11.8.2017

Kúvending í gasflutningum á norðurslóðum

Morgunblaðið föstudaginn 11. ágúst 2017.

Í október 2007, fyrir tæpum tíu árum, sigldi norskt gasflutningaskip í fyrsta sinn með 145.000 rúmmetra af fljótandi, ofurkældu jarðgasi, LNG, frá vinnslusvæði Norðmanna í Barentshafi til Cove Point í Marylandríki í Bandaríkjunum. Farmurinn um borð jafngilti árlegri orkunotkun í 45.000 manna bæ. Við brottför skipsins var svo vont veður undan strönd Noregs að hafnsögumaðurinn komst ekki í land þar og sótti þyrla Landhelgisgæslu Íslands hann þegar skipið var 30 mílur undan strönd Íslands.

Þetta var um svipað leyti Bandaríkjamenn tóku að brjóta leirstein og vinna gas og olíu úr iðrum jarðar. Þeir eru nú sjálfum sér nógir og Cove Point hefur verið breytt í útflutningsstöð á bandarísku jarðgasi.

Kúvending í gasflutningum


Spár um að gasflutningsskip yrðu reglulega á siglingu frá Norður-Noregi til Bandaríkjanna rættust ekki. Það varð einfaldlega kúvending. 

Fyrsta bandaríska gasið kom til dæmis sjóleiðis til Póllands í júní 2017. Donald Trump Bandaríkjaforseti var í Varsjá í byrjun júlí og þá sagði Andrzej Duda Póllandsforseti að hann vildi gera langtímasamning um kaup á gasi frá Bandaríkjunum. 

Pólverjar gera sér vonir um að losna undan gasviðskiptum við Rússa þegar fram líða stundir. Unnið er að lagningu á gasleiðslu til Póllands frá Noregi. Í Varsjá sagði Trump: „Við sitjum á ógnarmagni af orku, við erum nú útflytjendur á orku. Ef ykkur vantar einhvern tíma orku, hringið bara í okkur.“

Gas flutt norðurleiðina


Gas er áfram flutt með skipum frá Statoil-stöðinni í Melkøya í Barentshafi fyrir norðan Hammerfest. Athygli vakti í lok júlí að þaðan hélt rússneskt risa-gasflutningaskip í jómfrúarferð austur til Suður-Kóreu. Um er að ræða skipið Christophe de Margerie sem sigldi án aðstoðar ísbrjóta fyrir norðan Rússland, norðurleiðina. Sunnudaginn 6. ágúst fór skipið út um Beringssund og verður 15. ágúst í Suður-Kóreu.

Skipið er í eigu rússneska skipafélagsins Sovcomflot. Það hefur ísstyrkleika Arc7 og getur eitt og óstutt brotist í gegnum ís sem er 2,1 metra þykkur. Jafna má vélarafli skipsins, 45MW, við afl kjarnorkuknúinna ísbrjóta.

Þetta er fyrsta skipið af 15 gasflutningaskipum sem smíðuð eru til að þjóna Jamal LNG verkefninu. Skipin eru 300 m löng og 50 m breið. Hvert skip getur flutt allt að 172.600 rúmmetrum af kældu, fljótandi gasi. Yfir vetrartímann þegar norðurleiðin er lokuð flytja skipin gas frá Jamal til Belgíu og Frakklands.

Jamal LNG stefnir að vinnslu 16.5 milljón lesta árlega af jarðgasi á norðaustur hluta Jamal-skaga í norðvestur Síberíu. Jamal LNG er 50,01% í eigu rússneska gasframleiðandans Novatek, 20% á franska fyrirtækið Total, 20% eru í eigu Kínverska ríkisolíufélagsins (CNPC) og 9% á kínverski Silkileiðarsjóðurinn.

Skipið Christophe de Margerie ber nafn forstjóra Total sem fórst 20. október 2014 ásamt þremur öðrum þegar Falcon 50 einkaþota hans rakst á snjóruðningstæki við flugtak á Vnukovo-flugvelli við Moskvu.

