19.1.2007

Um vígdreka og síldarflota

Grein í Morgunblaðinu 19. janúar, 2007.

 

„Mikla undrun vekur að það var fyrst eftir að skipin voru búin að vera hér uppi við landsteina í tæpan hálfan mánuð sem íslensk stjórnvöld byrjuðu að leita eftir skýringum hjá Rússum. Þetta mál vekur margar áleitnar spurningar og gefur tilefni til að yfir það verði farið, m.a. vegna mögulegra sambærilegra tilvika í framtíðinni. Ég vil því leyfa mér að beina eftirfarandi spurningum til hæstv. dómsmálaráðherra, yfirmanns Landhelgisgæslunnar, sem til viðbótar gæslu lögsögunnar fer þar með mengunareftirlit:

1. Hvenær varð Landhelgisgæslunni ljóst að meðal hinna rússnesku herskipa væri kjarnorkuknúið skip?

2. Tilkynnti Landhelgisgæslan umhverfisyfirvöldum um málið?

3. Telur dómsmálaráðherra mögulegt að líta svo á að kjarnorkuknúin skip séu tilkynningarskyld innan mengunarlögsögu Íslands, sbr. 12. gr. laga nr. 33/2004?

4. Hverju sætir að svo lengi dróst að hafa samband við rússnesk yfirvöld og óska skýringa á dvöl herskipanna hér?

5. Kom aldrei til álita að beina tilmælum til rússnesku herskipanna um að hverfa frá landinu?

6. Telur dómsmálaráðherra í ljósi reynslunnar af þessu máli þörf á styrkja stöðuna til gæslu og mengunareftirlits innan lögsögunnar með frekari lagaákvæðum?“

 

*

 

„Það þarf ekki nema einn rússneskan ryðkláf, kjarnorkuknúinn, til þess að sökkva á íslensku hafsvæði til þess að við Íslendingar séum komnir í verulega vond mál. Það dugar ekki, herra forseti, að það komi ekki skýrt fram hjá hæstv. dómsmálaráðherra hvort það hafi virkilega verið þannig að Landhelgisgæslan, dómsmálaráðuneytið og utanríkisráðuneytið hafi ekki gert umhverfisstjórnvöldum viðvart um að þarna var á ferðinni kjarnorkuknúið skip sem aðalflotaforinginn ....  hefur lýst sem hættulegu.“

 

*

 

„Málið um Rússaskipin vekur athygli á því að þörf er að huga að málefnum Landhelgisgæslunnar og þeim búnaði sem hún hefur yfir að ráða.“

 

*

 

„Hvers vegna í ósköpunum var rússneski sendiherrann ekki kallaður á fund ríkisstjórnarinnar um leið og menn gerðu sér grein fyrir því hvers konar ófögnuður var kominn að ströndum og hann krafinn skýringa og jafnframt komið á framfæri við hann harðlegum mótmælum gegn því að skipin væru hér og Rússar beðnir um að hypja sig héðan hið fyrsta? Að sjálfsögðu hefði átt að gera það. Hvað eru menn að æfa á heræfingum? Þeir eru að æfa stríð, styrjöld, þeir eru að æfa gagnárásir á önnur herskip, hugsanlega flugvélar, hugsanlega kafbáta. Þeir eru jafnvel að æfa innrás í landið. Það er ekki flóknara en það. Þetta voru Rússar sennilega að æfa meðan þeir lágu hér í hálfan mánuð ef þeir voru ekki að reyna að gera við einhverja af kláfum sínum.“

 

 

*

 

