21.6.1997

Ábyrgð sjálfstæðismanna

Ábyrgð sjálfstæðismanna
Morgunblaðið, Laugardagur 21. júní 1997.

Sjálfstæðismenn bera ábyrgð á árangri Framlög til menntamála hafa aukist segir

Sjálfstæðismenn bera ábyrgð á árangri Framlög til menntamála hafa aukist segir Björn Bjarnason þvert á það sem Ágúst Einarsson fullyrðir í grein sinni.

UMRÆÐUR um menntamál mega ekki einkennast af einföldunum eða tillögum um patentlausnir. Þeir sem hæst hrópa slá um sig með þeirri fullyrðingu að töfralausnin sé aukið fjármagn til menntamála. Sé einblínt á peninga er athyglinni beint frá brýnum úrlausnarefnum í innra starfi skóla. Menntastefna sem byggist á of litlum kröfum, óljósri markmiðasetningu og skorti á aga skilar til dæmis litlum árangri. Ágúst Einarsson þingmaður jafnaðarmanna (eftir að þingflokkur Þjóðvaka lagði upp laupana) er einn þeirra sem fellur illa í gryfju einföldunar í grein í Morgunblaðinu sl. fimmtudag. Staðfestir hún markleysi málflutnings þingmanna Þjóðvaka, sem nýtur nú einskis stuðnings kjósenda.

Aukið framlag til allra skólastiga

Ágúst fullyrðir að Sjálfstæðisflokkurinn hafi látið menntamál drabbast niður á valdatíma sínum í menntamálaráðuneytinu. Fyrir þessu færir Ágúst engin rök. Hann nefnir ýmsar tölur þar sem borin er saman staðan hér á landi og erlendis. Því miður er staða okkar oft slæm í slíkum samanburði en ef við skoðum þróun hér á landi undir forystu sjálfstæðismanna undanfarin ár er ástæða til meiri bjartsýni. Við slíkar upplýsingar verður að miða vilji menn fella dóm yfir störfum sjálfstæðismanna í menntamálum. Staðreyndin er sú, að auknu fjármagni er varið til menntamála.

Líkt og sést á meðfylgjandi mynd nemur aukningin til fræðslumála um 2,2 milljörðum frá árinu 1993. Það eru um 400 milljónir á ári að meðaltali og er þá tekinn með kostnaður við grunnskólann.

Eini samdrátturinn í útgjöldum til fræðslumála hefur komið fram í fjárveitingum til Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Árið 1992 var lögum um sjóðinn breytt og tekið upp aukið aðhald í lánveitingum hans til að koma í veg fyrir gjaldþrot sjóðsins. Með þeim breytingum sem nú hafa verið gerðar á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna má hins vegar gera ráð fyrir að útgjöld til hans aukist verulega eða yfir 200 milljónir króna á ári.

Framlög til háskóla hafa farið hækkandi á núverandi kjörtímabili og forsendur fyrir fjölbreyttari starfsemi á háskólastigi hafa verið treystar. Fjárframlög á hvern nemanda hafa hins vegar lækkað en gera verður ráð fyrir að í einhverjum tilvikum geti hagkvæmni stærðarinnar notið sín. Ljóst er að fjárframlög á hvern nemanda í Háskóla Íslands mega þó ekki lækka frekar. Í gagnrýni sinni á það að fáir ljúki hér háskólaprófi setur Ágúst Einarsson ekki fram þá fyrirvara sem nauðsynlegt er að hafa í huga í umfjöllun um svo viðkvæmt mál. Sveinbörn Björnsson rektor sagði til dæmis í ræðu sinni við brautskráningu úr Háskóla Íslands að til að fá gleggri mynd af stöðu mála hefði þurft í tölum OECD að greina í milli skemmra náms og náms til alþjóðlegra prófgráða sem krefjast þriggja ára háskólanáms hið skemmsta. Þá hefðu tölur sýnt að við erum yfir meðaltali um lengra námið en okkur vantar að mestu skemmra námið. Einnig þarf að hafa í huga að það sem stundum telst háskólanám erlendis er oft flokkað undir framhaldsskólanám hér á landi.

