26.1.1996

Tónlistarskóli á tímamótum

"Tónlistarskóli á tímamótum"
í Borgartúni 6, 26. janúar 1996

Góðir ráðstefnugestir!

Samtök tónlistarskólastjóra efna í dag til ráðstefnu og skoðanaskipta um hlutverk tónlistarskólanna í ljósi breytinga sem nú eiga sér stað innan grunnskólans, einkum með hliðsjón af samfelldum skóladegi. Ég vil þakka Samtökum tónlistarskólastjóra fyrir að fá tækifæri til að ávarpa ykkur með nokkrum orðum í upphafi ráðstefnunnar.

Mikil og vaxandi gróska í íslensku tónlistarlífi hefur á undanförnum árum og áratugum verið einn mikilvægast þátturinn í menningarlífi þjóðarinnar. Þetta kemur fram með margvíslegum hætti. Mikill fjöldi af ungu tónlistarfólki, bæði hljóðfæraleikarar og söngvarar hafa komið fram og getið sér góðan orðstír hér á landi og erlendis. Mikið framboð er af tónleikum af margvíslegu tagi og er leitun að öðru eins við sambærilegar aðstæður erlendis.

Er nú svo komið, að samstaða er um það meðal listamanna, að næsta menningarhús, sem hér verði reist skuli vera í þágu tónlistar. Ég hef ákveðið að setja á laggirnar nefnd til að undirbúa ákvörðun um tónlistarhús en hef ekki enn fengið tilnefningu á fulltrúa frá Reykjavíkurborg.

Á því er enginn vafi að tónlistarskólarnir eiga ómetanlegan þátt í þeirri uppbyggingu sem orðið hefur í tónlistarlífi hér á landi að undanförnu. Í tónlistarskólum hafa þúsundir nemenda, einkum börn og ungmenni, átt þess kost að njóta tónlistaruppeldis og lagt stund á tónlistarnám sér til ánægju og þroska. Flest af því vel menntaða tónlistarfólki sem nú setur mestan svip á íslenskt tónlistarlíf hóf sitt nám og sinn menntunarferil í tónlistarskólunum. Í tónlistarskólum er unnið mikið og merkilegt menningarstarf sem skilað hefur ríkulegum árangri.

Ef litið er á þróun og stórvaxandi starfsemi tónlistarskólanna á undanförnum áratugum, er ljóst að lagasetning um fjárhagslega stöðu þeirra hefur haft afgerandi áhrif. Fyrstu lög um fjárhagslegan stuðning opinberra aðila, ríkis og sveitarfélaga, við tónlistarskóla voru sett árið 1963. Þá var kveðið á um að heildarkostnaður skólanna skiptist jafnt í þrjá hluta þannig að þriðjungur var greiddur af ríkinu, þriðjungur af viðkomandi sveitarfélögum og þriðjungur var innheimtur sem skólagjöld. Eftir lagabreytingu árið 1975 var kostnaðarskiptingin þannig að helmingur launakostnaðar var greiddur af ríkinu og helmingur af sveitarfélögum en skólagjöldum skyldi varið til greiðslu á öðrum rekstrarkostnaði. Árið 1985 var lögunum breytt og eru þau að stofni til enn í gildi. Kostnaðarskipting hélst óbreytt fram til 1990 þegar lög um breytingu á verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga tóku gildi. Þá var framlag ríkisins fellt niður, sveitarfélög greiða nú allan launakostnað en skólagjöldum skal varið til greiðslu á öðrum rekstrarkostnaði. Aðild sveitarfélaga að rekstri tónlistarskóla hefur því farið vaxandi á undanförnum þremur áratugum og frá 1990 hafa öll fjármál verið í höndum sveitarfélaga og skólanna sjálfra.

Í núgildandi lögum eru ákvæði um hlutverk menntamálaráðuneytisins á sviði tónlistarfræðslu og er helstu atriðin þessi (samkvæmt 12. grein):

Menntamálaráðuneyti skal hafa með höndum faglega umsjón og eftirlit með tónlistarkennslu. Ráðuneytið ræður í þessu skyni námsstjóra tónlistarfræðslunnar til fjögurra ára í senn svo og annað nauðsylegt starfslið.