„Utanríkisráðuneytið óskaði hinn 11. og 14. október skýringa á ferðum herskipanna hjá rússneska sendiráðinu. Hinn 15. október ítrekaði íslenska sendiráðið í Moskvu beiðni um skýringar. Þann sama dag barst tilkynning frá rússneska utanríkisráðuneytinu um að æfingunni væri lokið og að skipin væru á förum af svæðinu út af Þistilfirði. Rússnesk stjórnvöld fullyrða að æfingin hafi verið áfallalaus. Rætt hefur verið um kjarnorkuhættu af skipunum. Flugmóðurskipið, hið eina í rússneska flotanum, er ekki kjarnorkuknúið. Á sl. sumri var það í viðgerð og kom úr henni í september. Orrustubeitiskipið Pétur mikli er kjarnorkuknúið og það var einnig í viðgerð á liðnu sumri fram undir lok ágúst. Rússum er samkvæmt alþjóðalögum heimilt að stunda flotaæfingar eins og þessar. Hvorki alþjóðasamningar né hafréttarsáttmáli Sameinuðu þjóðanna bannar slíkar æfingar. Samkvæmt íslenskum lögum um varnir gegn mengun hafs og stranda nær íhlutunarréttur Landhelgisgæslunnar ekki til herskipa.“

 

*

 

Tilvitnanir hér að ofan eru úr þingræðum. Af þeim verður ályktað, að þingmenn hafi nokkrar áhyggjur af návist rússnesks flota við landið. Við lesturinn hverfur hugur flestra líklega til tíma kalda stríðsins og þeirra viðhorfa, að Rússarnir séu að koma, sem sumir telja nú næsta skondin, eins til dæmis mátti sjá í grein Guðna Th. Jóhannessonar sagnfræðings í Morgunblaðinu 16. janúar 2007.

 

Umræðurnar voru utan dagskrár á alþingi hinn 18. október 2004. Fyrsta tilvitnun er í ræðu upphafsmanns þeirra Steingríms J. Sigfússonar, formanns vinstri/grænna, næst talar Össur Skarphéðinsson, þáverandi formaður Samfylkingarinnar, þá Jónína Bjartmarz, núv. umhverfisráðherra, svo Magnús Þór Hafsteinsson, þingflokksformaður frjálslyndra, og loks er vitnað í ræðu mína sem dóms- og kirkjumálaráðherra. Undir lok umræðunnar komst ég svo að orði:

 

„Við Íslendingar höfum engan tækjabúnað til að fylgjast með ferðum kafbáta og verðum þar að treysta á bandamenn okkar og Bandaríkjamenn. Þannig að við erum ekki í stakk búnir til þess að fylgjast með kafbátum og höfum aldrei verið. Ef menn eru að tala um að fara út í slíkar aðgerðir, þá er verið að tala um miklu meiri hervæðingu hér en meira að segja ég hef orðað nokkru sinni í þessum sal eða annars staðar. Ég veit ekki til þess að menn hafi verið að tala á þann veg, nema það beri að skilja orð þingmanns Frjálslyndra sem hér hefur talað á þann veg að hann vilji að við komum okkur upp slíkum búnaði. Þá er það algjört nýmæli í þessum umræðum.“

 

Ég ætla ekki að geta mér til um, hvaða ályktanir sagnfræðingar kunna að draga af þessum umræðum árið 2060 eða hvaða gögn þeir muni leggja til grundvallar við mat sitt. Hitt veit ég, að afstaða þeirra mun mótast sterklega af þeirra eigin reynslu og viðhorfum og af stöðu Íslands í ljósi heimsmála á þeim tíma. Kannski þykir þá alls ekki skondið að óttast ferðir rússneskra skipa í nágrenni Íslands. Frekar en árið 2004 eða árið 1950.

 

*

 

Tilefni greinar Guðna Th. Jóhannessonar er þríþætt: grein mín í Morgunblaðinu 6. janúar 2007, fyrirsögn blaðsins á baksíðufrétt, sem vísar á grein mína, og hugleiðing höfundar Staksteina vegna greinar minnar. Ég svara hvorki fyrir Staksteinahöfundinn né fyrirsagnarsmiðinn.

 

Guðni Th. segir mig hafa mistúlkað orð hans um afstöðu breskra og bandarískra hernaðarsérfræðinga árið 1950 um hættuna af flota sovéskra síldarskipa í nágrenni Íslands.