Þá hafa framlög á hvern nemanda í framhaldsskólum aukist á þessu tímabili. Árið 1993 var framlag ríkisins á hvern nemanda 290 þúsund en árið 1997 307 þúsund á verðlagi fjárlaga 1997.

Rannsóknir og þróun

Ágúst kvartar yfir framlögum til rannsókna og þróunar. Honum verða enn og aftur á þau mistök að nefna ekki hver þróunin hefur verið hér á landi undanfarin ár. Staðreyndin er sú að heildarframlög Íslendinga til rannsókna og þróunar hafa vaxið úr 1,9 milljarði króna árið 1975 í um 6,9 milljarða króna árið 1995 á verðlagi þessa árs. Þetta átak er meðal annars að skila okkur þeim hagvexti, sem nú má alls staðar sjá merki.

Laun kennara hafa hækkað

Ágúst sem einnig hefur verið prófessor við Háskóla Íslands hefur réttmætar áhyggjur af því að laun kennara séu ekki nægilega há. Áhyggjur hans eru í samræmi við það sem ég sagði á menntaþingi sl. haust að því miður virtist menntun ekki vera nægilega mikils metin í launaumslaginu. Ágúst gleymir hins vegar að nefna að kennarar hafa nýlega gert kjarasamninga við ríkið sem fela í sér umtalsverðar launahækkanir. Forystumenn kennarasamtakanna hafa lýst yfir ánægju sinni með þá samninga en þeir fela ekki einungis í sér launahækkanir heldur einnig algjörlega nýtt vinnutímakerfi sem á að stuðla að umbótum í skólastarfi. Elna Katrín Jónsdóttir formaður HÍK hefur sagt, að með samningunum sé dregið skýrar fram, að kennarar eigi að gera fleira en kenna og prófa. Nú séu önnur störf kennara vel skilgreind og ljóst að þeir eiga að vinna að skólanámskrá, að innra mati, stefnumótun og fleiru. Þannig hefur verið komið verulega til móts við kröfur kennara í launamálum en einnig eru gerðar meiri kröfur til starfa kennara sem stuðla að umbótum í skólakerfinu. Það er í anda nýlegrar skýrslu OECD um Ísland þar sem segir að erfitt sé að réttlæta hærri kennaralaun án þess að aukið vinnuframlag komi á móti. Þetta virðist hins vegar ekki skipta máli hjá Ágústi.

Óhræddir við ábyrð

Í lok greinar sinnar segir Ágúst Einarsson að draga eigi Sjálfstæðisflokkinn til ábyrgðar í menntamálum. Aldrei hefur hvarflað að sjálfstæðismönnum að víkjast undan ábyrgð í þessu efni, hvort heldur þeir sinna landsmálum eða sveitarstjórnarmálum. Þegar litið er til starfsaðstöðu skóla, rannsókna og vísinda má ekki horfa fram hjá mikilvægi þess, að stöðugleiki og síkaukinn hagvöxtur setur svip á allt efnahagslífið. Raunar verður það seint metið til fulls frekar en góð menntun. Óráðsía í ríkisfjármálum er ekki skynsamlegasta leiðin til að treysta forsendur menntunar þjóðarinnar.

Sjálfstæðismenn geta verið stoltir af þróun síðustu ára þó að enn megi þeir gera betur. Þeir drukkna ekki í slagorðaflaumi eins og frambjóðendur Þjóðvaka heitins, sem skáka svo í því skjóli, að þeir verða aldrei kallaðir til ábyrgðar.

Menntamál verða snarari þáttur í stjórnmálastarfi en áður og því ber að fagna. Okkur miðar hins vegar lítið áfram á stjórnmálavettvangi, ef byggt er á röngum forsendum. Þeir fara villir vega, sem ganga fram í stjórnmálum með það á vörunum, að um stöðugan niðurskurð til menntamála hafi verið að ræða hér undanfarin ár. Slíkir menn hafa hvorki góðan málstað né eru líklegir til að ná árangri.