17.6.2000

Kristnihátíð Þingvallakirkju

Ræða í Þingvallakirkju, 17. júní 2000.



Og áfram fetar fylking kynslóðanna. Og lengi enn hún ber í yfirbragði og björtum svip þá arfleifð hetjualdar, sem metur öðru framar frelsi, sæmd og manngildi og orðstír sinnar ættar. En jafnvel víkingslund og herskár hugur mun slíðra bitur sverð í einni andrá sé frelsi lands og friði í hættu stefnt. Svo göfugs kyns var gifta sú, er leiddi til heilla sátta heiðinn dóm og kristni. Á nokkur þjóðarsaga slíkan dag?


Já, ég tek undir með Tómasi Guðmundssyni skáldi og spyr: Á nokkur þjóðarsaga dag eins og þann, sem hér rann fyrir eitt þúsund árum, þegar Þorgeir Ljósvetningagoði steig undan feldi sínum og lýsti Íslendinga kristna þjóð á Lögbergi?


Eftir tvær vikur minnist þjóðin öll hinnar einstæðu sáttargjörðar, sem þá náðist, með hátíð hér í þinghelginni og á völlunum. Hvarvetna má nú þegar sjá merki hennar og aldrei hefur nokkur mannfagnaður Íslendinga verið undirbúinn af meiri kostgæfni.


Sáttargjörðin festi ekki aðeins kristna trú í sessi heldur tryggði frið og frjálst íslenskt samfélag í tæp 300 ár, en í Njálu er atburðunum á Lögbergi við kristnitökuna lýst á þann veg, að svo mikil hafi óhljóð andstæðra fylkinga kristna manna og heiðna verið, að engi nam annars mál og sögðu hvorir sig úr lögum annarra.


Við blasti, að allsherjarfriður rofnaði og samfélagið splundraðist. Á ögurstundu tóku lögsögumenn hinna tveggja flokka, þeir Þorgeir Ljósvetningagoði og Hallur á Síðu, saman höndum til sátta. Lögin mátti ekki slíta í sundur, því að friðurinn yrði úti, ef ekki væri ein lög fyrir alla.


Heiðinginn Þorgeir mælti fyrir þessari sátt. Lausnin ber vott um skynsemi og umburðarlyndi þroskaðs samfélags og atburðurinn hefur löngum verið oss Íslendingum fyrirmynd og leiðarljós í fleiru en því, að hann skapaði þjóðinni kristna framtíð. Framganga Þorgeirs er fordæmi fyrir alla, sem vilja leiða mál til lykta á farsælan hátt, og hún sýnir alla kosti hins góða leiðtoga, því að Þorgeir hikar ekki við að taka mikla áhættu til að ná friðsamlegri niðurstöðu. Hann beitir virðingu sinni sem forystumaður heiðna og áhrifum lögsögumannsins til að sætta þá við úrskurð gegn trú þeirra. Hann leggur áherslu á, að ekki megi útiloka neinn frá þátttöku í samfélaginu og réttarstaða einstaklinganna sé best tryggð með einum lögum fyrir alla.


Enn þann dag í dag eru þetta grundvallarforsendur þeirra þjóðfélaga, sem eru talin fremst í heiminum, þegar metin er réttarstaða borgaranna. Í orðum og úrskurði Þorgeirs endurspeglast meiri þroski í samskiptum manna, en einkenna meiri hluta þjóðfélaga samtímans. Hann nálgast úrlausn þess vanda, sem honum var falinn, með lög og rétt í fyrirrúmi. Hefði sama hugsjón náð til heimsins alls, væri margt á annan veg meðal þeirra þjóða, þar sem mannréttindi eru enn fótum troðin.


Hins einstæða kristnitökudags er mikilvægt að minnast, ekki aðeins til að fagna því, að Íslendingar voru helgaðir Kristi heldur til að rifja upp skynsemi og almennt ágæti forfeðra vorra.


Þótt vér eigum ritaðar heimildir um atburðinn, er meira á huldu um hann og hvernig hann raunverulega gerðist en flest annað, sem skiptir miklu í Íslandssögunni. Ekki er síst deilt um, hvað hafi valdið þeirri einróma samþykkt heiðingja að taka kristni svo umsvifalaust, eftir að Þorgeir Ljósvetningagoði hafði legið undir feldi.


