17.2.1996

Flutningur grunnskólans á fundi SSH

Málþing um grunnskólann á höfuðborgarsvæðinu, í Tjarnasal Ráðhúss Reykjavíkur
17. febrúar 1996

Góðir áheyrendur.

Ég fagna því, að grunnskólanefnd SSH skuli beita sér fyrir þessu málþingi um grunnskólann á höfuðborgarsvæðinu. Umræður um þetta mál hafa verið miklar undanfarin misseri og fyrir réttu ári var Alþingi að leggja lokahönd á grunnskólafrumvarpið. Samkvæmt því flyst grunnskólinn alfarið frá ríki til sveitarfélaga 1. ágúst næstkomandi.

Af dagskrá málþingsins sést, að þið hafið kallað þá til, sem vita mest um framvindu mála á þessum vettvangi frá því í júní síðastliðnum, þegar ég skipaði verkefnisstjórn og nokkrar nefndir til að vinna að framkvæmd grunnskólalaganna.

Allt frá því ég tók við starfi mínu sem menntamálaráðherra hef ég fylgt þeirri stefnu í þessu máli, að höfuðatriði væri að stilla saman strengina. Mönnum væri skylt að fara að landslögum og ættu sameiginlega að vinna að því að það tækist.

Mér finnst, að ótrúlega vel hafi tekist til fram til þessa. Verkefnisstjórn undir formennsku Hrólfs Kjartanssonar, deildarstjóra í menntamálaráðuneytinu, hefur unnið mjög mikið og mikilvægt starf. Sömu sögu er að segja um nefndirnar, sem hafa fjallað um hin viðkvæmu málefni sérstaklega.

Þar vísa ég í fyrsta lagi til nefndarinnar um fagleg málefni, undir formennsku Helga Jónassonar fræðslustjóra sem varð fyrst til að leggja fram skýrslu og skila tillögum meðal annars um sérkennslu.

Í öðru lagi er það nefndin um réttindamál kennara og skólastjórnenda undir formennsku Guðmundar H. Guðmundssonar, deildarstjóra á starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytisins. Þar komust menn að sögulegu samkomulagi rétt fyrir jól og hinn 1. febrúar síðastliðinn skilaði síðan verkefnisstjórn til mín tillögum, sem hafa verið felldar inn í frumvarp til laga um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla. Er frumvarpið tilbúið til framlagningar á Alþingi og hyggst ég gera það í næstu viku.

Frumvarpið um réttindamál kennara og skólastjórnenda markar tímamót í flutningi grunnskólans til sveitarfélaga. Öllum sem til þekkja er ljóst að réttindamálin eru flóknasta og erfiðasta úrlausnarefnið sem við er að glíma. Réttindamálin eru þess eðlis að um þau verður að nást sátt og þeim áfanga er nú náð eftir þrotlausa vinnu réttindanefndarinnar. Afrakstur nefndarstarfsins er ekki aðeins fólginn í niðurstöðunni og samkomulagi um réttindi og skyldur hjá nýjum vinnuveitenda. Afraksturinn liggur ekki síður í nefndarálitinu, skýrslu réttindanefndarinnar sem hefur að geyma sameiginlegan skilning á fjölmörgum atriðum, samantekt og yfirlit yfir réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda eins og þau eru nú, hvar ákvæðin er að finna og hvernig ber að túlka þau. Án efa mun þessi vinna réttindanefndarinnar skila sér og verða bæði kennurum og sveitarstjórnum til gagns síðar, en nú þegar vinnan hefur leitt til samkomulags um einn stærsta fyrirvaran um gildistöku grunnskólalaganna.

Auðvitað má deila um þá leið sem farin er til að tryggja réttindi kennara við flutninginn. Aðalatriðið er þó að náðst hefur sátt um þennan áfanga og hægt er að einbeita sér að því að ná niðurstöðu um næsta skilyrði, sem er að tryggja kennurum aðild að Lifeyrissjóði starfsmanna ríkisins áfram, þótt þeir gerist starfsmenn sveitarfélaga.

Frumvarp um réttindi og skyldur kennara og skólastjóra í grunnskólum er byggt á samkomulagi sem náðist milli ríkisvaldsins, sveitarfélaga og kennarasamtakanna. Frumvarpið felur í sér endurspeglun á lögunum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna nr. 38/1954, auk þess sem starfsmönnum er áfram tryggður sá réttur sem þeir nú njóta samkvæmt reglugerðum nr. 410/1989 og 411/1989. Er þessi niðurstaða byggð á fyrirmælum í 57. gr. grunnskólalaganna.

