23.9.2000

Sýning Karólínu Lárusdóttur

Sýning
Karólínu Lárusdóttur,
Gerðarsafni,
23. september 2000.


Þegar gengið er inn á sýningu sem þessa með verkum eftir Karólínu Lárusdóttur er eins og að við séum að koma í veislu hjá gömlum vinum eða heimsókn á gamalkunna staði. Listrænu tökin eru heillandi, myndefnið er kunnuglegt og okkur leiðist aldrei að kynnast því, sem á daga þessa ágæta fólks drífur, hvort heldur það er heima hjá sér, á hótelinu sínu eða á ferð í sumarbústaðinn.

Við sem erum jafnaldrar Karólínu og gengum með henni í skóla höfum sérstaka ánægju af því að kynnast þessari hlið á æsku hennar og vitum af frásögn hennar sjálfrar, að með myndunum er hún að segja okkur frá atburðum, sem hún átti erfitt með að tala um á sínum tíma, því að þeir voru svo sérstæðir í íslensku þjóðfélagi á uppvaxtarárum okkar. Jafnvel enn þann í dag segist Karólína vera hikandi við að festa ýmislegt á strigann, sem við okkur blasir á þessari sýningu, en hún gengur á hólm við sjálfa sig og lætur slag standa.

Fólkið í myndunum mínum er alltaf eins, segir Karólína. Þetta eru manngerðir sem ég man eftir úr uppvexti mínum, en þegar ég lít í kringum mig núna sé ég þær ekki víða. Held þó að þær séu enn í okkur, faldar á bak við gervi tískunnar og tíðarandans. Þetta er alvöru fólk. Það er ekkert að þykjast. Er alveg óhrætt við að vera forvitið og hegða sér eins og eðli þess býður. Það er saklaust, ómengað af sjónvarpi og tækninni yfirleitt og sýnir allar sínar góðu og slæmu hliðar. Er bara að lifa lífinu sínu í sátt við sjálft sig og aðra.

Í þessum oðrum Karólínu felst mikilvæg skýring á því aðdráttarafli, sem þessi verk hennar hafa, þau kveikja í okkur hverju og einu þrá eftir því sem er upprunalegt og sérstætt og við höfum öll þörf fyrir að tjá með einhverjum hætti. Öll þurfum við að þroska eigin rödd og ganga á hólm við okkur sjálf, þótt við getum það ekki með listilegum aðferðum Karólínu .

Því fer hins vegar fjarri, að Karólína einskorði listræna krafta sína við að sýna okkur líf þessa ágæta fólks. Er raunar með ólíkindum, hve hún fær miklu áorkað. í ár sýnir hún verk sín á fjórum sýningum í þremur löndum.

Fyrir 18 árum varð Karólína fyrst myndlistarmanna til að halda sýningu í forkirkju Hallgrímskirkju, málaði hún 10 vatnslitamyndir úr lífi og starfi Jesú og gaf nýstofnuðu Listvinafélagi kirkjunnar til styrktar liststarfsemi í kirkjunni. Nú í sumar efndi hún til sýningar á 12 verkum á sama stað og var efni þeirra flestra sótt í Biblíuna. Þessar myndir gaf hún til að efla allt starf í Hallgrímskirkju.

Þessi ræktarsemi Karólínu við Hallgrímskirkju og listrænt starf á vettvangi hennar segir okkur, að hugur hennar dvelst ekki einungis hér á landi, þegar hún leitar sér að myndefni.

Karólína flutti frá Íslandi um miðjan sjöunda áratuginn og hefur hlotið mikla og verðskuldaða viðurkenningu á erlendum vettvangi.Hún er meðal annars félagi í Hinu konunglega félagi breskra vatnslitamálara, þrátt fyrir að hafa aldrei afsalað sér íslenskum ríkisborgararétti og aðeins einn eða tveir listamenn komist í félagið ár hvert. Eftir mánuð verður opnuð sýning á vatnslita- og grafíkmyndum Karólínu í hinu kunna Bankside Gallery í London og einnig mun listastafnið í Chamaliere í Frakklandi sýna grafíkverk hennar í tilefni af verðlaunum, sem hún hlaut þar í fyrra.

Góðir áheyrendur!

Ég veit af löngum og góðum kynnum af Karólínu, að fátt þykir henni verra en þegar ágæti hennar er tíundað, hún vill koma til dyranna á sama hljóðláta og óspillta hátt og fólkið í myndunum hennar og vera metin af verðleikum verka sinna. Í því efni þarf hún ekki að kvarta, þegar litið er til þess, hve íslenskir sýningargestir taka henni af mikilli gleði og þakklæti.

Ég óska Karólínu til hamingju með glæsilegan listferil hennar til þessa og þá sýningu, sem hér er að hefjast í dag. Megi hún um langan aldur njóta sinnar miklu sköpunar- og vinnugleði, því að þar með gleður hún einnig okkur öll.

Ég óska einnig öðrum listamönnum, sem eru að opna sýningar hér í dag til hamingju en þeir eru Þórður Hall listmálari hér í vestursal og Sigrún Einarsdóttir og Sören Larsen, sem sýna glerverk á neðri hæð safnsins. Með þessum sýningum er enn staðfestur hinn mikli kraftur, sem er í starfsemi Gerðarsafns undir forystu Guðbjargar Kristjánsdóttur og færum við henni einnig heillaóskir í tilefni dagsins.

Sýning Karólínu Lárusdóttur er opnuð.