 

Í grein sinni ver Guðni Th. mestu rými til að sýna fram á, að íslenskir stjórnmálamenn með Bjarna Benediktsson utanríkisráðherra í broddi fylkingar hafi haft áhyggjur af sovésku skipunum og þær hafi mótast af  Kóreustríðinu sumarið 1950. Ég geri ekki ágreining við neinn um þennan ótta. Í greininni 6. janúar sagði ég hins vegar fráleitt, að sovéski síldarflotinn hefði verið ástæðan fyrir því, að ákveðið hefði verið að efla öryggisþjónustu lögreglunnar í Reykjavík, eins og Jón Ólafsson gagnrýnandi Morgunblaðsins taldi. Ótti við fimmtu herdeild kommúnista á Íslandi og undirróður þeirra réð ákvörðunum íslenskra stjórnvalda um að efla lögregluna.

 

*

 

Ég vitnaði í skjöl, sem sagnfræðingarnir dr. Þór Whitehead og dr. Valur Ingimundarson  hafa skoðað. Þeir hafa vitnað til þeirra í ritum sínum sem fullgildra skjala.

 

Af  grein Guðna Th. ræð ég, að honum þyki lítið til þess skjals koma, þar sem haft er eftir Omar Bradley, hershöfðingja í Bandaríkjaher, á fundi með íslenskri sendinefnd: „Við vissum af þessum flota [sovéskra síldarskipa], þegar þið sögðuð okkur frá honum, og tókum ákvörðun um að senda þessi skip [herskip] þangað [til Íslandsstranda] þessar ferðir.“ Og enn minna finnst Guðna um þá ályktun mína, — og segir hana beinlínis ranga, — að af þessum orðum hershöfðingjans megi ráða, að Bandaríkjastjórn hafi tekið sjálfstæða ákvörðun án hvatningar íslenskra stjórnvalda um að senda herskip sín af stað.

 

Hafi það verið ímyndunarveiki íslenskra stjórnvalda að óska eftir návist bandarískra herskipa vegna sovéska síldarflotans, hefur bandaríska herstjórnin líklega ver enn verr haldin af sömu veiki, þegar hún ákvað að senda fjögur herskip á vettvang. Hún naut þó ráðgjafar hernaðarsérfræðinga, sem Guðni fullyrðir, að hafi verið andvígir því, að herskipin færu til Íslandsmiða.

 

Raunar gefur Guðni Th. til kynna, að Omar Bradley hafi verið eitthvað miður sín á fundinum með Íslendingunum. Guðni segir:  „Hershöfðinginn Bradley segir ekkert  um það að hvatningu íslenskra íslenskra stjórnvalda hafi ekki þurft til enda vissi hann án efa of lítið um málið, með hugann allan við stríðið í Kóreu og stærri viðfangsefni en ferðir fjögurra tundurspilla.“ (Leturbreyting mín.) Sagnfræðingurinn hefur engin gögn til stuðnings þessari getgátu um hugarástand hershöfðingjans á fundinum. Þá má spyrja: Hefur sagnfræðingurinn reynslu af þátttöku í fundum af þessu tagi?

 

Hinn 11. október 2006 var ég á fundi í Pentagon ásamt íslenskri sendinefnd undir formennsku  Geirs H. Haarde forsætisráðherra. Donald Rumsfeld varnarmálaráðherra og yfirmenn bandaríska hersins voru viðmælendur okkar.  Við vorum ekki að ræða nauðsyn þess, að bandarískt varnarlið yrði á Íslandi eins og Omar Bradley árið 1950, heldur ræddum við brottför þessa liðs. Hugur Bandaríkjamannanna hefur örugglega verið við stríðið í Írak. Engu að síður voru þeir vel að sér um tvíhliða málefni Bandaríkjanna og Íslands. Það vakti sérstaka athygli mína, hve nákvæma vitneskju þeir höfðu um ferð bandaríska herskipsins Wasp, sem þá var á leið til Íslands samkvæmt einhliða ákvörðun bandarísku herstjórnarinnar.

