22.3.1996

Menntakröfur atvinnulífsins

Ávarp á ráðstefnu Félags viðskipta- og hagfræðinga
22. mars kl. 14.00 á Hótel Loftleiðum


Menntakröfur atvinnulífsins á nýrri öld
Góðir áheyrendur!
Ráðstefna þessi er haldin undir heitinu ,,Menntakröfur atvinnulífsins á nýrri öld". Ég get ekki fyrir hönd atvinnulífsins svarað hverjar þær kröfur eru en mig langar í nokkrum orðum að fara yfir hvernig menntakerfið er í stakk búið að mæta kröfunum og að greina frá hvaða áherslur verða ríkjandi í stefnumótun í menntamálum á næstu árum.

Fjórar meginhugmyndir munu einkenna stefnumótun í menntamálum fram að aldamótum. Í fyrsta lagi að íslenskt menntakerfi fylgi eftir örum samfélagsbreytingum en sé ekki einangrað og ofverndað. Í öðru lagi verður áhersla á símenntun í þekkingarsamfélaginu. Í þriðja lagi breytist hlutverk ríkisvaldsins í menntamálum og í fjórða lagi eykst samkeppni í menntamálum í víðum skilningi.

Á þessu sést að ríkisvaldið þarf að bregðast skipulega við hinni öru samfélagslegu þróun. Áfram verður í verkahring ríkisins að veita grunnmenntun í leikskólum og grunnskólum. Grunnmenntun veitir aðgang að vinnumarkaði, en hún tryggir ekki veru fólks þar nema það endurnýji stöðugt færni sína og þekkingu. Það er því mikilvægt að skólarnir efli hæfileika einstaklinga til að nema og skapi hjá þeim jákvætt viðhorf til símenntunar. Það er í verkahring ríkisvaldsins að sníða nám að kröfum atvinnulífins og verður það fyrst og fremst gert á efri skólastigum. Hægt er að opna framhaldsskóla og háskóla fyrir meira samstarfi við atvinnulífið. Er það til dæmis gert með framhaldsskólafrumvarpinu sem nú er til umfjöllunar á Alþingi. Fulltrúar atvinnulífsins munu fá aukna aðild að stefnumótun, stjórnun og framkvæmd starfsnáms og skólanum er ætlað að þjóna sínu nánasta samfélagi sem best. Hins vegar getur ríkisvaldið ekki án frumkvæðis í atvinnulífinu náð til þeirra 65 þúsund starfsmanna á vinnumarkaði, sem einungis hafa grunnmenntun. Nú þegar má sjá aukinn áhuga á símenntun á vinnumarkaðinum. Ég var til dæmis á fundi með samstarfsnefnd um starfsmenntun síðastliðinn föstudag. Nefndin er sameiginlegur vettvangur landssambanda og stéttarfélaga launafólks utan löggiltra iðngreina innan ASÍ sem vilja láta starfsmenntamál til sín taka. Einnig má sjá þennan áhuga birtast í aukinni áherslu fyrirtækjanna sjálfra á símenntun. Til dæmis er gert ráð fyrir að Eimskip verji 30 milljónum króna til menntunar starfsmanna á þessu ári og eru þá ekki meðtalin laun starfsmanna, sem að fræðslunni koma, né laun þeirra, sem taka sér hlé frá öðrum störfum til að sækja sér fræðslu.

Evrópusambandið ákvað á síðasta sumri að helga árið 1996 símenntun til að ýta undir almenna umræðu í Evrópu um mikilvægi menntunar og þjálfunar á nýrri öld. Ísland tekur þátt í þessu átaksverkefni og hafa eftirfarandi markmið verið skilgreind fyrir aðgerðir á Íslandi:


Að auka vitund almennings, stjórnenda fyrirtækja og skóla eða fræðsluaðila um að menntun er æviverk, en ekki eitthvað sem einungis tilheyrir fyrsta hluta [byte=9 09]ævinnar.

Einstaklingar þurfa sjálfir að setja sér markmið og gera áætlanir um eigin menntun og starfsframa.

Stjórnendur fyrirtækja verða með sama hætti að skilgreina þarfir fyrir menntað og þjálfað starfsfólk, og gera áætlanir um ráðningar og þjálfun starfsmanna út frá því.

Skólar hætti að líta á útskrift nemenda sinna sem lokaáfanga þeirra, heldur skoði með hvaða hætti þeir geti tryggt símenntun þeirra.

Til að símenntun festist í sessi hér á landi þurfa einstaklingar að hafa vilja og frumkvæði, menntastofnanir verða að leggja traustan námsgrunn og koma til móts við síbreytilegar þarfir einstaklinga og atvinnulífs, og atvinnulífið þarf að skilgreina þarfir sínar fyrir menntað og þjálfað starfsfólk og styðja við jafnt einstaklinga sem menntastofnanir. Fyrirtæki verða að skilja að fjárfesting í menntun starfsmanna er eins mikilvæg og fjárfesting í tækjum ef þau eiga að vera samkeppnisfær. Það verður með öðrum orðum að rækta mannauðinn og fjárfesta í hugviti.
Ástæðan fyrir því að við verðum sífellt að tileinka okkur nýja hluti til að vera gjaldgeng er meðal annars sú, að ný tækni í upplýsingamálum veldur þáttaskilum. Mikilvægt er að bæði menntakerfið og atvinnulífið lagi sig að henni og nýti jafnframt þá kosti sem hún býður. Í skýrslu sem kom út á vegum menntamálaráðuneytisins fyrr í þessum mánuði og ber heitið ,,Í krafti upplýsinga" er lögð er áhersla á að upplýsingatækni verði notuð til að bæta menntun þjóðarinnar og þar með samkeppnishæfi hennar. Með öflugri upplýsingatækni er unnt að segja að unga fólkið sé með framtíðina við fingurgómana og er þá vísað í veru þeirra við lyklaborð tölvunnar.

