27.8.1999

Menntakerfið og landsbyggðin - Siglufirði

Menntakerfið og landsbyggðin
Ársþing SSNV á Siglufirði 27. ágúst 1999
Fyrirsögnin á þessum orðum, menntakerfið og landsbyggðin, kann að kveikja þá hugmynd hjá einhverjum, að munur sé á inntaki þeirrar menntunar, sem veitt er á landsbyggðinni annars vegar og á höfuðborgarsvæðinu hins vegar eða menntakerfið sé annað í dreifbýli en þéttbýli. Málum er alls ekki þannig háttað. Hvarvetna á landinu ber að veita sömu menntun í sambærilegum skólum og námsgreinum. Nýjar námskrár fyrir leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla eiga að tryggja þetta. Hitt er ljóst, að ekki er alls staðar unnt að bjóða sömu fjölbreytni í námi með kennslu á staðnum.

Leikskólar og grunnskólar eru algerlega reknir af sveitarfélögum. Menntamálaráðherra kemur hins vegar fram fyrir hönd ríkisvaldsins og setur reglur um innra starf þessara skóla með námskrám. Ríkisvaldið kostar gerð námsefnis og leggur fé af mörkum til endurmenntunar kennara. Það stendur einnig fyrir samræmdum prófum í grunnskólum og sinnir mats- og eftirlitsskyldum gagnvart skólunum. Starfræktir eru þróunarsjóðir leikskóla og grunnskóla innan menntamálaráðuneytisins og eru veittir styrkir úr þeim til verkefna í þessum skólum eftir mat á umsóknum frá þeim. Ráðuneytið hefur stofnað til samstarfsverkefna við sveitarfélög vegna grunnskóla varðandi þróun upplýsingatækninnar og við þátttöku skóla í GLOBE-verkefninu, sem er alþjóðlegt verkefni að frumkvæði Bandaríkjastjórnar til að auka áhuga nemenda á náttúrulegu umhverfi sínu. Ríkisvaldið stendur að rekstri helstu starfsmenntaskóla sveitarfélaganna, það er háskólanna, sem annast menntun kennara, Kennaraháskóla Íslands og Háskólans á Akureyri. Menntamálaráðuneytið annast framkvæmd laganna um lögverndun starfsréttinda kennara og skólastjórnenda og menntamálaráðherra gefur út undanþágur fyrir þá kennara í grunnskólum, sem ekki hafa full réttindi samkvæmt lögunum.

Hér hef ég tíundað helstu viðfangsefni menntamálaráðuneytisins, þegar litið er til grunnskólans, eftir að hann fluttist til sveitarfélaganna. Með flutningnum var stuðlað að mestu valddreifingu í einu skrefi í sögu þjóðarinnar og jafnframt var sveitarfélögunum falið viðamesta einstaka verkefni sitt til þessa. Þessi valddreifing hefur ásamt öðrum þáttum valdið mestu grósku í íslenskum skólamálum frá því að fyrstu fræðslulög þjóðarinnar komu til sögunnar árið 1908.

Afstaða mín var sú, eftir að samið hafði verið um flutning grunnskólans, að strax væri nauðsynlegt að draga skörp skil milli ríkisins og sveitarfélaganna í þessu efni og hafa sem fæst grá svæði. Tel ég, að það hafi tekist og í engu er sveitarfélögum mismunað í faglegu tilliti af hálfu ráðuneytisins. Þau sitja öll við sama borð, hvort sem þau eru á landsbyggðinni eða ekki. Samsráðsnefnd um grunnskólastigið hefur verið starfandi, þar sem fulltrúar sveitarfélaga, kennara og ráðuneytisins hittast og bera saman bækur sínar. Þar eru mál reifuð og leitað leiða til sameiginlegrar niðurstöðu.

Góð reynsla af þessu samstarfi um grunnskólann varð til þess, að ég beitti mér fyrir því, að svipaðri nefnd var komið á laggirnar til að fjalla um málefni leikskólans. Þar situr auk fulltrúa sveitarfélaga, leikskólakennara og ráðuneytis fulltrúi ófaglærðs starfsfólks í leikskólum.