 

*

 

Guðna Th. nægir ekki að segja Omar Bradley annars hugar eða jafnvel úti á þekju á fundinum með íslensku sendinefndinni. Hann dregur einnig gildi skjalsins, sem ég nota til að andmæla skoðun hans, í efa með því að telja sig styðjast við „margar ótvíræðar heimildir úr mörgum traustum skjalasöfnum“ – en ég styðst aðeins við eina heimild og líklega er skjalasafn mitt ekki „traust“. Oft segir ein heimild meira en margar, um það þarf ekki að deila. Þá hafa þeir tveir sagnfræðingar sem sérfróðastir eru um samskipti Íslands og Bandaríkjanna og Íslands og NATO vitnað í sama skjal og ég geri og telja það því fullgilda heimild.

 

Guðni Th. segir fleiri heimildir um fundinn í Pentagon 19. september 1950 en skjalið í minni vörslu. Hann segir: „Í skjalasafni NATO má til dæmis finna átta blaðsíðna frásögn af fundinum. Þar kemur fram að umræður um sovéska síldarflotann vöknuðu í blálokin, nánast í framhjáhlaupi, og fyrir tilstilli Bjarna Benediktssonar. Aftur kemur ekkert fram um frumkvæði Bandaríkjamanna en haft er eftir Omar Bradley að skortur á hafnaraðstöðu og skuldbindingar annars staðar kæmu í veg fyrir að hægt yrði að verða við þeirri ósk Bjarna að NATO-herskip væru að staðaldri á Íslandsmiðum. Hins vegar gæti íslenski ráðherrann verið viss um að Bandaríkjastjórn hefði þessi mál mjög í huga og reyndar hefðu þau ráðið miklu um það miklu um að til fundarins hefði verið boðað.“

 

Áður en meira er um þetta skjal sagt er ástæða til að spyrja: Sýna orð Bradleys um að „Bandaríkjastjórn hefði þessi mál mjög í huga“ ekki að ályktun Guðna um þekkingarleysi hershöfðingjans stenst ekki?

 

Um þessi orð í átta blaðsíðna frásögn í skjalasafni NATO segir Guðni Th.: „Þessi orð – nánast eins og kurteisislegt spjall – vega lítt gagnvart öllum hinum heimildunum um atburðarásina og frumkvæði íslenskra ráðamanna.“ Enn skal áréttað, að enginn dregur áhyggjur íslenskra ráðamanna í efa og áhuga þeirra á viðbrögðum með skipum, sem Íslendingar áttu hvorki né stjórnuðu, en voru þó send á vettvang af herstjórn Bandaríkjanna. Hitt er athyglisvert kurteisistal, að einn af æðstu yfirmönnum Bandaríkjahers segir við utanríkisráðherra Íslands, að Bandaríkjamönnum sé hættan af sovéska flotanum „mjög í huga“ og þess vegna hafi herforingjanefnd NATO óskað eftir þessum fundi til að ræða dvöl bandarísks varnarliðs á Íslandi.

 

Í skjalinu, sem ég vísaði til, eru þessi orð Bradleys í þessum búningi: „Návist þessa flota er eitt af því, sem hefur fengið okkur svo mikillar áhyggju, að við höfum beðið ykkur [íslensku sendinefndina] að ræða þetta [komu varnarliðs til Íslands] og hugsa það.“

 

Ég hef áratuga reynslu af umgengni við frásagnir af fundum með erlendum mönnum um öryggismál og önnur mál. Ég hef skrifað fjölmargar slíkar frásagnir sjálfur og eins fundargerðir af fjölmennum fundum með þátttöku annnara. Ég þarf ekki leiðbeiningar frá öðrum um form eða gildi slíkra gagna. Ég hef undir höndum orðrétta frásögn á íslensku af þessum fundi 19. september 1950. Það er alls 19 blaðsíður, og er því  nákvæmari heimild um það, sem þarna gerðist en hin stutta útgáfa í skjalasafni NATO. Skjalið hefur verið skrifað af Íslendingi á fundinum og væntanlega lagt fram í ríkisstjórn eða annars staðar, þar sem íslenskir stjórnmálamenn ræddu í sinn hóp, hvernig brugðist skyldi við þessum tilmælum frá herforingjanefnd NATO.