Til að íslenska skólakerfið geti starfað í takt við samfélagsþróunina verður það að vera sveigjanlegt og taka fagnandi á móti nýjungum. Þá verður kennaramenntun að taka mið af óhjákvæmilegum breytingum, auk þess sem starfsumhverfi og starfsaðferðir kennara verða að vera sveigjanlegri. Til að svo geti orðið þarf að bæta endurmenntun kennara svo og grunnmenntun þeirra. Einnig verður að vera náin samvinna á milli menntakerfis og atvinnulífs við þróun nýs náms þannig að nemendur séu sem best búnir þegar þeir koma út í atvinnulífið.

Fjölþjóðleg samkeppni og samvinna á sviði vísinda-, mennta- og menningarmála skiptir einnig miklu máli fyrir betri menntun þjóðarinnar. Hún hefur aukist jafnt og þétt og mun aukast enn frekar. Hér ber hæst gildistöku samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og þau réttindi, sem hann veitir til þáttttöku í fjölbreyttum samstarfsverkefnum Evrópusambandsins á sviði vísinda-, mennta-, menningar- og æskulýðsmála. Með virku alþjóðlegu samstarfi gefst Íslendingum kostur á að fylgjast náið með þróuninni og samstarfið veitir tækifæri til að meta og velja úr það besta, sem býðst í nágrannaríkjunum og staðfæra það miðað við aðstæður á Íslandi. Einnig gefur það Íslendingum tækifæri til að kynna öðrum þjóðum það helsta, sem er á döfinni hér á landi. Sókn okkar í útgerð og fiskvinnslu erlendis ætti að hvetja til þess, að hér sé til dæmis alþjóðleg fræðsla í þessum atvinnugreinum. Hugmyndir um Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna hníga í þessa átt.

Í íslensku skólakerfi verður að leitast við að taka mið af kröfum, sem gerðar eru til nemenda í þeim löndum, þar sem menntun er best á hverju sviði. Til að auðvelda þátttöku í þeirri keppni, þarf undirbúningur íslenskra nemenda að vera góður og námskrá og kröfur sambærilegar og í öðrum löndum. Skólar verða að auka samstarf sitt á alþjóðlegum vettvangi og sömuleiðis við opinberar stofnanir og einkafyrirtæki innan lands og utan. Einnig er eðlilegt að íslenskir nemendur ljúki sambærilegum prófum á svipuðum tíma og erlendir jafnaldrar þeirra.

Góðir áheyrendur!

Því miður hefur oft virst sem óbrúanleg gjá sé á milli menntakerfis og atvinnulífs. Viðhorfið hefur jafnvel verið á þann veg, að þessir tveir mikilvægu þættir samfélagsins eigi nánast ekkert sameiginlegt. Fráleitt er að halda slíku fram. Það er líka óhæft að atvinnulífið geri einhliða kröfur til menntakerfisins. Á ráðstefnu sem þessari má því allt eins spyrja hvaða kröfur menntakerfið geri til atvinnulífsins á nýrri öld. Ég hef orðið var við að víða annars staðar eru fyrirtækin rausnarlegri í garð menntakerfisins en þau eru hér á landi. Hinn 10. mars síðastliðinn var til dæmis frétt í The New York Times þess efnis að fyrirtæki í Bandaríkjunum tækju ríkan þátt í tölvu- og netvæðingu skóla þar í landi með því að gefa skólunum tækjabúnað. Þau léku mikilvægt hlutverk í þeirri áætlun Bills Clintons Bandaríkjaforseta að nútímavæða skólakerfið. Í Bretlandi hafa svipaðir hlutir gerst. Þar hefur Oracle boðið 25.000 skólum hugbúnað til að geta tengst Internetinu og þannig að þeir geti til dæmis gert sínar eigin heimasíður. Í þessum orðum mínum felst ekki vanmat á því, sem íslensk fyrirtæki gera fyrir skóla hér. Stuðningur og samstarfið getur hins vegar verið með ýmsu móti.

Þá vil ég vekja athygli ykkar á því, hve frumkvæði nemenda til að styrkja tengslin við atvinnulífið er mikilvægt. Fyrirtæki bregðast yfirleitt vel við því, eins og sást til dæmis á Framadögum í Háskóla Íslands fyrir skömmu eða í Tækniskóla Íslands síðastliðið haust.

Í ritinu ,,Í krafti upplýsinga" er lagt á ráðin um nýja samvinnu fyrirtækja og menntakerfis og þar segir til dæmis að kannaðir verði möguleikar þess að fyrirtæki kosti að einhverju leyti gerð hugbúnaðar fyrir íslenska skóla. Ýmsir ganga svo lagt að fullyrða að láti fyrirtækin sig þetta máli skipta verði hægt að tölvuvæða alla skóla landsins og gefa þeim kost á fullnægjandi hugbúnaði fyrir aldamót.

Ég hef nú fjallað um það hvernig ég tel að menntakerfið geti reynt að uppfylla menntakröfur atvinnulífsins á nýrri öld. Heimsóknir mínar í marga skóla hafa jafnan aukið mér bjartsýni vegna þess metnaðar, sem alls staðar birtist. Í ljósi þess tel ég að menntakerfið eigi að geta uppfyllt þær kröfur sem atvinnulífið gerir. Velviljinn og samvinnan verður að vera gagnkvæm. Því verður atvinnulífið einnig að takan virkan þátt í uppbyggingu skólanna til að þeir geti mætt kröfum þess á nýrri öld.