Eru umræður um þetta enn ljóslifandi meðal vor eins og til dæmis mátti lesa í Morgunblaðsgreinum nú í vikunni og þar virtist frekar dreginn taumur heiðna en kristna á dögum atburðarins mikla. Kristnitakan hefur verið grandskoðuð frá upphafi rannsókna um íslenska þjóðveldið. Annars vegar eru þeir, sem telja, að þeir Þorgeir og Hallur á Síðu, forystumaður kristinna manna, hafi samið um lausn ágreiningsmála á stjórnmálalegum forsendum með hliðsjón af valdabaráttu andstæðra fylkinga og þess vegna hafi verið tekin pólitísk ákvörðun um að Íslendingar skyldu kristnir. Hins vegar eru þeir, sem telja frásögnina af legu Þorgeirs undir feldinum af trúarlegum toga, hún lýsi fornu spásagnarferli og heiðinn meiri hluti á alþingi hafi beygt sig skilyrðislaust fyrir úrskurði, sem þannig var fenginn.


Meiri hluti fræðimanna hallast að því, að ákvörðun Þorgeirs hafi frekar verið af pólitískum toga en trúarlegum og er það meðal annars gert í hinu mikla riti Kristni á Íslandi, sem alþingi hefur nýlega gefið út í tilefni af 1000 ára afmæli kristnitökunnar.


Trúarlíf þjóðarinnar í aldanna rás hefur vafalaust mótast nokkuð af þessum veraldlegu þáttum og víst er, að í fyrsta páfabréfinu til Íslendinga, sem barst hingað líklega árið 1199 og var þá þýtt og útlagt fyrir klerka og alþýðu manna hér á Þingvöllum vandar Innocentíus 3. páfi þjóðinni ekki kveðjurnar.


Páfi minnir Íslendinga á, að innan kirkjunnar eins og á himnum séu mörg tignarstig, sumum sé ætlað að stjórna öðrum að hlýða. Rómarkirkjan hafi þannig kennivaldið og hún sé hafin yfir allar aðrar kirkjur í veröldinni og ekki af mannavöldum heldur fyrir guðlegan tilverknað. Íslendingar hafi sýnt óhlýðni og ekki látið sér segjast við heilnæm umvöndunarorð prestanna. Þvert á móti reyni þeir að banda höndum á móti brennandi reiði Guðs og spyrna gegn broddum hans. Undirsátar api lestina eftir höfingjunum rétt eins og hinir voldugu geti komið þeim til hjálpar á efsta degi. En það gerist ekki því að hver og einn verði þá að bera sína byrði. Kveður páfi fast að orði og herðir á áminningu sinni með þessum orðum: „Ef vér tínum til hvert einstakt atriði út í hörgul, sem sagt er að beri oftlega til um syndir meðal yðar, mundi rit þetta vaxa óendanlega og verða lesendum og áheyrendum til leiðinda.“


Undir lok bréfsins hvetur páfi biskupa og kennimenn að hefja upp raust sína og gera kunn illvirki lýðsins. Rísa kröftuglega gegn syndurum og berjast eins og við óargadýr væri að ræða. Að öðrum kosti gæti sá hræðilegi atburður gerst að kennimenn féllu sjálfir í hendur hins lifandi Guðs þegar hvikult æviskeið þeirra væri á enda runnið.


Andi páfabréfsins er annar en sáttatónninn á alþingi árið 1000, þegar engu var hótað hvorki af völdum Guðs né manna heldur tekin sameiginleg ákvörðun um hinn nýja sið.


Íslendingar áttu ekki að venjast erlendum skipunartón af þessu tagi, þeir bjuggu í samfélagi án ríkisvalds, þar sem einstaklingum var annt um sæmd sína, manngildi og orðstír. Þegar páfabréfið barst, var þjóðveldið þó byrjað að riðlast vegna innbyrðis deilna og með gamla sáttmála árið 1262 gengu Íslendingar Noregskonungi á hönd, síðan stórefldist konungsvaldið með siðaskiptunum árið 1550, þegar síðasti kaþólski biskupinn Jón Arason og synir hans tveir voru hálshöggnir í Skálholti. Sáttargjörðin rofnaði um stund með með blóðugum átökum kristinna manna. Til varð sterkur valdakjarni, sem ekki slakaði tök sín á þjóðfélaginu, fyrr en um miðja síðustu öld, þegar alþingi var endurreist.


Er oss hollt að hafa þetta hugfast, þegar vér fögnum kristnitöku í Þingvallakirkju þjóðhátíðardaginn 17. júní árið 2000, á afmælisdegi Jóns Sigurðssonar forseta. Hvatningarorð hans við upphaf sjálfstæðisbaráttunnar urðu til þess, að Íslendingar ákváðu að láta til skarar skríða og krefjast þeirra réttinda að mega sjálfir semja við konung sinn um það, hvernig stjórnlögum þeirra skyldi háttað, og neituðu að beygja sig undir vilja dansks þings.


