15.6.2018

Fleiri spurningar en svör eftir Singapúr-fundinn

Morgunblaðið 15. júní 2018

Harka Donalds Trumps Bandaríkjaforseta í garð Justins Trudeaus, forsætisráðherra Kanada, laugardaginn 9. júní, lokadag leiðtogafundar G7-ríkjanna í Kanada var undarleg. Hún var þó ekkert einsdæmi. Trump vandar bandamönnum sínum ekki alltaf kveðjurnar.

Forsetinn hélt beint til Singapúr frá Kanada og á leiðinni þangað horfði hann á blaðamannafund þar sem Trudeau lýsti niðurstöðum G7-fundarins. Vék hann þar að ágreiningi um tollamál við Bandaríkjastjórn vegna ákvarðana Trumps og lét orð falla um að Kanadamenn mundu ekki láta þessu ósvarað. Við þetta móðgaðist Trump. Hann dró tafarlaust stuðning sinn við lokaályktun G7-fundarins til baka.

Larry Kudlow, helsti efnahagsráðgjafi Trumps, sagði í sjónvarpsviðtali sunnudaginn 10. júní að forsetinn hefði neitað að hafa nafn sitt undir sameiginlegri yfirlýsingu leiðtoga G7-ríkjanna  vegna „svika“ Justins Trudeaus. Forsætisráðherra Kanada hefði vegið að forsetanum og reynt að veikja stöðu hans fyrir fund hans með Kim Jong-un, einræðisherra í Norður-Kóreu, í Singapúr þriðjudaginn 12. júní. Trudeau „stakk okkur í bakið“ sagði Kudlow. Peter Navarro, einn helsti ráðgjafi Trumps um viðskiptamál, bætti um betur þegar hann sagði í sjónvarpsþætti að Justin Trudeau ætti að fá „sérstakan stað í víti“.

Þetta orðbragð endurspeglar spennuna hjá þeim sem stóðu Trump næst áður en hann hélt til Singapúr (Ludow fékk vægt hjartaáfall eftir helgina). Orðavalið stangast á við allt sem menn eiga að venjast í samskiptum vinaþjóða og nágranna og er alltof harkalegt miðað við tilefnið. Forsætisráðherra Kanada áréttaði aðeins afstöðu ríkisstjórnar sinnar gagnvart einhliða ákvörðunum Trumps um verndartolla.

Féll vel við Kim


Á blaðamannafundi fyrir brottförina frá Kanada sagði Trump að hann væri svo næmur að hann þyrfti ekki nema fimm sekúndur til að átta sig á hvort hann hefði gagn af samræðum við viðmælanda sinn. Á blaðamannafundi eftir Kim-fundinn í Singapúr sagði Trump að hann hefði ekki þurft nema eina sekúndu til að greina Kim sem góðan viðmælanda. Samband þeirra yrði gott.

Allt sem Trump sagði á 65 mínútna löngum blaðamannafundinum eftir Kim-fundinn benti eindregið til þess að hann treysti einræðisherranum til að standa við það sem þeim fór í milli.

Heima fyrir er litið á Kim sem hálfguð, herinn og kjarnorkuvopn hans hafa algjöran forgang. Þjóðinni er haldið í fátækt og fáfræði nýtt valdhöfunum til dýrðar ­– kjarnorkuvopnin urðu til þess að Trump settist til viðræðna við Kim. Óttinn við að þeim megi beita gegn Bandaríkjunum. Nokkrum sinnum áður hafa Bandaríkjamenn og aðrir árangurslaust reynt að koma böndum á þau.

Engin skilyrði


Í aðdraganda fundarins í Singapúr var í fyrstu látið eins og Kim hefði þá þegar ákveðið að fjarlægja öll kjarnorkuvopn sín á skömmum tíma. Til að árétta að honum væri alvara var efnt til sýningar fyrir fjölmiðlamenn þegar úrelt kjarnorkutilraunasvæði í N-Kóreu var sprengt í loft upp og endanlega eyðilagt. Í loðinni yfirlýsingu sem Kim og Trump rituðu undir í Singapúr lofaði Trump Norður-Kóreu „öryggistryggingu“ en Kim „áréttaði staðfastan og óhagganlegan ásetning sinn um að hreinsa algjörlega öll kjarnorkuvopn af Kóreuskaga“.