Þegar lögin um lögverndun kennarastarfsins voru sett, var ljóst, að nokkur tími liði, þar til unnt yrði að manna allar stöður með kennurum, sem hefðu full réttindi til kennslu samkvæmt þeim. Þess vegna var menntamálaráðherra gefið vald til þess að heimila ráðningu fólks án slíkra réttinda. Þetta bil að því er varðar fjölda svonefndra réttindakennara hefur ekki enn verið brúað. Fjölgun kennslustunda og ákvarðanir sveitarfélaga um fækkun nemenda í bekkjum hafa kallað á sífellt fleiri kennara.

Ég hef fylgt þeirri stefnu, að nýta heimildir laganna til undanþágu, eftir því sem skynsamlegt mat leyfir. Fyrsta skyldan er að tryggja, að skólar geti starfað, unnt sé að sinna kröfunni um skólaskyldu grunnskólabarna . Neikvæð ummæli ýmissa forystumanna kennara í garð þeirra félagsmanna í samtökum sínum, sem hafa ekki formleg réttindi til að kalla sig grunnskólakennara en þó lögmæta heimild til að starfa í skólum, hef ég aldrei skilið. Þessir kennarar hafa margir áratuga reynslu og eru þess vegna ekki síður vel í stakk búnir til að miðla af þekkingu sinni til nemenda en aðrir kennarar. Að sjálfsögðu ber að vinna að því, að allir kennarar hafi lokið prófum, sem veita þeim full réttindi.

Því sjónarmiði er oft hreyft, að ríkisvaldið standi sig ekki sem skyldi í þessu efni, þar sem það fái ekki allir inngöngu í kennaranám, sem eftir því óska. Þegar litið er á heildarframboð þessa náms, sést, að Háskólinn á Akureyri getur tekið við fleiri nemendum en þangað sækja. Sumir myndu vafalaust túlka það sem byggðastefnu að stækka ekki Kennaraháskólann í Reykjavík enn frekar, á meðan unnt er að stunda sambærilegt nám á Akureyri. Í þessu sambandi ber einnig að leiða hugann að því, að besta leiðin til að fjölga réttindakennurum á skemmstum tíma er að Kennaraháskóli Íslands bjóði fleirum að stunda fjarnám. Eru það einkum kennarar á landsbyggðinni, sem stunda þetta nám. Þetta fólk er líklegt til að halda áfram kennslu, eftir að það hefur aflað sér réttinda. Hitt er meira undir hælinn lagt, hvort þeir, sem ljúka kennaranámi frá háskólum, snúa sér að kennslu eða ekki. Fjöldi innritaðra nemenda segir því ekki alla söguna í þessu máli. Á hinn bóginn er gleðilegt, að hér á landi glímum við ekki við vanda margra nágrannaþjóða okkar, sem felst í því að kennaraskortur stafar af litlum áhuga á að fara í kennaraskóla. Hér ákveða of fáir að fara í kennslu að loknu námi.

Breytingar í skólamálum taka almennt langan tíma. Tiltölulega einfaldar ákvarðanir geta þó á skömmum tíma haft meiri áhrif en margir ætluðu. Nefni ég þar birtingu úrlausna á samræmdum prófum með þeim hætti, að menn geta borið saman skóla og stöðu þeirra innbyrðis. Ég átti ekki von á því, að þessi miðlun upplýsinga hefði á jafn skömmum tíma svo mikil áhrif sem raun ber vitni. Nú er svo komið, að stjórnendur fámennra skóla á landsbyggðinni hafa áhyggjur af því, að ekki skuli greint frá stöðu þeirra. Tölvunefnd ákvað, að væru nemendur í árgangi færri en 11 í samræmdu prófi mætti ekki birta niðurstöður þeirra í samanburðinum. Stjórnendur fámennu skólanna sjá, að nemendur þeirra standa sig síður en svo verr en hinir, sem eru í fjölmennum skólum. Raunar var skólinn í Reykholti í Biskupstungum í fremstu röð í þessum samanburði síðastliðið vor, þótt ekki sé hann fjölmennur og á landsbyggðinni. Að mínu mati liggur alls ekki í hlutarins eðli, að skólar á landsbyggðinni komi illa út úr slíkum samanburði.

