17.2.2018 13:23

Vítahringur smálánanna

Sumum dytti í hug að kalla þetta vítahring. Allt traust er lagt á aðgerðir opinberra aðila.

Umboðsmaður skuldara hefur greint frá því að hlutfall smálána af heildarkröfum þeirra, sem leita í aðlögun á greiðslum til hans, hafi farið vaxandi. Er nú svo komið að hlutur þeirra er orðinn stærri en hlutur húsnæðislána hjá þeim, sem lenda í slíkum kröggum að þurfa að leita á náðir umboðsmannsins.

Eftir að þessi opinberi aðili greindi frá þessari breytingu á hópnum sem til hans leitar hafa orðið miklar umræður um nauðsyn þess að opinberir aðilar geri eitthvað til að breyta þessari þróun – taki fram fyrir hendur á þeim sem taka sér lán af þessu tagi. Athygli beinist að því að ekki þarf opinbert leyfi til að stunda lánastarfsemi undir merkjum smálána. Ráðherra málaflokksins hefur greint frá því að hér gildi strangari reglur um starfsemi lánafyrirtækja af þessu tagi en annars staðar á EES-svæðinu.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra neytendamála, segir í  Morgunblaðinu í dag (17. febrúar): „Við erum nú þegar með ströng sérlög um þessi lán. Við höfum sett stífari reglur um hámark á vöxtum og kostnaði en krafist er af Evrópusambandinu. Þær reglur voru beinlínis settar vegna starfsemi smálánafyrirtækja. Ef markmið laganna nær hins vegar ekki fram að ganga um tilgang og viðurlögin hafa ekki tilætluð áhrif er rétt að endurskoða það.“

Neytendasamtökin gera kröfu um að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið endurskoði starfshætti smálánafyrirtækja og tryggi að þau starfi lögum samkvæmt. Samtökin telja að þau úrræði sem stjórnvöld hafi til að koma í veg fyrir ólöglega lánastarfsemi dugi skammt.

Þetta er gamalkunnugt ferli: Opinber aðili bendir á að vandræði skuldara stafi af öðrum ástæðum en áður. Neytendasamtökin kasta vandanum í fangið á öðrum opinberum aðila. Krafist er aukins eftirlits og nýrra laga til að útiloka að þeim sem dettur í hug að skipta við fyrirtæki af þessum toga geti það ekki. Jafnframt er athygli beint að því að kennsla í fjármálalæsi sé ekki næg.

Sumum dytti í hug að kalla þetta vítahring. Allt traust er lagt á aðgerðir opinberra aðila. Enginn snýr sér með viðvörunum til þeirra sem eiga á hættu að festast í þessu skuldafeni eða sitja þar fastir.

Er það eðli smálánafyrirtækjanna sem veldur auknum viðskiptum við þau? Er það óvarkárni lántakenda sem þarna ræður?

Íslenska ríkið er stóreigandi banka. Hefur orðið breyting á starfsemi þeirra sem ræður auknum viðskiptum við smálánafyrirtæki? Hvert leita viðskiptavinirnir verði félögunum lokað?

Hröð breyting er í íhaldssömum bankaheimi. Stórhöfðingjar bankakerfisins óttast að völd þeirra skerðist með tilkomu fjármálatæknifyrirtækja. Tilkomu þessara fyrirtækja má rekja til UT-fyrirtækja og nýrra krafna um persónuvernd sem losa um völd og áhrif gamalgróinna fyrirtækja.