Lögin um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 38/1954 eru nú í endurskoðun og hyggst ríkisstjórnin leggja fram frumvarp um þau mál á vorþingi 1996. Er mikilvægt að mínu mati að jafn traust samráð takist milli hagsmunaaðila við undirbúning þess frumvarps og tekist hefur við undirbúning þeirra frumvarpa sem leiða af setningu grunnskólalaganna og sem lýst hefur verið hér að framan. Í almennum athugasemdum við frumvarp um réttindi og skyldur kennara og skólastjóra í grunnskólum kemur fram sú afstaða af hálfu ríkisstjórnarinnar að hún sé reiðubúin til að breyta þeim lögum sem kunna að verða sett á grundvelli frumvarpsins, ef breytingar á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nái fram að ganga og ósk kemur fram um það frá sveitarfélögunum eða félögum kennara eða báðum þessum aðilum.

Undirbúningsvinna hefur þegar farið fram vegna breytinga á lögum um lífeyrisréttindi og er frumvarp að breytingum í lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins í smíðum. Náðst hefur niðurstaða um flest stærstu atriðin varðandi lífeyrismálin og er ekki annars að vænta en að sá málaflokkur verði til lyktar leiddur í góðri sátt.

Í fylgiskjali með frumvarpi um réttind og skyldur grunnskólakennara er einnig gerð grein fyrir því, hvernig tekið verður á ákvæðum laga um lögverndun á starfsréttindum kennara vegna yfirfærslunnar.

Eins og áður sagði fagna ég þessu samkomulagi um réttindamálin. Með því tel ég, að menn hafi séð færa leið yfir eriðasta hjallann við yfirfærsluna.

Sumir kunna að vísu að halda því fram, að farsæl lausn á verkefni þriðju nefndarinnar, sem hefur starfað undir formennsku Halldórs Árnasonar, skrifstofustjóra í fjármálaráðuneyti, ráði úrslitum að lokum. Nefndin fjallaði um kostnað af tilfærslu grunnskólans til sveitarfélaganna. Henni var auk þess falið að gera tillögur um hvernig sveitarfélögum verði tryggðar auknar tekjur til reksturs þess hluta grunnskólans sem enn er í höndum ríkisins. Nefndin skilaði vandaðri lokaskýrslu sinni 13. febrúar 1996. Ekki er þar um sameiginlega niðurstöðu að ræða eins og um réttindamálin. Verkefnisstjórnin hefur gert um það tillögu til mín eftir að hafa rætt skýrsluna, að skipuð verði sérstök samninganefnd til að semja um þennan kostnað með endanlega niðurstöðu í huga. Verði sex menn í nefndinni, þrír frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og þrír fulltrúar ríkisstjórnarinnar, þ.e. einn frá menntamálaráðuneyti, annar frá fjármálaráðuneyti og hinn þriðji frá félagsmálaráðuneyti. Var tillaga þessi samþykkt í verkefnisstjórn síðastliðinn fimmtudag. Ég kynnti hana í ríkisstjórn í gær og var hún samþykkt þar, þannig að þessar viðræður geta hafist eftir helgi.

Eins og kunnugt er hefur verið miðað við að sveitarfélög fengju hækkaðan hlut í staðgreiðslu til að standa straum af rekstri grunnskóla og launum kennara og skólastjóra, en hlutur ríkisins lækkaði að sama skapi. Kostnaðarnefnd hefur nú lagt fram útreikninga sem eru grunnur ákvörðunar um hve mikil hækkunin skuli vera til sveitarfélaga. Liggur nú fyrir sameiginlegur skilningur á forsendum útreikninga, hvaða atriði skuli tekin með í heildardæmið og hvernig hvert atriði skuli metið til verðs. Það eiga því að liggja fyrir nægilega skýrar línur til að semja um hækkun á tekjum sveitarfélaga til að standa undir kostnaði við grunnskólahald í landinu á þann hátt sem lög segja fyrir um.

Góðir fundarmenn.

Eins og áður sagði er ástæðulaust fyrir mig að rekja efnislegar niðurstöður þessara nefnda nánar. Fulltrúar þeirra eru á mælendaskrá hér á eftir mér. Ég vil aðeins ítreka þakkir mínar til þeirra fyrir vel unnin störf. Heildarmyndin liggur skýr fyrir og einnig þau atriði, sem til álita koma. Við höfum málið á raun á valdi okkar.

Málinu er þó ekki lokið ennþá, þótt allir þættir þess hafi verið brotnir til mergjar og mörgum þeirra komið í varanlegt framtíðarhorf í höndum sveitarfélaganna.

Síðustu klukkustundir hefur þess orðið vart, að forvígismenn kennara telji málum umbjóðenda sinna stefnt í óvissu vegna umræðna um breytingar á starfsmannastefnu ríkisins. Í mínum huga hafa verið tekin af öll tvímæli í þessu efni. Að því er grunnskólakennara varðar eru réttindin tryggð í því frumvarpi, sem ég mun flytja. Lífeyrisréttindin á að vera unnt að tryggja með þeim hætti, sem samkomulag varð um í verkefnisstjórn 1. febrúar 1996.

Við höfum starfað innan þröngs tímaramma og í kapphlaupi við tímann. Ég tel, að enn höfum við betur og nú sé lokaspretturinn að hefjast. Ég vona, að þessi fundur hér í dag skili okkur enn nær markinu.