Spurt hefur verið, hvers vegna nýju námskrárnar séu svona ýtarlegar og nákvæmar. Fyrir því eru mörg rök. Ein þeirra vil ég nefna hér. Nýju námskrárnar og námsefnið, sem kemur í framhaldi þeirra, eiga að tryggja, að allir skólar sitji við sama borð, þegar kröfur til þeirra eru skilgreindar. Þær eiga einnig að auðvelda nemendum, foreldrum og sveitarstjórnum að fylgjast með innra starfi skólanna, að þar sé starfað með aga, kröfur og markmið að leiðarljósi. Skólastarf fær ekki þrifist og skilar ekki árangri nema í nánum tengslum við umhverfi sitt, ekki síst foreldra. Fámennir skólar ættu frekar en fjölmennir að eiga auðvelt með að stofna til slíks samstarfs. Með greinargóðum námskrám og skýrri stefnu er foreldrum auðveldað að átta sig á því, sem gerist innan veggja skólanna og hvers er krafist af börnum þeirra í hverjum árgangi. Samkennsla nemenda á ólíkum aldri í fámennum skólum verður einnig auðveldari og markvissari með nýju námskrárnar að leiðarljósi.

Nemendur og foreldrar eru kallaðir til ábyrgðar með öðrum hætti en áður, því að frelsi nemandans til að leggja eigin áherslur í námi í grunnskóla eykst með nýju námskránum. Þær binda aðeins 70% af tíma nemandans í níunda og tíunda bekk. Markmiðið er að hinn frjálsi tími sé notaður til að virkja áhuga nemandans á hugðarefnum sínum og því, sem helst setur svip á umhverfi hans, þegar litið er til atvinnulífs, staðhátta eða náttúru. Breytingar, sem verða gerðar á samræmdum prófum, miða að því, að nemendur geti ákveðið, hvort þeir taka prófin eða ekki. Réttindi þeirra til inngöngu á hinar ýmsu brautir í framhaldsskóla byggjast síðan á því, hvaða samræmd próf úr grunnskóla þeir hafa tekið.

Þetta eru róttækar breytingar. Sumir óttast þær á þeirri forsendu, að nemendur í fámennum skólum á landsbyggðinni standi höllum fæti, vegna þess að ekki verði unnt að sinna kröfum þeirra um val. Ég tel þennan ótta byggðan á skammsýni, þar sem hann taki ekki tillit til þeirra breytinga, sem upplýsingatæknin er að valda á kennsluháttum.

Í öllum skólum er nauðsynlegt að viðurkenna, að við erum misjafnlega af guði gerð, höfum öll okkar styrkleika og veikleika. Segja má, að til þessa hafi allir skólar alls staðar á landinu eða jafnvel í öllum heiminum verið eins. Innan þeirra hefur öllum verið kennt hið sama með sömu aðferð og sama mælistika hefur verið notuð á alla. Er þetta gjarnan tíundað, þegar rætt er um jafnrétti til náms. Í þeirri stefnu, sem býr að baki nýju námskránum, er jafnrétti til náms sagt fólgið í því, að bjóða nemendum nám og kennslu við hæfi og gefa þeim tækifæri til að spreyta sig á viðfangsefnum að eigin vali. Í þessu felast ekki endilega sömu úrræði fyrir alla heldur sambærileg og jafngild tækifæri. Einstaklingar eru mjög mismunandi að andlegu upplagi. Með því að kenna með einni viðtekinni aðferð hefur kannski verið komið til móts við aðeins einn hóp nemenda, þótt það hafi ekki verið ætlunin. Kennari með stóran bekk á ekki margra kosta völ við að sinna hverjum og einum.

Upplýsingatæknin, það er miðlun þekkingar með tölvum, gerir hins vegar kleift að veita persónulega kennslu samkvæmt persónulegri námsáætlun innan námskrár, þar sem þörfum hvers einstaks nemanda er sinnt. Tæknin gerir nemendum einnig kleift að sýna kunnáttu sína á mismunandi vegu.

