framfarasóknar í íslensku þjóðlífi. Til að vísindasamfélagið fái að þroskast og þróast á næstu árum sé þörf á frekari aðgerðum til að skapa hér ákjósanlegra starfsumhverfi til rannsókna og vísindastarfsemi.

Áfram verði fylgt þeirri vísinda- og tæknistefnu, sem mótuð var á síðasta kjörtímabili og lagt verði mat á framkvæmd stefnunnar og hún löguð að ýtrustu kröfum á hverjum tíma. Einnig segir í verkefnaáætlun menntamálaráðuneytisins fyrir þetta kjörtímabil:


"Vísindasamfélagið verður að laga sig að breyttum aðstæðum. Áfram ber að hafa í huga hið mikilvæga hlutverk háskóla, að þar séu stundaðar rannsóknir án þess að þær hafi augljóst hagnýtt gildi. Það endurnærir og skerpir háskóla í því meginviðfangsefni þeirra að veita sívaxandi fjölda námsmanna víðtæka menntun á grundvelli bestu fáanlegrar þekkingar á hverjum tíma.
Nýta verður sem best fjármagn til rannsókna og vísinda og tryggja að bæði nýjar og hefðbundnar atvinnugreinar eigi jafnan aðgang að rannsóknarfé, meðal annars með því að nýta möguleika sem bjóðast í alþjóðlegu samstarfi. Áfram skal miðað við að 20% af andvirði seldra ríkisfyrirtækja renni til enn frekari eflingar rannsóknar- og þróunarstarfs. Styrkir á þessu sviði eiga í auknum mæli að taka mið af árangri.

Skoða ber sérstaklega hvernig stjórnun rannsóknastofnana er háttað. Treysta verður rekstrarlega ábyrgð og sjálfstæði þessara stofnana. Mikilvægt er að það fjármagn sem varið er til rannsókna og vísindastarfsemi renni til sem fjölbreytilegastrar starfsemi og þar sem vaxtarbrodda má finna í atvinnulífinu.

Stuðlað skal að virkara samstarfi fyrirtækja, háskóla og háskólastofnana á sviði hagnýtra rannsókna og hvatt til sem víðtækastrar þátttöku þessara aðila í fjölþjóðlegu samstarfi um rannsóknir og þróun, einkum á vettvangi Evrópusamvinnu.’’


Menntamálaráðuneytið hefur einnig nýlega gefið út ritið "Í krafti upplýsinga", þar sem er að finna tillögur þess um nýtingu hinnar öflugu upplýsingatækni í þágu menntunar, menningar, rannsókna og vísinda. Á fáum sviðum er unnt að nýta þessa tækni betur en til vísindarannsókna, tæknirannsókna og þróunarstarfs. Einnig er nauðsynlegt að efla rannsóknar- og þróunarstarf á sviði upplýsingatækni. Nýta verður sem best tækifæri sem upplýsingatækni veitir til nýsköpunar í framleiðslu, þjónustu og opinberri stjórnsýslu, svo og til vaxtar í atvinnulífi. Rannsóknir, þróunarstarf og þekkingarmiðlun eru bestu aðgerðirnar til að stuðla að farsælli aðlögun íslenska þjóðfélagsins að hraðfara breytingum á öld upplýsingatækni.
Af hálfu ráðuneytisins er gert ráð fyrir, að Rannsóknarráð Íslands haldi áfram að safna og vinna úr upplýsingum um vísindi og tækni í landinu. Ráðuneytið hefur hafið undirbúning að því að taka saman upplýsingar og skipuleggja gagnasafn um rannsóknir og mannauð, það er að segja upplýsingar sem ekki er þegar haldið til haga af öðrum aðilum. Markmiðið með þessu starfi og söfnun annarra upplýsinga er að skapa betri forsendur fyrir töku ákvarðana og umræður um vísinda- og tæknimálefni í landinu. Á þessu sviði er jafnbrýnt og endranær, að byggt sé á traustum grunni við allar ákvarðanir.

Fyrir fáeinum dögum gaf fjármálaráðuneytið út rit með hugmyndum um hvernig megi styrkja samkeppnisstöðu Íslendinga gagnvart öðrum þjóðum. Í formála þess segir fjármálaráðherra, að til að ná markmiðum ritsins um bætta samkeppnisstöðu Íslands þurfi í fyrsta lagi að efla almenna menntun og tækniþekkingu.

