1.5.1997

Kyndill smáþjóðaleika

Kveikt á kyndli vegna Smáþjóðaleika
Ávarp á Laugardalsvelli, 1. maí 1997

Til forna kveiktu Grikkir eld í tilefni Ólympíuleika til að tengja saman lifendur og dauða. Eldurinn, sem logaði á meðan á leikunum stóð, var í virðingarskyni við fallnar hetjur og minnti á eilífan anda þeirra.

Nú lítum við frekar á Ólympíueldinn sem hvatningu til að gera sitt besta, berjast til sigurs og stuðla jafnframt að friði milli allra þjóða. Einnig er gripið til orðsins Ólympíueldur, þegar vísað er til eldmóðs í þágu háleitra hugsjóna og eindregins vilja til að láta gott af sér leiða, hvort heldur menn stunda íþróttir eða leggja öðrum góðum málstað lið.

Hinn 2. júní hefjast hér á landi 7. Smáþjóðaleikarnir. Er þetta fjölmennasta og viðamesta íþróttamót, sem stofnað hefur verið til á Íslandi. Leikarnir eru með réttu nefndir Ólympíuleikar smáþjóða og til þeirra er efnt með stuðningi Alþjóðaólympíunefndarinnar. Er sannarlega mikið í húfi fyrir okkur Íslendinga að vel sé að allri framkvæmd leikanna staðið, en þátttaka í þeim verður meiri en nokkru sinni. Má líta á það eitt sem viðurkenningu fyrirfram fyrir alla, sem komið hafa að undirbúningi hér.

Athöfnin í dag er í senn til staðfestingar á tengslum leikanna við Ólympíuhugsjónina og til marks um, að þeir eiga að höfða til allra Íslendinga. Áður en kyndillinn, sem hér er tendraður, verður notaður til að kveikja eld Ólympíuleika smáþjóða 1997, verður farið með hann 2500 kílómetra leið umhverfis landið í að minnsta kosti 30 áföngum. Síðan á loginn að blakta áfram í umsjá Ungmennafélags Íslands, fyrst á 22. landsmóti þess síðar í sumar.

Ég vil á þessari stundu þakka öllum, sem hafa komið að því að undirbúa Smáþjóðaleikana hér á landi. Þar hefur verið vel að verki staðið. Góður undirbúingur er forsenda þess, að við getum sinnt gestgjafahlutverki okkar með fullum sóma.

Ferð kyndilsins umhverfis landið verður dag frá degi til að minna okkur á, að tími sjálfra leikanna færist óðfluga nær. Ég óska kyndilberunum góðrar ferðar með þeirri ósk, að loginn, sem þeir bera, verði til að minna okkur Íslendinga á gæfu þess að búa hér ein þjóð í þessu friðsama landi. Megi loginn einnig verða okkur hvatning til góðs árangurs, þegar stóra stundinn rennur upp og 7. Ólympíuleikar smáþjóða hefjast á Íslandi.