25.8.2000

Sjónvarpið flytur í Efstaleiti

Sjónvarpið
í Efstaleiti,
25. ágúst, 2000.


Ég færi Ríkisútvarpinu innilegar hamingjuóskir í tilefni af því að allir meginþættir í starfsemi þess skuli nú komnir hér undir eitt þak en með því hefur langþráður draumur loks ræst. Við sem lögðum leið okkar í sjónvarpið við Laugaveg til að sitja þar fyrir svörum eða taka þátt í umræðum undruðumst oft, hvernig unnt var að halda úti jafnviðamikilli dagskrá og raun hefur verið í um það bil 35 ár við þær aðstæður, sem þar voru. í mörg ár ef ekki áratugi hafa starfsmenn sjónvarpsins beðið eftir að fá betri starfsskilyrði. Sú stund hefur nú runnið upp og óska ég þeim öllum góðs árangurs í störfum við þessar nýju aðstæður.

Ráðist gæði og fjölbreytni sjónvarpsefnis af húsnæði og tæknilegri umgjörð í höfuðstöðvunum, ætti dagskráin að taka á sig nýjan og betri svip, því að nú er í fyrsta sinn búið þannig að sjónvarpinu, að það starfar í sérhönnuðu húsnæði með tæki af bestu gerð.

Með því að flytja sjónvarpið hingað í Efstaleiti er verið að fullnýta það hús, sem hér var reist fyrir Ríkisútvarpið og tekið formlega í notkun 19. júní 1987,

Eftir að menn höfðu fjallað um flutning sjónvarpsins hingað í áratugi bæði í nefndum og annars staðar, lagði ég til við ríkisstjórnina 4. nóvember 1997, að ég veitti Ríkisútvarpinu heimild til að ráðast í framkvæmdir vegna flutningsins, sem færi fram undir sérstakri flutningsstjórn meðal annars með það að leiðarljósi, að framleiðsla leikins efnis í sjónvarpi yrði flutt til sjálfstæðra fyrirtækja utan veggja Ríkisútvarpsins.

Ríkisstjórnin samþykkti þessa tillögu og kynnti ég heimild til framkvæmdanna í bréfi til Péturs Guðfinnssonar, þáverandi útvarpsstjóra, 14. nóvember 1997. Í bréfinu segir meðal annars: 6Að því er innréttingar í hinum nýju húsakynnum varðar telur ráðuneytið að taka beri mið af því sjónarmiði Bandalags íslenskra listamanna að framleiðsla leikins efnis verði flutt til sjálfstæðra fyrirtækja utan veggja stofnunarinnar. &

Aðdragandi þess, að við stöndum hér í dag, sýnir, að í raun var um tvíþætta flutningsákvörðun að ræða í tillögu minni til ríkisstjórnarinnar í nóvember 1997, það er annars vegar að sjónvarpið flytti í Efstaleiti og það flytti framleiðslu leikins efnis til sjálfstæðra fyrirtækja. Hef ég gengið að því sem vísu, að Ríkisútvarpið miði störf sín við þetta og hef í raun enga ástæðu til að ætla annað, því að aldrei hefur verið að skilyrðinu fundið af hálfu stofnunarinnar.

Á sjötugasta afmælisári Ríkisútvarpsins tekst loks að sameina meginstarfsemi þess á einum stað. Þegar þessum mikilvæga áfanga er náð, ber að huga að næstu stórverkefnum, svo að útvarpið geti haldið áfram að eflast með hliðsjón af sívaxandi kröfum um gott íslenskt efni í miðlum, sem eru í sífelldri þróun..

Að því er dagskrárgerð varðar eru heimatökin hægari en áður til margvíslegrar samvinnu. Á hinn bóginn hafa þó ekki verið teknar neinar ákvarðanir um það til dæmis að sameina fréttastofur stofnunarinnar, þótt þær starfi nú í sama húsi. Fleiri rök en þau, sem lúta að húsnæðismálum, koma þar til álita og er eðlilegt, að stjórnendur Ríkisútvarpsins og útvarpsráð gefi sér tíma til að fara gaumgæfilega yfir allar tillögur um nýskipan af þeim toga, sé hún á annað borð til umræðu.

