20.10.2017 12:04

Viðskiptablaðamenn vara við vinstri vítunum

Viðskiptablaðamennirnir Hörður Ægisson á Markaði Fréttablaðsins og Helgi Vífill Júlíusson á ViðskiptaMogganum benda á hætturnar sem felast í útgjalda- og skattahugmyndum vinstri grænna og Samfylkingarinnar.

Viðskiptablaðamennirnir Hörður Ægisson á Markaði Fréttablaðsins og Helgi Vífill Júlíusson á ViðskiptaMogganum benda á hætturnar sem felast í útgjalda- og skattahugmyndum vinstri grænna og Samfylkingarinnar. Hvernig sem á málið er litið leiðir framkvæmd þessara hugmynda til vandræða fyrir þjóðarbúið.

Hér verður vitnað í greinar þeirra.

Hörður Ægisson skrifar leiðara Fréttablaðsins í dag (föstudaginn 20. október) og segir:

„Fyrir liggur að tveir stjórnmálaflokkar – Vinstri grænir og Samfylkingin – hafa lagt til að útgjöld ríkissjóðs aukist árlega um 50 til 75 milljarða á árunum 2018 til 2022. Öllum má vera ljóst að útgjaldaaukning af slíkri stærðargráðu, sem nemur um öllum greiddum tekjuskatti fyrirtækja á þessu ári, verður ekki fjármögnuð nema með umtalsverðum skattahækkunum. Þetta á ekki að þarfnast útskýringa. [...]

Hversu miklu gæti upptaka hátekju- og auðlegðarskatta skilað? Í greiningu sem birtist í Markaðnum í vikunni var sýnt fram á að 48 til 76 prósenta hátekjuskattur á þá sem hafa meira en 25 milljónir í árslaun myndi auka skatttekjur ríkisins um 159 milljónir til 2,7 milljarða á ársgrundvelli. Þá gæti auðlegðarskattur sem lagður yrði á hreina eign að virði 150 milljónir skilað 5,1 milljarði upp í allt að 10,2 milljarða, eftir því við hvaða skatthlutfall er miðað. Þessar tölur eru hins vegar án efa mikið ofmat. Fólk og fyrirtæki bregðast við skattahækkunum með því, svo dæmi sé tekið, að draga úr vinnuframlagi og fjárfestingum. Þá er raunveruleikinn sá, núna þegar fjármagnshöft hafa verið afnumin, að fjárfestar geta fært eignir sínar úr landi, kjósi þeir svo. Ísland er ekki lengur eyland.[...]

Staðreyndin er sú að tillögur um að stórauka útgjöld ríkissjóðs um tugi milljarða á hverju ári, án þess að ráðast í skattahækkanir á millitekjufólk, standast enga skoðun. Tekjujöfnuður er hvergi meiri meðal þróaðri ríkja en á Íslandi sem er einmitt ástæða þess að jafnvel mjög hár hátekjuskattur myndi skila afar litlum viðbótartekjum í ríkissjóð. Um þetta er óþarfi að deila. Kjósendur eru ekki fífl og þeir munu sjá í gegnum þann blekkingarleik sem sumir stjórnmálaflokkar hafa kosið að bjóða upp á.“


Að heyra Katrínu Jakobsdóttur, formann vinstri grænna, gera lítið úr gagnrýni á ofurskattahugmyndir flokksins með því að vitna í Indriða H. Þorláksson sér til halds og trausts vekur aðeins minningar um Icesave-samningana þar sem Indriði H. var aðalráðgjafi vinstri grænna með alkunnum hörmulegum afleiðingum.

Í ViðskiptaMogganum fimmtudaginn 19. október setti Helgi Vífill Júlíusson blaðamaður fram þessa skoðun:

„Raunar boða sumir stjórnmálaflokkar mun meiri aukningu ríkisútgjalda en nemur fyrirhuguðum afgangi [44 milljarðar kr. í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2018]. Þeir vilja auka ríkisútgjöld árlega um 50 til 75 milljarða króna setjist þeir í ríkisstjórn. Í aðdraganda kosninga hafa vinstri flokkarnir ekki upplýst með trúverðugum hætti hvernig eigi að fjármagna aukin ríkisútgjöld.

Það liggur í augum uppi að það þurfi að hækka skatta til að standa undir auknum útgjöldum. Á sama tíma og farið er að hægja á hagkerfinu sem leiðir til þess að ríkið  mun afla minni skatttekna þegar fram í sækir. Það kallar eflaust á frekari skattahækkanir til að ríkið geti haldið áfram á sömu braut. Þær hækkanir munu hafa í för með sér að hægist enn frekar á atvinnulífinu.“

Af þessum hugleiðingum sérhæfðra blaðamanna sem fylgjast með hræringum í fjármálaheiminum, efnahags- og atvinnulífinu má sjá hvað kjósendur kalla yfir sig styðji þeir útgjalda- og skattaflokkana í kosningunum 28. október. Varast ber vinstri vítin.