Ég er með þessum orðum ekki að ræða um neitt, sem er fjarlægt í tíma og rúmi. Helstu tölvufyrirtækin eins og Apple hafa áttað sig á því, að skólamarkaðurinn er helsti vaxtarbroddurinn fyrir vélbúnað og hugbúnað í einkatölvum. Í næsta mánuði kemur hin svonefnda iBook-tölva á markað, sérhönnuð fartölva fyrir skólanemendur. Hvenær hún eða einhver keppinautur hennar tekur við af pennastokknum og skólatöskunni ætla ég ekki að fullyrða. Um það efni bera fæst orð minnsta ábyrgð vegna þess að hraði breytinganna er svo mikill.

Nýlega lagði ég drög að athugun á því, hvort ekki sé skynsamlegt að hafa það sem markmið, að allir nemendur í íslenskum framhaldsskólum hafi eigin fartölvu til umráða við nám sitt. Fyrstu niðurstöður benda til þess, að frá fjárhagslegum og tæknilegum sjónarhóli sé þessi hugmynd ekki fráleit. Er þá gert ráð fyrir, að hugsanlega kunni nemendum að verða veittur einhver fjárhagslegur stuðningur við að eignast tölvuna. Reynist þetta skynsamlegur kostur með tilliti til ráðstöfunar á opinberu fé og til að styrkja þekkingaröflun nemenda, mun ég beita mér fyrir því að þessari hugmynd verði hrundið í framkvæmd. Verði horfið að þessu ráði mun það á skömmum tíma breyta öllum kennsluháttum á framhaldsskólastigi og viðhorfi til framhaldsnáms.

Þetta viðhorf hefur þegar tekið miklum breytingum vegna upplýsingatækninnar. Stig af stigi hefur framboð á námsefni í fjarkennslu verið að aukast. Þar hefur Verkmenntaskólinn á Akureyri gegnt lykilhlutverki á framhaldsskólastigi. Hann annar nú ekki öllum þeim áhuga, sem fólk á öllum aldri, úr öllum landshlutum og erlendis sýnir á að stunda fjarnámið, sem hann býður. Þegar hugað er að því, hve hér er um stórtæka breytingu að ræða í kerfi, sem er að eðli jafn íhaldssamt og skólakerfið, er í raun undravert, hve auðveldlega hefur gengið að innleiða hér fjarnám. Auðvitað hefur á stundum komið til árekstra og enn er til dæmis ósamið við kennara um laun þeirra vegna fjarkennslu. Hún er í sjálfu sér ekki ódýrari en venjuleg kennsla. Helsti kostur hennar er, að hún veitir fleira fólki tækifæri til að mennta sig án þess að það þurfi að breyta um búsetu eða störf.

Fjarnám í grunnskóla undir eftirliti kennara þar getur auðveldað fámennum skólum að auka fjölbreytni sína. Menntamálaráðuneytið hefur verið spurt álits á því, hvort lög heimili eða banni fjarnám á grunnskólastigi. Svarið er á þann veg, að lögin séu í raun hlutlaus í þessu efni. Aðalatriðið er, að nemanda sé tryggð sú kennsla, sem honum ber samkvæmt námskrá.

Nú í haust hefst tilraun í samvinnu menntamálaráðuneytisins og sveitarstjórnar Grundarfjarðar með skipulagt fjarnám í því sveitarfélagi fyrir framhaldsskólanema. Er kennslan veitt undir umsjón Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi í samvinnu við Verkmenntaskólann á Akureyri. Með tilrauninni er stigið nýtt skref til að auka fjölbreytni náms á framhaldsskólastigi og stuðla að því, að nemendur dveljist sem lengst hjá foreldrum sínum. Þessi tilraun hefur jafnframt vakið áhuga margra fullorðinna á Grundarfirði á að stunda fjarnám.