Á fáum sviðum eru breytingar eins örar og þeim, sem snerta tækni til fjölmiðlunar, hvort heldur um er að ræða ritað mál, talað orð eða myndir. Ríkisútvarpið hefur ekki farið varhluta af slíkum breytingum, mestar hafa þær þó orðið hin síðari ár, eða frá 1985, þegar einokun ríkisins á útvarpsrekstri var afnumin, og eftir 1991, þegar netið kom til sögunnar og síðan nýting stafrænnar tækni til að miðla útvarpsefni. Þá hefur Evrópusamstarfið krafist þess af okkur Íslendingum, að starfsskilyrði útvarpsstöðva hér tækju mið af Evrópurétti. Útvarpslögin, sem alþingi samþykkti samhljóða síðastliðið vor, byggjast á þessum rétti.

Enn hefur ekki náðst pólitísk samstaða um að breyta stjórnar- og rekstrarformi Ríkisútvarpsins. Ég hef kynnt þær hugmyndir meðal annars að fengnum tillögum frá stjórnendum Ríkisútvarpsins, að stofnuninni yrði breytt í hlutafélag í eigu ríkisins. Ýmsir, sem áður voru alfarið andvígir því, að nokkuð yrði hróflað við skipulagi Ríkisútvarpsins, nefna nú, að því mætti ef til vill breyta í sjálfseignarstofnun eða jafnvel samvinnufélag. Ég held, að þessir menn átti sig á því, skoði þeir málið enn betur, að hlutafélagsformið hentar útvarpinu best, eigi það að geta brugðist við nýjum kröfum með markvissum hætti.

Við afgreiðslu útvarpslagafrumvarpsins lýsti menntamálanefnd alþingis samhljóða yfir því, að nauðsynlegt væri að endurskoða lagaákvæði um Ríkisútvarpið og endurmeta hlutverk þess í breyttu fjölmiðlaumhverfi. Lagði nefndin áherslu á að þessari vinnu yrði hraðað. Þetta verður að sjálfsögðu ekki gert nema með því að kynna frumvarp að nýjum lögum um Ríkisútvarpið og hef ég fullan hug á að gera það, svo fljótt sem nauðsynlegum undirbúningi er lokið. Ætti markmiðið að vera að ná eins góðu samkomulagi um afgreiðslu þess og útvarpslagafrumvarpið.

Tækjakostur sjónvarpsins var endurnýjaður við flutning þess og er það nú í stakk búið til að sinna starfrænum kröfum, sem eru alltaf að aukast Spurning er, hvernig staðið verði að dreifingu stafræns útvarpsefnis hér á landi. Er ég þeirrar skoðunar, að neytendum sé fyrir bestu, að sem mest og best samstaða takist meðal framleiðenda á útvarpsefni um þennan þátt, svo að endabúnaður notenda verði einfaldur en ekki margfaldur vegna ólíkra aðferða stöðvanna við dreifingu efnis.

Nokkrar umræður hafa verið um það, hvort sjónvarpið eigi að senda út efni á nýrri rás. Spurning er hvort ekki sé brýnna að leggja áherslu á að bæta efnið, sem sent er út á einni rás, áður en ný kemur til sögunnar. Í þessu sambandi er einnig að því að hyggja, hvort ekki sé eðlilegt að stofna til samstarfs við aðra um nýtingu annarrar rásar, svo að allur kostnaður vegna hennar leggist ekki á Ríkisútvarpið. Tel ég skynsamlegt að sá kostur sé kannaður til hlítar með opnum huga.

Góðir áheyrendur!

Mörg spennandi framtíðarverkefni bíða Ríkisútvarpsins. Með því að flytja sjónvarpið hingað í Efstaleitið er verið að styrkja innviðina til að sinna þessum verkefnum með markvissari og öflugri hætti. Þannig er nauðsynlegt að vinna ætíð að því að búa í haginn fyrir útvarpið, svo að það geti sinnt þeirri meginskyldu að flytja okkur íslenskt efni, sem stenst metnaðarfullar kröfur. Frá því makrmiði megum við ekki hvika.

Til hamingju með daginn!