Kínversk flotastöð í Djibouti


Kínverjar líta á norðurleiðina sem hluta af pólitísku viðskiptaáætluninni belti og braut. Áætlunin miðar að því að efla ítök Kínverja í krafti viðskipta og flutninga. Bláa viðskiptaleiðin í norðri er ein af þremur siglingaleiðum áætlunarinnar. 

Mikilvægust þeirra er leiðin um Indlandshaf, Aden-flóa, Rauðahaf og Súez-skurð til Miðjarðarhafs þar sem Kínverjar hafa búið um sig í Piraeus, hafnarborg Aþenu. 

Til að tryggja öryggi á þessari siglingaleið opnuðu Kínverjar fyrstu herflotastöð sína utan Kína í Djibouti í Afríku þriðjudaginn 1. ágúst 2017. Djibouti er á horni sem teygir sig á milli Aden-flóa og Rauðahafs. Kínverjar segja þetta birgðastöð fyrir herflota sinn við friðargæslu fyrir Sameinuðu þjóðirnar á þessum slóðum. Aðrir kalla þetta herstöð.

Viðvörun bandarísku strandgæslunnar


Paul Zunkuft, forstjóri bandarísku strandgæslunnar, flutti viðvörunarorð vegna Kínverja á norðurslóðum á ráðstefnu um öryggismál í Washington þriðjudaginn 1. ágúst. Hann kvað svo fast að orði að vænta mætti álíka ástands á Norður-Íshafi vegna umsvifa Kínverja þar og nú ríkti á Suður-Kínahafi þar sem þeir hafa manngert eyjur til að tryggja sér yfirráðasvæði.

Zukunft sagði: „Það sem núna gerist á norðurskautinu minnir skuggalega mikið á það sem gerist á Austur- og Suður-Kínahafi.“ Ekki aðeins væru Rússar að auka herafla sinn í norðri heldur væru Kínverjar að senda þangað ísbrjót sinn, Snædrekann. Veittu bandarísk stjórnvöld ekki fé til smíði nýrra ísbrjóta fyrir strandgæslu sína ættu þau ekkert annað en „pappírsdreka til að mæta Snædrekanum“.

Zukunft harmaði í fyrirlestri sínum að Bandaríkin ættu ekki aðild að hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna. Það veikti mjög stöðu þeirra í Norður-Íshafi og þegar kæmi að gæslu efnahagslögsögu og landgrunnshagsmuna þeirra.

Skýr umskipti


Það var ekki fyrr en árið 2005 sem tæknilega reyndist unnt að hefja arðbæra vinnslu á gasi og olíu úr leirsteini. Þessi tækni og vinnsla með henni hefur síðan stuðlað að lækkun olíuverðs sem náði 145 dollurum á tunnu í júlí 2008 en er um þessar mundir 45 til 50 dollarar á tunnu.

Lækkun olíuverðs leiddi til stöðvunar í olíuleit og vinnslu á hafi úti. Fyrirtæki urðu að breyta um stefnu og tileinka sér nýja ódýrari tækni. Leiga á olíuborpalli lækkaði til dæmis um helming. Hafi þurft 100 dollara verð á olíutunnu til að það borgaði sig að vinna hana á hafi úti árið 2014 er þessi tala nú 40 til 50 dollarar við olíuvinnslu á Mexíkóflóa segir í nýjasta hefti tímaritsins Foreign Affairs.

Skýr umskipti hafa orðið á þessu sviði á einum áratug. Lækkun á verði gass og olíu hefur þó ekki dregið úr orkuumsvifunum á norðurslóðum. Þau aukast þvert á móti jafnt og þétt um þessar mundir.

Eftir því sem mikilvægi flutningsleiða eykst vex þörfin fyrir að tryggja öryggi á þeim. Líklegt er að kínverska flotastöðin í Djibouti verði ekki fyrsta og síðasta stöðin sem Kínverjar reisa fjarri heimalandi sínu. 

Sé nýliðinn áratugur hafður til hliðsjónar er skynsamlegt slá engu föstu um hver hefur rétt fyrir sér eða rangt þegar lagt er mat á framtíðina í orkumálum. Allar vísbendingar sýna að enn er mikilla breytinga að vænta þegar nýir, öflugir gerendur birtast og nýta sér tækniframfarir til að ná markmiðum sínum.