Hugmyndasmiðirnir um bætta samkeppnisstöðu Íslands komu úr röðum þeirra, sem standa að rekstri fyrirtækja í harðri samkeppni. Þeir minna á, að fjárframlag til Rannsóknarráðs Íslands hefur nær tvöfaldast á nokkrum árum og segja, að bætt almenn skilyrði í rekstri fyrirtækja hérlendis séu án efa einhver þýðingarmesta búbót fyrir rannsóknar- og þróunarstarfsemi. Búi fyrirtækin við stöðugt rekstrarumhverfi og fái að græða skapist aukið svigrúm fyrir fjárfestingar í þróunarstarfi. Þá segir orðrétt:


"Nýlega voru gerðar breytingar á skattalögum þar sem rekstraraðilar geta dregið tapað hlutafé frá skatti. Skattalegar aðgerðir sem þessar styrkja rannsóknar- og þróunarstarf, ekki síst í minni fyrirtækjum sem eiga fyrir vikið auðveldara með að leita til stærri fjárfesta um þátttöku í nýsköpun. Fleiri skattalegar aðgerðir geta komið til sem auka nýsköpunarstarf fyrirtækja.’’

Talið er nauðsynlegt að skapa hér ákjósanlegra starfsumhverfi til rannsókna og vöruþróunar. Þar séu nokkrir þættir sem brýnast sé að skoða: Almennt rekstrarlegt umhverfi rannsóknar- og þróunarstarfs, stjórnun rannsóknarstofnana, forgangsröðun í rannsóknarstarfsemi, val á viðfangsefnum eða atvinnugreinum og alþjóðlegt samstarf. Þá segir í þessu ágæta hugmyndariti, að nýgræðingar í flóru íslensks atvinnulífs virðist því miður oft ekki skjóta rótum innan þess rannsóknastofnanakerfis sem er við lýði.
Í sömu andrá og horfið er frá þessu riti fjármálaráðuneytisins fer vel á að minnast frumkvæðis þriggja stærstu fyrirtækjanna á Akureyri, Útgerðarfélags Akureyringa hf., Samherja hf. og Kaupfélags Eyfirðinga, sem kynnt var í lok síðasta mánaðar. Þau vilja taka höndum saman með opinberum aðilum um að stofna fyrirtæki á Akureyri til að styrkja með rannsóknum framleiðslu og nýsköpun í matvælaiðnaði.

Ég tel, að af hálfu yfirvalda rannsóknarmála í landinu beri að taka þessu frumkvæði stórfyrirtækjanna á Akureyri fagnandi. Þar er síður en svo um góðgerðarstarfsemi að ræða heldur viðurkenningu á þeirri staðreynd, að nútímafyrirtæki fá ekki þrifist án samstarfs við rannsóknarstofnanir og á grundvelli þess starfs, sem unnið er innan veggja þeirra. Í þessu efni er um gagnkvæma hagsmuni að ræða milli fyrirtækja og vísinda- og rannsóknarstofnana.

Almenn áhersluatriði í stefnu stjórnvalda varðandi rannsóknir og þróun eru skýr. Einnig liggur fyrir, að af hálfu þeirra, sem standa að rekstri fyrirtækja, er aukinn áhugi á samstarfi við rannsóknarstofnanir og vísindamenn. Ég hef einnig orðið var við það, að af hálfu menntastofnana og einstakra háskóladeilda eins og verkfræðideildar Háskóla Íslands og sjávarútvegsdeildar Háskólans á Akureyri er aukinn áhugi á samstarfi við fyrirtæki og stofnanir utan skólanna.

Rannsóknarráð Íslands þarf að móta afstöðu sína til verkaskiptingar á milli opinberra aðila og atvinnulífs á sviði tækni og vísinda. Ráðið þarf að skilgreina eigin stöðu í þessu efni og gera tillögur um það, sem kynntar séu viðkomandi aðilum til að hlutverk ráðsins sem þjónustustofnunar og ráðgjafa sé skýrt. Verður í þessu tilliti fróðlegt að sjá viðbrögð forystumanna í atvinnulífinu við þeirri stefnu, sem Rannsóknarráð Íslands hefur kynnt undir heitinu "Að treysta stoðir framtíðar".

Hér að framan var vísað til þess, að með stöðugleika, bættu starfsumhverfi fyrirtækja og gróða þeirra myndi fjárstuðningur fyrirtækjanna við rannsóknir og þróun aukast. Þessi almennu skilyrði ráða ef til vill mestu fyrir rannsóknar- og vísindastarf í landinu, þótt þau gleymist gjarnan, þegar óskum um auknar opinberar fjárveitingar er beint til ríkisstjórnar og Alþingis. Má fullyrða, að þessi skilyrði séu nú fyrir hendi hér á landi.

Nú reynir því á, hvernig vísindasamfélagið bregst við breyttri stöðu, þegar fyrirtæki í öllum atvinnugreinum eru rekin með hagnaði. Stjórnendur fyrirtækjanna munu væntanlega sjálfir taka ákvarðanir um það, hvar þeim finnst helst þörf á aðstoð þeirra, sem sinna rannsóknum og þróun. Rannsóknarráð Íslands hlýtur hins vegar að hafa mikilvægu hlutverki að gegna við að skilgreina það, sem er í boði fyrir atvinnulífið. Ráðið þarf að huga að samstarfi atvinnulífs og stofnana til að vekja enn frekari áhuga fyrirtækja á auknum útgjöldum til rannsókna og þróunarverkefna.