 

Af hinu lengra, íslenska skjali sést, að umræðurnar um sovéska síldarflotann og bandarísku tundurspillana verða í framhaldi af því, að rætt er um, hvernig fara skuli með íslensk skip, ef til ófriðar kæmi og hvaðan ætti að flytja vistir til landsins. Er sovéski flotinn og viðbrögð við honum innskot í þær umræður, enda var hann ekkert aðalatriði á þessum fundi, heldur viðbúnaður á vegum NATO og Bandaríkjanna í þágu varna Íslands. Þess vegna skipti miklu, að Omar Bradley segir, að Bandaríkjamenn hafi tekið ákvörðun um að senda tundurspillana á vettvang. Hann er að lýsa áhuga og einörðum vilja Bandaríkjamanna til að láta að sér kveða, um leið og hann segir þá skorta aðstöðu í landi til langrar veru við Ísland.

 

Í grein sinni segir Guðni Th. Jóhannesson hins vegar: „Íslenskir og aðrir vestrænir ráðamenn urðu því sammála um hina almennu ógn en þá greindi á um hið sérstaka sumarið 1950; sovéskan síldarflota á miðunum undan Norðurlandi. Mismunandi áherslur af því tagi voru ekkert einsdæmi og manni kemur í hug að Omar Bradley sinnaðist við Douglas MacArthur hershöfðingja sem vildi hefja hernað í Kína út af Kóreustyrjöldinni. Bradley lét þá hin frægu orð falla að  slík aðgerð hefði þýtt rangt stríð á röngum stað, röngum tíma og gegn röngum andstæðingi.“

 

Hér færist skörin upp í bekkinn. Það var alls enginn ágreiningur milli íslenskra og annarra vestrænna ráðamanna um að sovéski síldarflotinn kynni að vera hættulegur. För bandarísku tundurspillanna á Íslandsmið er besta sönnun þess, hvað sem öllum skjölum og túlkunum á þeim líður. Hitt er til íhugunar, hvort Guðni sé að gefa til kynna með líkingu sinni, að Omar Bradley hafi komið í veg fyrir, að ráðist yrði á sovéska síldaflotann og tilmæli íslenskra stjórnvalda hafi í raun snúist um það. Íslensk stjórnvöld hafi staðið í sporum MacArthurs, sem vildi ráðast inn í Kína.

 

*

 

Að æðsta herstjórn Bandaríkjanna hafi tekið ákvörðun að eigin frumkvæði um för fjögurra tundurspilla til Íslands sumarið 1950 er jafnlíklegt eftir grein Guðna Th. Jóhannessonar og áður en hún birtist. Hann hnekkir ekki rökstuddri skoðun minni, þótt hann tíundi áhyggjur íslenskra ráðamanna, sem hafa verið öllum ljósar í 57 ár.  Bandaríkjastjórn ákvað auðvitað ein og óstudd að senda herskip sín á Íslandsmið. Hún vissi á hinn bóginn, að íslensk stjórnvöld tækju þeim ekki illa. Um hættuna af Sovétríkjunum og umsvifum þeirra í nágrenni Íslands var enginn ágreiningur milli íslenskra stjórnvalda og ríkisstjórna við Norður-Atlantshaf sumarið 1950.

 

Í upphafi greinarinnar vitnaði ég til orða, sem féllu á alþingi Íslendinga 18. október 2004, 13 árum eftir að Sovétríkin urðu að engu. Vegna þeirra sögulegu umskipta lýstu þingmenn úr öllum flokkum ótta við rússneska flotann og kröfðust aðgerða gegn honum – aðgerða, sem ég taldi þá óþarfar. Sagan er oft skrýtnari en skáldskapur, hvað svo sem sagnfræðingar og skjöl segja.