12.4.2018 10:57

Viðreisn tryggi Degi B. áfram meirihluta

Niðurstöðurnar sýna að íbúar í Reykjavík eru óánægðari en íbúar hinna sveitarfélaganna 18 með þjónustu leikskóla og grunnskóla, þjónustu við fatlaða og eldri borgara.

Gallup gerði svokallaða þjónustukönnun í 19 stærstu sveitarfélögum landsins í fyrra. Þar var spurt um viðhorf til þjónustu sveitarfélagsins á nokkrum sviðum. Niðurstöðurnar hafa ekki verið birtar opinberlega, en sveitarfélög geta keypt niðurstöðurnar af Gallup. Fréttastofa ríkisútvarpsins hefur hluta af niðurstöðum undir höndum og hefur birt fréttir um þær.

Niðurstöðurnar sýna að íbúar í Reykjavík eru óánægðari en íbúar hinna sveitarfélaganna 18 með þjónustu leikskóla og grunnskóla, þjónustu við fatlaða og eldri borgara.

Ráðhúsið í Reykjavík - af reykjavik.is

Á sínum tíma ákváðu Dagur B. og félagar að fara leynt með allar kannanir af þessu tagi eftir að þær sýndu stöðugt vaxandi óánægju borgarbúa með þjónustu borgaryfirvalda. Ekki er unnt að komast neðar í þessari könnun en á botninn og þar dúsir núverandi meirihluti núna. Þrátt fyrir þessa útreið Reykjavíkurborgar undir forystu Dags B. spáir stjórnmálafræðingurinn Eiríkur Bergmann Einarsson að eftir kosningar hefji Viðreisn meirihlutasamstarf við Dag B. í Reykjavík.  Rætt var við Eirík á útvarpsstöð Árvakurs K100, nýlegri útvarpsstöð sem rær þó á sömu gömlu miðin og ríkisútvarpið í leit að álitsgjöfum. Á mbl.is má lesa í dag (12. apríl):

„Hann  [Eiríkur Bergmann] segir að líkast til verði Viðreisn í lykilstöðu þegar kemur að því að mynda meirihluta og eins og staðan er núna er flokkurinn líklegri til að vilja vinna með gamla meirihlutanum en Sjálfstæðisflokknum. „Það má skipta þessu í tvær blokkir. Núverandi meirihluti, með eða án Viðreisnar, og svo Sjálfstæðisflokkurinn. Viðreisn hefur í borgarmálum talað á svipuðum nótum og meirihlutinn. Kannski má skipta Bjartri framtíð út fyrir Viðreisn, sem er í algjörri oddastöðu og ræður því hvort borgarstjórinn heitir Dagur B. Eggertsson eða Eyþór Arnalds,“ segir Eiríkur.“

Á alþingi er Viðreisn með fæst atkvæði að baki sér. Fylgi flokksins er nær eingöngu á höfuðborgarsvæðinu. Að þessu leyti er rétt hjá Eiríki Bergmann að flokknum svipar til Bjartrar framtíðar og ætlar hann sér líklega að koma í hennar stað sem stuðningsflokkur Dags B. Oddviti flokksins á borgarstjórnarlistanum hafði ekkert til málanna að leggja í fyrsta sjónvarpsviðtali sínu. Að þessu leyti minnir flokkurinn einnig á Bjarta framtíð.

Dagur B. var í gær reiður í garð Fréttablaðsins og sakaði það (a la Trump) um að flytja falskar fréttir um stuðning almennings við sig. Þá sagði hann einnig að „Morgunblaðsarmur“ Sjálfstæðisflokksins (hvað sem það er) ynni gegn sér í borginni. Ef til vill ákváðu menn í Hádegismóum að bera klæði á vopnin með því að bjóða Eiríki Bergmann á K100 í morgun til að hughreysta Dag B. Hann eigi alltaf von í Viðreisn.