4.5.2018

Ísrael 70 ára – náin tengsl við Íslendinga

Grein í Morgunblaðinu 4. maí 2018.

Ísraelar minntust þess 19. apríl að 70 ár voru liðin frá því að David Ben-Gurion, fyrsti forsætisráðherra landsins, las sjálfstæðisyfirlýsingu þess. Í aðdraganda hennar var hart deilt um hvernig haga ætti stöðu araba annars vegar og gyðinga hins vegar í Palestínu.

Gengið var til atkvæða um málið á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna (SÞ) 29. nóvember 1947. Thor Thors, sendiherra Íslands hjá SÞ, var einn þriggja manna í nefnd sem átti að leita sátta innan vébanda SÞ. Það mistókst og kom það í hlut Thors að kynna allsherjarþinginu niðurstöðu nefndarinnar um að raunhæfasta leiðin væri að skipta Palestínu. Var það samþykkt með 39 atkvæðum gegn 13 (fulltrúar 10 ríkja greiddu ekki atkvæði).  Gyðingar samþykktu yfirlýsinguna en arabar höfnuðu henni og gerðu vopnaða árás á Ísrael.

Stefna araba er enn að reka Ísraela á haf út. Fyrir skömmu sagði þó krónprinsinn í Sádi-Arabíu gyðinga eiga rétt til lands í Palestínu.

Ísraelar hafa samið frið við nágranna sína í Egyptalandi og Jórdaníu. Ísraelar óttast nú að Íranir hafi búið um sig í nágrannalandi þeirra Sýrlandi. Tengsl Ísraela og Sáda hafa aukist jafnt og þétt síðari ár vegna sameiginlegrar andstöðu við Írana.

Óvildina milli Írana og Sáda má rekja það til þess sem Magnús Þorkell Bernharðsson kallar „stigvaxandi spennu milli súnní- og sjíta-múslíma“ í nýrri bók sinni, Mið-Austurlönd. Spennan birtist til dæmis í borgarastyrjöldinni í Sýrlandi þar sem Íranir og Hizbollah-samtökin, síjtar, standa þétt við bak ríkisstjórnar Bashars al-Assads en öflug ríki súnní-múslíma, til dæmis Sádi-Arabía og Katar, styðja stjórnarandstöðuna.

Þá blasa þessi átök síjta og súnníta einnig við á hörmulegan átt í Jemen, syðst á Arabíuskaganum. Sádar gera þar oft grimmilegar loftárásir á síjta, Houthis, sem njóta stuðnings Írana.

„Sádar hafa sérstaklega miklar áhyggjur af því að Íranir ætli að búa til einhvers konar hálfmána sjíta sem teygi sig frá Íran, í gegnum suðurhluta Íraks, yfir Sýrland, suðurhluta Líbanons og alla leið til Miðjaðarhafs,“ segir Magnús Þorkell.

Þetta er einnig mikið áhyggjuefni Ísraela. Gerist þetta hefðu Íranir fært áhrifasvæði sitt að norður landamærum þeirra.

UNRWA


Gyðingar streymdu til Ísraels eftir stofnun ríkis þeirra. Talið er að tæplega 900.000 hafi flúið þangað frá arabalöndunum. Þegar rætt er um flótta araba frá Ísrael á árunum 1947 og 1948 er oft nefnd talan 538.000. Vegna þessara flóttamanna komu SÞ á fót stofnuninni The United Nations Relief and Works Agency for Palestine Refugees in the Near East (UNRWA) árið 1949. Í nýjasta hefti Þjóðmála segir í grein eftir danska höfunda að við þessa stofnun starfi nú rúmlega 30.000 manns, fleiri en hjá nokkurri annarri SÞ-stofnun og hún stækki jafnt og þétt.

Í greininni segir: „Fáir vita um þessa stofnun þótt hún gegni lykilhlutverki í deilunni [milli Palestínumanna og Ísraela]. Það er kannski ekki svo skrýtið því að einmitt UNRWA á mikið undir því að óreiðan haldist sem mest í Mið-Austurlöndum.[...]

Í staðinn fyrir að vinna að því að Palestínumenn falli inn í og lagi sig að nýjum gistilöndum sínum leggur UNRWA áherslu á að ýta undir reiði palestínsku flóttamannanna til að halda lífi í arfgengu hatri þeirra.“

Hvarvetna er lögð áhersla á að flóttamenn lagi sig sem best að nýjum aðstæðum í nýju landi en landflótta Palestínumenn lifa og hrærast sem flóttamenn í skjóli SÞ.