Miðstöðvar símenntunar eða fræðslumiðstöðvar hafa sprottið upp í öllum kjördæmum á ótrúlega skömmum tíma eftir að Suðurnesjamenn og Austfirðingar riðu á vaðið. Innan vébanda þeirra taka háskólar, framhaldsskólar, sveitarfélög, fyrirtæki og launþegar höndum saman um að bjóða endurmenntun og símenntun. Alþingi hefur veitt fé til þessarar starfsemi og menntamálaráðuneytið séð um tengslin við þessar nýju miðstöðvar af hálfu ríkisvaldsins. Tel ég afar brýnt, að áfram verði veitt fé úr ríkissjóði til þessara miðstöðva og mun menntamálaráðuneytið móta reglur um nýtingu þess á samningsbundnum grundvelli við hvern aðila fyrir sig í ljósi starfsemi hans.

Á ráðstefnu um þessar miðstöðvar, sem haldin var síðastliðið vor kom fram, að áríðandi væri, að sveitarfélög, fyrirtæki á viðkomandi svæði og launþegasamtök sköpuðu símenntunarmiðstöðvum tekjur með því að láta þær sjá um endurmenntun starfsmanna sinna og styrktu þannig stöðu og rekstrargrundvöll þeirra. Miðstöðvarnar eru umboðsaðilar fyrir menntun, sem fengin er frá öðrum auk þess sem þær sérhanna námskeið fyrir þá sem þess þurfa. Þær veita bæði einstaklingum og fyrirtækjum þjónustu. Námskeiðagjöld og þóknun fyrir hana skapa stöðvunum sértekjur.

Þessar miðstöðvar hafa myndað með sér samtök. Tel ég mikilvægt, að þær komi fram sameiginlega gagnvart menntamálaráðuneytinu þannig að unnt verði að ræða álitamál vegna þessarar nýbreytni í menntamálum þjóðarinnar og komast að sameiginlegri niðurstöðu um úrlausn þeirra. Allir eru að feta sig inn á nýjar brautir að þessu leyti.

Samskipti menntamálaráðuneytisins við einstaka framhaldsskóla hafa tekið stakkaskiptum síðustu misseri. Þar ráða mestu ný framhaldsskólalög og svonefndir skólasamningar, það er samningar ráðuneytisins við skólana um starf þeirra og greiðslur fyrir það úr ríkissjóði innan ramma fjárlaga. Vald skólameistara er mun meira en áður og jafnframt ábyrgð þeirra. Hverjum einstökum skóla er sett markmið með samningnum, kostnaður við námsbrautir er skilgreindur og einnig fjárstreymi vegna annarra þátta í skólastarfinu. Það hefur síður en svo verið auðvelt að skilgreina alla þessa þætti, því að skólastarfið er fjölbreytt. Sérstök fjárveiting frá alþingi hefur verið nýtt samkvæmt reiknilíkaninu að baki skólasamningunum til að bæta stöðu fámennra skóla á landsbyggðinni.

Þegar fjárveitingar til skóla byggjast á fjölda þeirra nemenda, sem þreyta próf í skólanum, getur það fljótt skapað rekstrarvanda, ef baklandið er fámennt. Hætta er á að afföll verði mikil. Krafa um fjölbreytt námsframboð fyrir fámennan hóp nemenda verður oft meiri og harðari, eftir því sem skóli er lengra frá þéttbýliskjörnum, og krafan verður háværari því verr sem skólinn stendur í samkeppni um nemendur. Hætta er á því, að framboð á námi verði fjölbreyttara en samrýmist reiknireglum um fjárveitingar, auk þess sem kröfur um inntak kennslunnar kunna að slakna.

Ég legg áherslu á, að framhaldsskólar alls staðar á landinu starfi samkvæmt almennum, gagnsæjum reglum um fjárstreymi úr ríkissjóði. Vara ég eindregið við því, að byggðasjónarmið víki þessum reglum til hliðar. Sé talið nauðsynlegt vegna þeirra sjónarmiða að leggja meira fé af mörkum en samræmist reglunum, ber að skilgreina slíkt sem byggðastyrki og veita fjármunina úr sjóðum, sem starfa með byggðasjónarmið að leiðarljósi.