Verkefni ráðuneytisins erum m. a.: yfirstjórn námskrár- og námsefnisgerðar, [ *** char: [byte=201 C9]É], samræming náms, prófa og réttinda er þau veita, aðstoð varðandi gerð starfs- og fjárhagsáætlana skóla, upplýsingamiðlun og erlend samskipti.

Samkvæmt lögunum (13. grein) skipar ráðherra fimm manna samstarfsnefnd tónlistarfærðslunnar til að fjalla í heild um starfsemi skólanna, m. a. um samstarf tónlistarskóla við grunnskóla og framhaldsskóla.

Í nefndinni, eins og hún er nú skipuð, eru fulltrúar fyrir sveitarfélög, tónlistarskólastjóra, tónlistarskólakennara og tónmenntakennara í grunnskólum, auk námstjóra tónlistarfræðslu sem er formaður nefndarinnar.

Loks er (í 14. gr.) ákvæði um að ráðuneytið setji í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laganna.

Af þeim verkefnum, sem undir ráðuneytið heyra, hefur að undanförnu haft forgang að vinna að því semja nýja aðalnámskrá tónlistarskóla og búa hana undir útgáfu. Samning námskrárinnar hefur tekið langan tíma og mikil vinna hefur verið lögð í undibúning hennar. Tveir starfshópar hafa unnið að samningu textans og handrit námskrárinnar er nú að mestu tilbúið til útgáfu. Því miður tókst ekki að gefa aðalnámskrána út fyrir þessa ráðstefnu en handritið fer í prentun innan skamms og námskráin ætti að koma út í næsta mánuði.

Í Aðalnámskrá tónlistarskóla er sett fram heildarstefna um nám og kennslu í þeim tónlistarskólum sem starfræktir eru hér á landi á grundvelli þeirra laga sem áður voru nefnd. Hlutverk og meginmarkmið tónlistarskóla eru skilgreind í fyrstu köflum námskrárinnar. Lýst er heildarskipan tónlistarnáms, stigakerfi og áfangaskiptingu. Jafnframt er í aðalnámskránni fjallað um skólanámskrárgerð, uppbyggingu námsgreina, námsmat og próf.

Eftir að aðalnámskráin er komin út eru næstu verkefni að semja og gefa út nýjar námskrár í einstökum tónlistargreinum. Undirbúningur þeirrar námskrárgerðar er hafinn og er fyrsta verkefnið um það bil að fara af stað, en það er námskrárgerð í tónfræðagreinum. Gert er ráð fyrir að greinanámskrár verði samdar á þessu ári og gefnar út á árinu 1997. Aðalnámskrá tekur því ekki formlegt gildi fyrr en greinanámskrár koma út, væntanlega við upphaf skólaárs haustið 1997.

Þessi ráðstefna er haldin undir yfirskriftinni "Tónlistarskóli á tímamótum" til að skiptast á skoðunum og fjalla um hvert verði hlutverk tónlistarskólans innan samfellds skóladags. Jafnframt verða væntanlega umræður um fyrirhugaðan flutning grunnskólans yfir til sveitarfélaga.

Stefnt er að því, að flutningurinn verði 1. ágúst 1996. Þessa daga er verið að leggja lokahönd á þær ráðstafanir sem gera þarf til að unnt verði að standa við þessa dagsetningu.

Þegar því marki verður náð og grunnskólar og tónlistarskólar lúta sömu stjórn og fjárhagsábyrgð sveitarfélaga, breytast ýmsar forsendur fyrir samstarfi og tengslum þessara stofnana. Svo vísað sé til aðalnámskrár tónlistarskóla, er þar lögð áhersla á sjálfstæði einstakra skóla, meðal annars með kafla um skólanámskrárgerð. Jafnframt kemur þar fram að samstarf tónlistarskóla og grunnskóla geti verið með ýmsum hætti og breytilegt eftir aðstæðum hverju sinni. Með öðrum orðum er það fyrst og fremst í höndum skólstjórnenda, kennara, foreldra, stjórnenda sveitarfélaga og annarra heimamanna að finna þessu samstarfi þann farveg sem vænlegastur er til árangurs á hverjum stað og hverjum tíma. Þess er að vænta að á þessari ráðstefnu komi fram ýmsar gagnlegar hugmyndir og ábendingar í þessum efnum. Ég óska ykkur góðs gengis og þakka áheyrnina.