Hátíðarræður


Opinbera athöfnin á 70 ára þjóðhátíðardegi Ísraela var við grafreit hermanna á Herzl-fjalli í Jerúsalem. Á þessari hæð, sem kennd er við Theodor Herzl „föður Ísraelsríkis“, stendur þinghúsið, Knesset og Ísraelssafnið.

Þarna fluttu leiðtogar þjóðarinnar hátíðarræður um það sem skapar Ísraelum styrk: söguna, tunguna og landið. Allt sameinar þetta þjóðina í fjölbreytileika hennar sem Yuli Edelstein þingforseti lofaði með þeim orðum að tengslin sem sköpuðust innan hans væru „leyndarmál töfra Ísraels“. Þjóðfélagið líktist litskrúðugri mósaik-mynd ólíkra kynkvísla og litarhafta, trúar og skoðana, upprunalanda og hátternis. „Fjölbreytileikinn er uppspretta afls okkar og knýr vöxt okkar,“ sagði þingforsetinn.

Benjamin Netanyahu forsætisráðherra beindi stoltur orðum sínum til andstæðinga Ísraelsríkis og sagði: „Eftir næstu 70 ár sjáið þið hér land sem er 70 sinnum sterkara en nú vegna þess að árangur okkar til dagsins í dag er aðeins upphafið!“

Hann flutti Donald Trump Bandaríkjaforseta þakkir fyrir að viðurkenna Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels og flytja sendiráð Bandaríkjanna til borgarinnar helgu. Forsætisráðherrann sagði að nú væri loks farið að gæta „aðdáunar á Ísrael“ meðal araba og Ísraelar réttu þeim friðarhönd á svæðinu sem leituðu friðar.

Tengsl við Ísland


Sumarið 2006 birtist grein eftir Gunnar Þór Bjarnason sagnfræðing um Ísland og Ísrael í Þjóðmálum. Þar segir hann að á næstu árum og áratugum eftir að Thor Thors beitti sér á þingi SÞ hafi fáir reynst „eins staðfastir í stuðningi sínum við Ísraelsríki og Íslendingar“.

Gunnar Þór segir að samskipti íslenskra og ísraelskra ráðamann hafi sennilega aldrei verið innilegri en á viðreisnarárunum, það er á sjöunda áratugnum þegar stjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks var við völd.

Golda Meir utanríkisráðherra kom hingað í opinbera heimsókn árið 1961 og Ben-Gurion forsætisráðherra árið 1962. Guðmundur Í. Guðmundsson utanríkisráðherra fór til Ísraels árið1960 og Bjarni Benediktsson forsætisráðherra árið 1964. Abba Eban utanríkisráðherra kom hingað 1966 og sama ár fór Ásgeir Ásgeirsson forseti Íslands í opinbera heimsókn til Ísraels. Gunnar Þór segir:

„Það mun hafa verið í fyrsta sinn sem þjóðhöfðingi vestræns ríkis heimsótti landið. Ísraelsmenn gerðu Ásgeiri hátt undir höfði en hann var fyrstur erlendra þjóðhöfðingja til að ávarpa Knesset, ísraelska þingið.“

Í ávarpi sínu sagði Ásgeir að hann væri að nokkru leyti í pílagrímsför. Margt væri líkt með þjóðunum tveimur til dæmis að tala „fornt mál sem hefði lítið breyst um langan aldur“ og sem hefði „átt ríkastan þátt í að varðveita þjóðernið og endurreisa sjálfstæð lýðveldi í báðum löndunum“.

Gagnkvæm samskipti ráðamanna ríkjanna tveggja þegar aðeins um og innan við 20 ár voru liðin frá sjálfstæði þeirra efldu sjálfstraust stjórnvalda þeirra og styrk gagnvart öðrum ríkjum.

Nú eru aðrir tímar. Ríkjunum tveimur sem urðu til á fimmta áratugnum hefur vegnað vel. Við höfum barist fyrir tilverurétti okkar með því að tryggja ráð yfir 200 mílna efnahagslögsögu og þau eru nú tryggð með alþjóðalögum. Ísraelar hafa tryggt tilverurétt sinn með því að setja öryggi ríkisins og borgara þess ofar öllu.