24.6.2017 12:09

Viðreisn endurlífguð með ESB?

Áformin um að troða Íslandi í ESB virðast enn lifandi stefnumál í Viðreisn þrátt fyrir andstöðu almennings við ESB-aðild og vanmátt til að koma henni á dagskrá að nýju.

Ætla mætti að efnahags- og fjármálaráðherra Íslands áttaði sig á þeim tækifærum sem íslensk stjórnvöld hafa til að hafa mótandi áhrif á gerðir Evrópusambandsins kjósi þau að kynna sér mál á undirbúningsferli þeirra og halda málstað sínum fram á þann veg að tillit sé tekið til hans. Þeim mun frekar hefði mátt vænta þessarar þekkingar hjá ráðherranum þar sem hann klauf Sjálfstæðisflokkinn vegna afstöðunnar til EES og Evrópusambandsins.

Í viðtali sem birtist á vefsíðunni kjarninn.is laugardaginn 24. júní kemur hins vegar fram að ráðherrann, Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, er enn við sama heygarðshornið og ESB-aðildarsinnar jafnan velja sér þegar þeir tala niður EES-samstarfið. Flokksformaðurinn segir:

„Mér finnst það vega að fullveldisrétti þjóðarinnar að við séum með aukaaðild að ESB sem gerir það að verkum að við verðum að taka upp lagaumhverfið en höfum ekki atkvæðisrétt. En það er mín skoðun. Ef einhverjum líður betur að vera í bandalagi án þess að hafa áhrif, þá verður maður bara að sætta sig við þann pólitíska raunveruleika. En mér þætti meiri reisn í því að við værum fullgildir aðilar.“

Spurning vaknar um hvort þetta sé marklaus hótfyndni eins og skoðanir formannsins á stöðu íslenskrar tungu eða afnámi peningaseðla. Áformin um að taka 10.000 kr. og 5.000 kr. seðlana úr umferð fuku á ótrúlega skömmum tíma út í buskann vegna almennrar andstöðu við þau. Áformin um að troða Íslandi í ESB virðast enn lifandi stefnumál í Viðreisn þrátt fyrir andstöðu almennings við ESB-aðild og vanmátt til að koma henni á dagskrá að nýju.

Benedikt fer jafnvel harðari orðum um Brexit en ESB-ráðamenn í Brussel og sér úrsögn Breta úr ESB „sannarlega“ ekki skapa tækifæri fyrir Íslendinga. Hann segir: „Sú aðgerð er ekkert nema andstæð okkur.“ Hann vill ekki sjá Breta í Efta eða EES.

Að Benedikt Jóhannesson kjósi að setja ESB-mál á oddinn á þennan veg á þessari stundu má ef til vill skilja á þann veg að hann vilji „endurtengja“ við höfuðmál Viðreisnar þegar hallar undan fæti hjá flokknum og sótt er að formanninum sjálfum vegna þess.

Hvort aukin áhersla á ESB-mál verði til að blása lífi í Viðreisn kemur í ljós. Hér skal það dregið í efa vegna efnis málsins og tímasetningar.