10.9.2000

Bókmenntahátíð í Reykjavík

5. alþjóðlega bókmenntahátíðin
Norræna húsinu,
10. september, 2000.

Íslensk menningararfleifð á uppruna sinn í bókmenntum og tungumálinu, en þar er að finna þær rætur, sem veita okkur styrk til þátttöku í alþjóðlegri menningarsamvinnu á eigin forsendum og án þess að óttast, að hnattvæðingin verði til þess að kæfa okkur. Alþjóðleg bókmenntahátíð skipar því sérstakan sess í huga okkar og þegar hún er nú haldin hér í fimmta sinn er ánægja og heiður að bjóða marga góða erlenda gesti velkomna, bæði höfunda og útgefendur.
Menning Íslendinga hefur átt mest undir högg að sækja, þegar þjóðin hefur lifað í einangrun frá öðrum og ekki haft tækifæri til að njóta alþjóðlegra menningarstrauma og virkja þá með sínum hætti. Við eigum enga skýringu á því, hvers vegna Íslendingar hófu að skrifa sína sögu og annarra á eigin tungu fyrir um það bil átta hundruð árum og tóku þannig aðra menningarstefnu en menn gerðu til dæmis annars staðar á Norðurlöndunum. Hvað sem því líður vitum við nú, að þá urðu til bókmenntir, sem standast tímans tönn og eru mikilvægt framlag til heimsmenningarinnar.

Sögurnar eru um þessar mundir að ganga í endurnýjun lífdaga á alþjóðlegum vettvangi, því að nýlega kom út fyrsta samræmda heildarútgáfa á Íslendingasögunum á ensku. Geta nú allir, sem þá tungu lesa, fengið heildarmynd af sögunum. Í Þýskalandi hefur einnig verið unnið mikið starf undanfarin ár við að gefa út fornar íslenskar bókmenntir, þá hefur hluti sagnanna nýlega verið þýddur á kínversku og rússnesku, auk þess sem fyrri hluti Heimskringlu eftir Snorra Sturluson kom út á frönsku fyrr á þessu ári.

Ég gæti lengi rakið dæmi þess, að hinar fornu bókmenntir okkar eru enn þann dag í dag lifandi þáttur heimsmenningarinnar. Þær lifa að sjálfsögðu enn góðu lífi meðal okkar sem tölum enn sama málið. Til dæmis var ég nýlega á Rotary-fundi, þar sem fóru fram líflegar umræður um það, hver hefði ritað, Njálu, og sýndist sitt hverjum. Meðal þeirra, sem lögðu sitt af mörkum til umræðnanna var Matthías Johannessen, skáld og ritstjóri, sem stjórnar á morgun umræðum á hátíðinni um bókmenntir og tjáningarfrelsi. Matthías rökstuddi þá skoðun sína, að Sturla Þórðarson hefði ritað Njálssögu meðal annars með þeim orðum, að við vissum hvaða bækur hann hefði skráð og þær bæru af öðrum frá þessum tíma. Væri Sturla ekki höfundurinn hefði samtímis honum verið á Íslandi stórbrotinn, ókunnur rithöfundur og með ólíkindum væri, að hann væri ekki unnt að finna.

Vafalaust geymir samtíminn snillinga á sviði bókmennta, sem við eigum ef til vill aldrei eftir að heyra um, en verða hafnir til vegs og virðingar af afkomendum okkar. Einn sameiginlegan mælikvarða eigum við þó um ritsnilld í samtímanum og það eru Nóbelsverðlaunin, og er sérstakur heiður að bjóða Nóbelsverðlaunahafann Günter Grass velkominn á hátíðina.

