1.6.1997

Íþróttakennarskólinn - skólaslit

Íþróttakennaraskóli Íslands - skólaslit
1. júní 1997

Í ár eru fimmtíu og fimm ár síðan Íþróttakennaraskóli Íslands varð ríkisstofnun hér á Laugarvatni. Í fjörutíu og eitt ár af þessum tíma hefur sami maður farið með skólastjórn, það er Árni Guðmundsson, sem nú lætur af störfum fyrir aldurs sakir. Fyrstu fjórtan árin var Björn Jakobsson skólastjóri en hann hóf sjálfur að reka íþróttakennaraskóla árið 1932. Þegar litið er yfir 65 ára starfsemi íþróttakennaraskóla á Laugarvatni hafa þannig aðeins tveir menn veitt skólanum forstöðu.

Er því óhætt að kveða svo fast að orði, að um tímamót sé að ræða, þegar við kveðjum Árna og þökkum honum farsælt starf við skólastjórnina. Þegar Árni var skipaður hinn 1. júní 1956 var faðir minn Bjarni Benediktsson menntamálaráðherra. Er þetta einstakt tækifæri fyrir mig til að fagna því, hve vel var ráðið, þegar til þess var gengið á þeim tíma af menntamálaráðherra að velja mann í mikilvægt, opinbert embætti.

Nú bíður það mín að velja arftaka Árna og verður það gert að fenginni umsögn skólanefndar, en næstu daga sendi ég henni umsóknir til athugunar. Formerkin eru þó önnur en fyrir 41 ári vegna þess að í skólastjóratíð Árna hefur þeirri skoðun vaxið jafnt og þétt fylgi, að mennta beri íþróttakennara á háskólastigi.

Drög að lögum um Íþróttaháskóla Íslands hafa verið til athugunar að minnsta kosti frá árinu 1986. Hafa ýmsar hugmyndir verið á döfinni um það, hvernig þessu markmiði verði náð. Á þessu vori lagði ég fram á Alþingi frumvarp til laga um Kennara- og uppeldisháskóla Íslands, og er það í fyrsta sinn, sem formleg tillaga um háskólamenntun íþróttakennara er lögð fyrir Alþingi. Varð samkomulag um það innan menntamálanefndar Alþingis að afgreiða málið frá nefndinni á næsta haustþingi, þannig að enn tel ég unnt að ná því takmarki, að lög um Kennara- og uppeldisháskóla taki gildi 1. janúar 1998.

Íþróttakennaraskólinn verður samkvæmt frumvarpinu hluti af Kennara- og uppeldisháskóla Íslands og með þeim fyrirvara verður eftirmaður Árna Guðmundssonar ráðinn til starfa. Markmið mitt er síður en svo að hrófla við starfsumgjörð skólans hér á Laugarvatni. Tel ég það þvert á móti Kennara- og uppeldisháskólanum til sérstaks ágætis, að hann hafi aðsetur bæði hér á Laugarvatni og í Reykjavík. Verður það áreiðanlega til að laða fleiri nemendur en ella að skólanum.

Margt er hér öðru vísi nú en þegar Árni tók við skólastjórn og flutti í skólastjórabústaðinn ásamt eiginkonu sinni Hjördísi Þórðardóttur, íþróttakennara.

Aðstaðan til íþróttaiðkunar var að mörgu leyti frumstæð, lítill íþróttasalur, þótt hann hafi í fyrstu verið stærsti íþróttasalur landsins og við hann var tengd lítil en hentug innisundlaug. Fyrir fimm árum var ný útisundlaug hins vegar vígð og var þá gamla innilaugin í raun orðin ónothæf og fyrir tíu árum kom nýtt íþróttahús til sögunnar. Íþróttamannvirkin hér á staðnum bera þess þannig glöggt vitni, að markvisst hefur verið unnið að því að bæta þau.

Kröfur á hendur íþróttakennurum hafa einnig aukist. Fagið er nú vísindagrein, þar sem sífellt er krafist meiri þekkingar auk þess sem íþróttagreinum fjölgar og æ fleiri líta til íþrótta, þegar hugað er að forvörnum. Rannsóknir sýna einnig, að fylgni er mikils góðs árangurs í íþróttum og í námi almennt. Það ætti því að vera markmið í sjálfu sér að efla íþróttakennslu í skólum til að bæta almennan námsárangur.

Góðir áheyrendur!

Við þessi tímamót vil ég þakka skólastjórahjónunum langt og farsælt starf. Þau hafa samviskusamlega og af alúð lagt skólanum krafta sína. Starf þeirra hefur borið ríkulegan ávöxt. Nú geta þau litið stolt og ánægð til baka.

Íþróttir landsmanna standa í miklum blóma. Við fögnum sigri íslenskra ofurhuga á tindi Everest og góðri framgöngu okkar manna á heimsmeistaramótinu í handbolta. Á morgun hefjast hér á landi Smáþjóðaleikar, fjölmennasta alþjóðlega frjálsíþróttamót, sem hér hefur verið haldið og þar munum við eiga gott og sigursælt lið.

Hlutur íþróttakennara er ekki lítill, þegar til þessa góða árangurs fámennrar þjóðar er litið. Þá ekki síst þeirra, sem hafa í meira en 40 ár stjórnað Íþróttakennaraskóla Íslands. Megi þau Hjördís og Árni vel njóta margra ára enn að loknu góðu og farsælu ævistarfi.