Sérfræðingar minna á að í september 2005 hafi Norður-Kóreumenn formlega samþykkt að segja skilið við „öll kjarnorkuvopn og núverandi kjarnorkuáætlanir“. Þeir fengu í þess stað stuðning annarra ríkja, þar á meðal Bandaríkjanna, til að afla sér orku.

Norður-Kóreumenn slitu þessu samstarfi árið 2009 vegna ágreinings um tæknileg atriði í tengslum við eftirlit með framkvæmd loforðsins.

Í Singapúr-orðalaginu um kjarnorkuvopn felst í raun ekki meira en Norður-Kóreumenn hafa áður sagt. Þar er ekki minnst á neina útfærslu, ekkert er sagt um tímasetningar eða eftirlitskerfi til að sannreyna að Kim standi við loforð sitt. Þetta sætir mikilli gagnrýni þeirra sem telja fundinn litlu eða engu skipta.

Á blaðamannafundinum sagði Trump að kjarnorkuafvopnunarferlið hæfist „mjög fljótlega – mjög, mjög fljótlega“.

Skuldbinding Norður-Kóreumanna er í orði en ekki á borði og miklu veikari en vænta mátti þegar lagt var af stað til leiðtogafundarins. Orðalagið sýnir að frekari viðræður eru nauðsynlegar. Þær koma í hlut Mikes Pompeos, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Hann heldur utan um framhaldið. Strax eftir Singapúr-fundinn hélt hann til Seoul í Suður-Kóreu og hitti utanríkisráðherra landsins og Japans, bandamenn Bandaríkjanna, til að gefa þeim skýrslu.

Sameiginlegar heræfingar


Af því sem Trump sagði af viðræðum sínum við Kim kom mest á óvart að hann ætlaði að hætta sameiginlegum heræfingum með Suður-Kóreu. Í samtali við ABC-sjónvarpsstöðina sagði forsetinn: „Við eyðum stórfé annan hvorn mánuð í stríðsleiki með Suður-Kóreu og ég sagði: Hvað kostar þetta? Við fljúgum vélum frá Guam, við æfum sprengjukast á tóm fjöll. Ég sagði: Ég vil stoppa – og ég ætla að stoppa þetta og ég tel þetta mjög ögrandi.“

Yfirlýsing Trumps í þessa veru og um hugsanlegan brottflutning um 30.000 manna bandarísks herliðs frá S-Kóreu vakti undrun margra. Þar á meðal stjórnvalda í S-Kóreu og bandaríska varnarmálaráðuneytisins. Að forseti Bandaríkjanna telji æfingar eigin hers með bandamönnum sínum „mjög ögrandi“ er aðeins vatn á myllu andstæðinga Bandaríkjanna.

Yfirmaður japanska hersins sagði að dvöl bandarískra hermanna í Suður-Kóreu og sameiginlegar heræfingar væru „lífsnauðsynlegar“ til að tryggja öryggi í Austur-Asíu. Itsunori Onodera, varnarmálaráðherra Japans, sagði að Japanir myndu áfram stunda heræfingar með Bandaríkjamönnum og halda fast í áform um varnir gegn eldflaugaárás frá Norður-Kóreu.

Það hefur lengi verið skoðun Kínverja að verði heræfingum til varnar Suður-Kóreu hætt láti Norður-Kóreustjórn af kjarnorkuvígbúnaði sínum. Þessi kínverska stefna endurspeglar áhuga Kínastjórnar á að fylla hernaðarlegt tómarúm hverfi Bandaríkjaher á brott. Mike Pompeo fór til Peking frá Seoul.

Mikið reynir á Pompeo við að skýra stefnu Bandaríkjastjórnar í anda stöðugleika. Stóra spurningin er þó: Hefur Trump þolinmæði eða úthald til að leyfa diplómötum að leita sameiginlegrar niðurstöðu?

Óljós árangur


Vel viljuð niðurstaða við mat á Singapúr-fundinum er að árangur hans sé óljós vegna meginefnis hans: kjarnorkuvopnanna. Kim Jong-un sagði eftir fundinn að hann boðaði mikla breytingu. Vísa þessi orð til þróunar í landi hans?

Mannréttindamál bar ekki hátt í viðræðum Trumps við Kim. Þau eru fótum troðin í Norður-Kóreu. Ótti stjórnarherranna við að lina tökin er augljós. Ætlar Kim nú að minnka heljartök sín?

Versta niðurstaða fundarins er að hann auki spennu milli Bandaríkjastjórnar og bandamanna hennar í Seoul og Tokýó og minnki öryggi þeirra.