Í þakkarræðu sinni í Stokkhólmi í desember 1999 velti hann einmitt fyrir sér spurningunni um hlutverk höfundarins og meðal annars því, hvaða sögur voru sagðar, þegar enginn kunni enn að skrifa og ekkert var því skráð. Allt frá tímum Kains og Abels hafi menn lýst morðum og ættardeilum, ragnarökum, góðum tímum og vondum og engin saga verið trúverðug án þess að þar væri að finna langar ættarskrár. Öll þessi einkenni þekkjum við úr Íslendingasögunum, sem skipuðu manninum sess í veröldinni, lýsa einstaklingum, sem mynda þroskað þjóðfélag, þar sem lög og réttur þróast án framkvæmdavalds í þrjú hundruð ár og sífellt er leitað nýrra landa og tækifæra á sama tíma og tekist er á innbyrðis um ríkidæmi, völd og trúarbrögð.

Þetta gamla norræna þjóðfélag vekur heitar tilfinningar nú á tímum, ef marka má umræður í fjölmiðlum í Ameríku og Evrópu um það, hvort forfeður okkar víkingarnir hafi verið friðsamir kaupmenn, sæfarar og landkönnuðir, sem námu land til að leggja stund á viðskipti, eða illmenni, sem fóru um rænandi og ruplandi. Í Bandaríkjunum birti vikuritið Time nýlega forsíðugrein um hina friðsömu og leitandi víkinga, en í Þýskalandi svaraði vikuritið Der Spiegel með grein um villimennsku víkinganna og grimmd.

Deilur um þetta munu halda áfram, því að afstaðan byggist á viðhorfi hvers og eins og þeim ályktunum, sem hann dregur af sögunni. Á tímum hnattvæðingarinnar er enn áhugi á gömlum menningarheimum, sem setja svip sinn á samtímann, og við þurfum að nýta öll tækifæri til að kveikja þennan áhuga meðal unga fólksins, því að jákvæð tilfinning fyrir eigin menningarrótum stuðlar að heilbrigðu sjálfstrausti, þegar rík viðleitni er til að steypa alla í sama mót.

Íslendingar eiga enn nú á tímum rithöfunda, sem liggur mikið á hjarta og segja sögur. Er okkur Íslendingum fagnaðarefni, að áhugi á íslenskum nútímabókmenntum er vaxandi víða um lönd. Má til dæmis geta þess, að á sama tíma og við erum hér í dag, eru fimm íslenskir rithöfundar í Berlín, þar sem verið er að kynna nýja sýnisbók íslenskra samtímabókmennta í þýskri þýðingu.

Fyrir rúmri viku gerðum við merkilega tilraun í borgarleikhúsinu í Hannover í tengslum við EXPO 2000, þegar Þjóðleikhúsið fór þangað með hina miklu leikgerð sína á Sjálfstæðu fólki eftir Nóbelsverðlaunahafann Halldór Laxness og sýndi hana í tveimur hlutum síðdegis og að kvöldi á íslensku fyrir fullu húsi þýskra áhorfenda, sem gátu lesið textann á skjá fyrir ofan sviðið. Í stuttu máli heppnaðist tilraunin vel, ef marka má undirtektir áhorfenda, sem voru ákaflega góðar. Áhuginn á sýningunni var svo mikill, að mun færri komust að en vildu.

Góðar bókmenntir lifa á eigin forsendum og sem betur fer getum við ekki skýrt það til fulls, hverjar þessar forsendur eru. Í þessu felst galdur ykkar, ágætu höfundar, þið segið sögu með þeim hætti, sem við hin þráum að njóta.

Bókmenntahátíðir svipta ekki dulúðunni af bókmenntunum en þær gera okkur kleift að komast í návígi við höfunda, sem okkur finnst við þekkja, af því að við höfum lesið verkin þeirra eða fylgst með frægð þeirra úr fjarlægð.

Við erum þakklát þeim erlendu gestum, sem heiðra okkur með komu sinni á þessa fimmtu alþjóðlegu bókmenntahátíð, sem hér er haldin. Ég óska Norræna húsinu og undirbúningsnefnd hátíðarinnar til hamingju með hina metnaðarfullu dagskrá hátíðarinnar.

Fimmta alþjóðlega bókmenntahátíðin í Reykjavík er sett.








Háskólahátíð