Raunar má spyrja, hvort þetta verkefni sé brýnna fyrir Rannsóknarráð Íslands en að ákvarða forgangsröðun einstakra sviða rannsókna og þróunarstarfsemi. Slík röðun er vissulega mikilvæg en kann að verða næsta almennt orðuð stefnuyfirlýsing um alla meginþætti þjóðlífsins og tengsl þeirra við vísindi og rannsóknir.

Á það hefur verið bent í fræðilegri úttekt á leiðum til að bæta samkeppnisstöðu Íslands, að háskólar og opinberar rannsóknarstofnanir ættu að færa rannsóknir frá grunnrannsóknum eða hreinum vísindum yfir á svið þar sem atvinnulífð geti betur nýtt sér þær og leggja áherslu á rannsóknar- og þróunarverkefni sem líkleg eru til að bæta samkeppnishæfi íslenskra fyrirtækja. Æðri menntastofnanir og aðrar rannsóknastofnanir á Íslandi hafa varið um 60% af rannsóknar- og þróunarfé til grunnrannsókna fremur en til rannsókna sem tengjast atvinnuvegunum.

Góðir áheyrendur!

Ég er eindregið þeirrar skoðunar, að samkeppnisstaða íslensku þjóðarinnar ráðist af menntun okkar, rannsóknum og vísindum, sem nýtast í atvinnulífi þjóðarinnar. Eins og framkvæmdastjóri OECD benti á hér í vikunni er menntunarstig þjóðarinnar helsti auður hennar og styrkur. Vísindasamfélagið á ekki að vera hópur manna, sem er einangraður frá þjóðlífinu, heldur virkur þátttakandi á öllum sviðum. Rannsóknarráð Íslands hefur mikilvægu hlutverki að gegna við að brúa bilið milli vísinda og framgangs á öðrum sviðum þjóðlífsins.

Einangrunarhyggja er andstæða skynsamlegrar vísinda- og rannsóknarstefnu Íslendinga. Þátttaka í evrópska efnahagssvæðinu hefur tryggt auknar fjárveitingar til rannsókna og þróunar. Þar er ekki um bónbjargir að ræða heldur afrakstur af fjárfestingu íslenska ríkisins í hinu evrópska rannsóknarsjóðakerfi. Við eigum að nýta okkur þetta kerfi, því að það kallar á samkeppni, sem er brýnni fyrir lítil samfélög en hin stærri, þar sem keppnin er meiri á heimamarkaði. Á sviði vísindasamfélagsins er samkeppnin aflvaki eins og annars staðar og þar keppum við í úrvalsflokki á Evrópuvettvangi.

Federico Mayor, forstjóri UNESCO, var gestur hér í síðustu viku. Hann lýsti miklum áhuga á því, að þekking Íslendinga í haffræði og sjávarútvegsfræðum nýttist sem best fyrir allt mannkyn. Vildi hann stuðla að því, bæði með því að erlendir menn kæmu til náms hér eða farandprófessor héðan bæri þekkingu sína um heimsbyggðina. Hér er um einstakt tækifæri að ræða, sem við verður að bregðast af þeim stofnunum og vísindamönnum, sem til álita koma. Góð viðbrögð við áskorun af þessu tagi gætu orðið upphaf sóknar á fleiri sviðum.

Sjálfur kemur Mayor úr vísinda- og háskólasamfélagi og nýtir reynslu sína á þeim vettvangi til að takast á við brýn úrlausnarefni líðandi stundar á heimsmælikvarða. Er ekki vafi, að UNESCO er í góðum höndum undir hans stjórn. Hann hefur sagt, að menn séu ekki aðeins í háskólum til að halda sjálfum sér fram eða afla sjálfum sér þekkingar heldur til þess að deila þekkingu sinni með öðrum.

Í Orðræðu um aðferð segir Descartes:

„Ég lagði því bóknámið á hilluna, jafnskjótt og ég varð nógu gamall til að losna undan yfirráðum kennara minna, og afréð að leita ekki framar eftir öðrum vísindum en þeim, sem ég fyndi í sjálfum mér eða hinni miklu bók heimsins. Ég varði því, sem eftir var æskuáranna, til ferðalaga, til að sjá hirðir og heri, kynnast fólki, ólíku hugarfari og kjörum, heyja mér ýmislega reynslu, ..."

Við getum ekki leyft okkur þennan munað nú á dögum, viljum við ná árangri. Kröfurnar eru aðrar en fyrir 400 árum, þótt ekki megi gleymast, að bók heimsins má ekki vera lokuð þeim, sem vísindin stunda, né heimur vísindanna okkur, sem eigum æ meira undir þeim.