Í anda sáttargjörðarinnar, sem náðist með kristnitökunni, hvatti Jón Sigurðsson þjóðina til að sameinast um að ná frelsi sínu og þjóðréttindum, því að annars hvíldi smánarminning dáðleysis og ósamheldni yfir þeirri kynslóð, sem bæði sjálf um að leggja á sig ánauðarokið, og vildi ekki með neinu móti rétta höndina á móti frelsinu, þegar það kom til hennar heim í hlaðið.


Með sambandslögunum árið 1918 sigraði málstaður Jóns Sigurðssonar og þar með var stefnan mótuð að lokaskrefi sjálfstæðisbaráttunnar, lýðveldi á Íslandi, sem var stofnað á Lögbergi 17. júní 1944. Enn sameinaðist þjóðin hér á þessum helga stað og leit björtum augum til framtíðar sinnar.


Árið 2000 er ekki aðeins ástæða til að þakka þúsund kristin ár á Íslandi heldur svo mikið og margt, sem forfeður vorir, feður og mæður, hafa áorkað á þessum tíu öldum. Þjóðin hefur af þolgæði og þrautseigju tekist á við hvern vanda og henni hefur jafnan miðað fram á veg.


Nú lifum vér í þjóðfélagi, sem stenst samanburð við hin bestu á heimsmælikvarða. Vér búum við lög og rétt, þar sem enginn er útilokaður og frelsi einstaklingsins til orðs og æðis er í heiðri haft.


Styrkur þjóðarinnar hefur mótast af því, að fyrir 1000 árum féllu tveir straumar í einn farveg, hinn mikli kraftur forfeðra vorra og boðskapur kristninnar og með því varð til íslensk menning. Í klaustrum voru sögurnar skráðar og til urðu einstæð menningarverðmæti. Við siðaskiptin var Biblían þýdd á íslensku og þar með var tryggt, að móðurmálið glataðist ekki. Fyrir trúna orti Hallgrímur Pétursson Passíusálmana.


Með kristnitökuhátíð áréttum vér gildi samheldni í Íslandssögunni undir merkjum kristinnar trúar frá því að sáttargjörðin mikla var kynnt á Lögbergi. Vér ítrekum jafnframt með því meginviðhorfin, sem eru oss helst til heilla um ókomin ár. Kristnitakan lagði hinn trausta grunn, sem ekki hefur haggast í aldanna rás og stendur af sér allar stefnur og strauma.


Ég vil þakka boðið um að taka þátt í hátíð Þingvallakirkju þennan þjóðhátíðardag en með því efni ég loforð við séra Heimi Steinsson, því að síðastliðið haust varð að sammæli milli okkar, að ég stigi hér í stólinn við þessa athöfn. Sakna ég nú vinar í stað, því að hvorugur vissi, að aðeins annar yrði nú ofar moldu og vil ég biðja minningu séra Heimis blessunar og þakka gott samstarf um árabil.


Metnaður vor allra er mikill fyrir hönd Þingvalla og hin síðari misseri var það sérstakt áhugamál séra Heimis, að hafist yrði handa við nákvæmar fornleifarannsóknir hér við kirkjuna til að kanna, hvað jörðin hefði að geyma um sögu guðshúsa á staðnum allt frá árinu 1017, þegar fyrsta kirkjan var reist úr viði frá Ólafi konungi Haraldssyni í Noregi.


Hafa þegar verið lögð drög að slíkri rannsókn með forkönnun. Hvað sem finnast kann hér um forn mannaverk eru Þingvellir og verða einstæðir vegna náttúrunnar, sem stendur opin og óspillt í allri sinni dýrð og bíður þess eins, að maðurinn njóti af virðingu fegurðar hennar og skjóls.


Gæfa vor sem þjóðar felst enn í því að finna sáttargjörðina, sem leysir kraft til góðra verka úr læðingi. Enn þörfnumst vér skynsemi og umburðarlyndis til að lifa í góðum friði. Enn er það aðalsmerki góðra leiðtoga að útiloka ekki neinn heldur tryggja, að allir séu jafnir fyrir lögunum.


Vér horfum ekki til baka, þegar vér sækjum fram, en megum þó aldrei slíta þráð sögunnar eða láta sem stórvirki forfeðranna skipti oss engu.


Ég lýk orðum mínum með því að vitna að nýju í hátíðarkvæði Tómasar Guðmundssonar á ellefu alda afmæli Íslandsbyggðar frá 1974, þegar skáldið flutti þessa bæn hér á Þingvöllum:


Ó, Drottinn, þú sem verndarhendi hélst um vora þjóð í ellefu langar aldir, veit oss þá náð að fela forsjá þinni það fagra land, sem á vorn ástarhug. Já, blessa land vort, byggðir þess og höf, og börn vor, grös og dýr. Það verði um aldir oss öllum vöggubæn og svanasöngur.