Ólíklegt er að ráðist verði í að reisa framhaldsskóla á fleiri stöðum á landinu. Vandinn er frekar að tryggja ýmsum skólum nægan fjölda nemenda til að unnt sé að færa fagleg og fjárhagsleg rök fyrir starfi þeirra. Í haust sóttu of fáir um nám í Skógaskóla til að unnt væri að starfrækja hann. Viðræður fara fram um það milli Verkmenntaskólans á Akureyri og menntamálaráðuneytisins hvernig bregðast eigi við litlum áhuga á að stunda sjávarútvegsnám á Dalvík.

Verkaskipting milli framhaldsskóla er óhjákvæmileg, einkum með tilliti til starfsnáms, ef ætlunin er að aðstaða einhvers staðar sé með þeim hætti, að standist ströngustu kröfur. Við höfum hvorki kennara, nemendur né fjármagn til skiptanna. Framhaldsskólalögin mæla fyrir um það, að starfsgreinaráð geri tillögu til menntamálaráðuneytisins um svonefnda kjarnaskóla í starfsnámi og þar verði lögð áhersla á sem besta aðstöðu.

Undanfarin ár hefur alþingi samþykkt miklar hækkanir á svonefndum dreifbýlisstyrkjum, það er þeim styrkjum, sem veittir eru nemendum til að sækja framhaldsskólanám fjarri heimabyggð. Nemur hækkunin 130% á síðustu þremur árum. Jafnframt hefur réttur manna til að fá þessa styrki verið rýmkaður. Hefur verið lögð áhersla á hækkun styrkjanna af hálfu þeirra, sem vilja auðvelda ungu fólki á landsbyggðinni að menntast. Athugun Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands fyrir menntamálaráðuneytið sýndi einnig, að kostnaður við framhaldsnám fjarri heimabyggð veltur á hundruðum þúsunda króna.

Athyglisvert var, að á fundi, sem ég átti með fulltrúum á alþingi unga fólksins skömmu fyrir kosningar síðastliðið vor, skýrði unga fólkið frá því, að margir nemendur reyndu að öðlast rétt til þessara styrkja með alls kyns brögðum. Er að sjálfsögðu ástæða til að leitast við að koma í veg fyrir slíkt, en freistingin eykst í réttu hlutfalli við hækkun styrkjanna.

Góðir áheyrendur!

Ég hef dregið saman nokkur meginatriði, sem nauðsynlegt er að hafa í huga, þegar rætt er um menntun á landsbyggðinni.

Þeir, sem hafa rannsakað ástæður búseturöskunar á Íslandi, telja að þeirra sé ekki síst að leita í óánægju með aðstæður í mennta- og menningarmálum utan höfuðborgarsvæðisins. Til dæmis hefur komið fram, að í byggðarlögum með 200 til 1000 íbúa sé einkum allmikil óánægja með framhaldsskólamál.

Mörg skref hafa verið stigin til að auka menntun á landsbyggðinni. Nýja upplýsingatæknin gerir það kleift án þess að reisa skólahús og ráða kennara til starfa í þeim.

Úthald lítilla skóla á landsbyggðinni eða rekstrareininga í dreifbýli er eitt erfiðasta verkefni, sem blasir við framhaldsskólunum og menntamálaráðuneytinu, svo að ekki sé minnst á stjórnendur þessara skóla.Verkefnið er erfitt vegna fjárhagslegra ákvarðana og faglegra, eins og áður er lýst.

Þjóðfélagið þarf að gera upp við sig, að hve miklu leyti rekstur fámennra framhaldsskóla í dreifbýli er hluti að byggðastefnu og að hve miklu leyti og á hvaða grundvelli slíkum skólum er ætlað að standast öðrum skólum snúning. Mikilvægt er, að góð sátt takist um faglegt og fjárhagslegt lágmark í þessu efni.

Í lok máls míns vil ég minna á, að á morgun er efnt til dags símenntunar um land allt. Hið mikla undirbúingsstarf, sem hefur verið unnið vegna dagsins, byggist ekki síst á því að skapa tengsl um landið allt. Í tilefni dagsins verða þrjár fræðslumiðstövar stofnaðar það er á Vestfjörðum, í Þingeyjarsýslum og á Suðurlandi. Ný skref eru þar með stigin til að efla menntun á landsbyggðinni með nýjum aðferðum.