25.9.2017 10:09

Viðvörunarbjöllur hringja

Viðvörunarorð af þessu tagi eiga erindi til okkar núna þegar enn á ný er tekist á fyrir kosningar og enn á ný eru hafðar uppi ásakanir um að ráðamenn fari fram á þann veg að óviðunandi sé.

Timothy Snyder höfundur bókarinnar On Tyranny: Twenty Lessons from the Twentieth Century var hér á bókmenntaháíð fyrir skömmu. Eitt ráða hans til að verjast ofríki og harðræði er að grafa ekki undan stofnunum samfélagsins og þar með lögmæltum samskiptaleiðum.

Viðvörunarorð af þessu tagi eiga erindi til okkar núna þegar enn á ný er tekist á fyrir kosningar og enn á ný eru hafðar uppi ásakanir um að ráðamenn fari fram á þann veg að óviðunandi sé.

Í grein í Fréttablaðinu mánudaginn 25. september segir Guðmundur Andri Thorsson: „hann Sjálfstæðisflokkurinn] er flokkur kerfisins, flokkur stjórnsýslunnar – já stjórnfestu – ráðstjórnarflokkurinn, flokkur þeirra sem læra lögin og túlka þau“. Að þetta skuli ámælisvert fellur að skoðun Bjartar Ólafsdóttur, fráfarandi umhverfisráðherra Bjartrar framtíðar, sem sagði í Fréttablaðinu föstudaginn 22. september: „ Siðferði og samskiptareglur manna á milli í trúnaðarstörfum fyrir heila þjóð snúast ekki um lögfræði eða þær reglur sem þar er að finna um trúnað.“

Þetta er einnig þráðurinn í ritstjórnargrein Þórðar Snæs Júlíussonar, ritstjóra Kjarnans, sunnudaginn 24. september.  Ritstjórinn sakar þá sem lýst hafa atburðunum frá öðrum sjónarhóli en honum þóknast sem blekkingarsmiðum og ósannindamönnum.

Tilgangurinn sé að „fá viðföng“ eins og hann orðar það til að „efast um eigin dómgreind“ með því að „búa til nýjan veruleika“.

Þórður Snær reiðist því að vitnað sé í lög þegar svarað er ásökunum í garð Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra fyrir að ræða við Bjarna Benediktsson forsætisráðherra. Enginn hefur gert það á skilmerkilegri hátt en Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður alþingis, fyrir þingnefnd sem kallaði hann til fundar við sig.

Þórður Snær hellir úr skálum reiði sinnar yfir Vilhjálm Árnason, þingmann Sjálfstæðisflokksins, fyrir að kynna sér rökstuðning úrskurðarnefndar um upplýsingamál um birtingu gagnanna um uppreist æru. Vilhjálmur skoðaði dagsetningar í málinu. Þær eru þessar:

Fréttastofan kærir ráðuneytið fyrir úrskurðarnefndinni 26, júní 2017, kæran er kynnt dómsmálaráðuneytinu 3. júlí, ráðuneytið bregst við með umsögn 13. júlí 2017, umsögnin er send fréttastofunni 14. júlí 2017, fréttastofan svarar 22. ágúst 2017, úrskurðarnefndin kynnir niðurstöðu sína 11. september 2017.

Fréttastofan tók sér sex vikur til að veita umsögn um afstöðu ráðuneytisins. Telur Þórður Snær það „súrrealískasta viðbragðið“ að benda á þetta „vegna þess að það [ríkisútvarpið] vandaði sig  við að svara umsögn dómsmálaráðuneytisins“.

Þetta er ekki sannfærandi skýring hjá ritstjóranum. Rök ráðuneytisins fyrir að ekki skuli birta gögnin eru ekki veigamikil enda vildi það að málinu yrði beint til úrskurðarnefndarinnar, ekki til að viðhalda leynd heldur til að vita hvað mætti birta. Fráleitt er að vegna málatilbúnaðarins hafi fréttastofan þurft sex vikur til að taka rök sín saman. Um það geta menn sannfærst með því að lesa úrskurðinn á netinu.

Sá málstaður er ekki góður sem sækir styrk sinn í rök um að stjórnvöld eigi ekki að fara að lögum eða stíga varlega til jarðar þegar einkamál manna eiga í hlut. Málflutningur af því tagi er varða á leiðinni til harðstjórnar ef tekið er mið af viðvörunum Timothys Snyders.