5.1.1999

Tónlistarhús ákvörðun kynnt

Tónlistarhús og ráðstefnumiðstöð í Reykjavík
5. janúar 1999.

Í morgun samþykkti ríkisstjórnin eftirfarandi tillögu mína:

Menntamálaráðuneyti og samgönguráðuneyti verði heimilað að leita samninga við Reykjavíkurborg um að ríki og borg beiti sér fyrir byggingu tónlistarhúss og ráðstefnumiðstöðvar á grundvelli greinargerðar, er fylgir minnisblaði þessu [þar er vísað til álitsgerðar, sem unnin er af VSÓ-ráðgjöf undir forystu stýrihóps]. Húsið verði reist í miðborginni en nánari staðsetning og afmörkun lóðar verði ákveðin síðar.

Skipuð verði nefnd með fulltrúum menntamálaráðuneytis, samgönguráðuneytis, fjármálaráðuneytis og Reykjavíkurborgar til að vinna að samkomulagi um fjármögnun, framkvæmdatilhögun og kostnaðarskiptingu og að leita samstarfsaðila um verkefnið.

Með þessari samþykkt ríkisstjórnarinnar næst mikilvægur áfangi á langri leið. Ríkisstjórnin hefur staðfest vilja sinn til þess að standa að því að reisa tónlistarhús og ráðstefnumiðstöð í miðborg Reykjavíkur í samvinnu við Reykjavíkurborg.

Þegar ég tók við störfum menntamálaráðherra fyrir tæpum fjórum árum lýsti ég yfir því, að nota ætti þetta kjörtímabil til þess að taka um það ákvörðun á vettvangi ríkisstjórnar, hvort ríkisvaldið kæmi að því að reisa tónlistarhús. Fram til þess tíma, hafði ríkisstjórnin ekki átt aðild að viðræðum um þetta langþráða hús. Ákvörðunin liggur nú fyrir í þeirri samþykkt, sem ég las. Ríkisstjórnin hefur lýst vilja sínum til að eiga aðild að því, að hér rísi tónlistarhús og ráðstefnumiðstöð.

Undirbúningurinn hefur verið tvíþættur.

Fyrri áfanginn fólst í því, að nefnd undir formennsku Stefáns P. Eggertssonar verkfræðings greindi þörfina fyrir tónlistarhús. Varð nefndin einhuga um þá tillögu, að reist yrði hús, sem yrði heimili Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Tveir salir ættu að vera í húsinu, annar fyrir 1200 til 1300 manns og hinn fyrir 300 til 400 manns.

Þörfin fyrir tónlistarhús af þessari stærð er óvítræð. Nálægt 30 þúsund manns iðka tónlist í landinu. Um þrennir tónleikar á dag, alla daga ársins, eru boðnir á höfuðborgarsvæðinu. Þar sækja um 200 þúsund manns tónleika ár hvert. Talið er, að árlega sé velta íslenskrar tónlistarstafsemi í heild ekki undir 5 milljöðrum króna.

Sinfóníuhljómsveit Íslands hefur aldrei verið boðin viðunandi starfsaðstaða. Hún hefur starfað án eigin heimilis í nær hálfa öld. Hljómsveitin er bakhjarl íslensks tónlistarlífs. Með því að bæta aðbúnað hljómsveitarinnar er því jafnframt verið treysta almennt forsendur alls tónlitarstarfs í landinu.

Síðari áfangi undirbúnings málsins á vegum menntamálaráðuneytisins fólst í því, að sérstakur stýrihópur með fulltrúum ráðuneytisins, Reykjavíkurborgar og Hótel Sögu vann nýtingar- og hagkvæmnismat á tillögum nefndarinnar um þrjár hugmyndir að tónlistarhúsi, það er hvort reisa ætti húsið í Laugardal í Reykjavík, hvort semja ætti við eigendur Hótel Sögu um að tónlistarhús yrði tengt fyrirhugaðri ráðstefnumiðstöð hótelsins og loks hvort tónlistarhús yrði neðanjarðar í tengslum við Perluna í Öskjuhlíð.

Niðurstaða þeirrar vinnu liggur nú fyrir í þeirri tillögu, sem ríkisstjórnin samþykkti í morgun. Eins og hún ber með sér varð enginn þeirra þriggja kosta fyrir valinu, sem ég nefndi. Nú hefur verið ákveðið að marka tónlistarhúsi, ráðstefnumiðstöð og nýju hóteli stað í miðborg Reykjavíkur.

Í síðari áfanganum tókst gott samkomulag um að reisa bæði tónlistarhús og ráðstefnumiðstöð en sérstök nefnd á vegum samgönguráðherra vann að tillögum um hana.

Í samþykkt ríkisstjórnarinnar er vísað til greinargerðar frá VSÓ ráðgjöf um tónlistarhús og ráðstefnumiðstöð. Þeir, sem lesa hana átta sig fljótt á því, að þar er fjallað um mikið mannvirki. Kostnaður við þann hluta, sem lýtur að tónlistarhúsinu og ráðstefnumiðstöðinni er talinn geta numið frá 3,5 að 4 milljörðum króna eftir því, hve dýrt er að búa lóð undir framkvæmdina.

Af minni hálfu hefur verið lögð rík áhersla á, að hvergi yrði gengið á hlut Sinfóníuhljómsveitar Íslands og tónlistarmanna við það, að reisa sameiginleg mannvirki af þessu tagi. Greinargerð VSÓ-ráðgjafar tekur mið af kröfum mikilsmetinna sérfræðinga um hljómburð, Artec-ráðgjafafyrirtækisins í New York. Er mér enginn launung á því, að við val á þeim sérfræðingum fór ég að ráði Vladimirs Ashkenazys, píanóleikara, sem um langt árabil hefur hvatt mjög til þess, að hér rísi tónlistarhús. Er hann sá maður, sem ég þekki og hefur mesta reynslu af því að leika í bestu tónlistarsölum heims.

Skömmu eftir að Hannes Hafstein tók við störfum sem fyrsti íslenski ráðherrann fyrir 95 árum, var ráðist í að reisa Safnahúsið við Hverfisgötu við lítil efni en af miklum stórhug á undraskömmum tíma. Hefur sú fagra bygging síðan verið til marks um dugnað, framtakssemi og bjartsýni við upphaf nýrrar aldar í íslensku þjóðlífi. Án hennar væri Ísland svipminna.

Íslendingum hefur vegnað einstaklega vel á þeirri öld, sem brátt er að kveðja. Við höfum miklu meiri burði en nokkru sinni fyrr til að búa vel að menningu okkar og listum. Látum þau mannvirki, sem hér er tekin ákvörðun um að rísi í miðborg Reykjavíkur, verða til marks um eindreginn vilja okkar til að sækja fram á nýrri öld af dugnaði og bjartsýni. Þar skiptir menntun og menning sköpum, ef við viljum ná góðum árangri. Þess vegna á átak ríkisvaldsins í þágu menningarmannvirkja ekki að vera bundið við höfuðborgarsvæðið eitt. Ríkisstjórnin mun á næstunni kynna nýjar tillögur sínar um menningarmannvirki á landsbyggðinni.