2.2.2018 11:43

Viðfangsefni ofviða nefndarformanni

Fyrir þá sem utan standa verður æ undarlegra að meirihluti alþingis skuli treysta Helgu Völu Helgadóttur fyrir formennsku í stjórnarskrár- og eftirlitsnefnd alþingis.

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, spurði Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra á alþingi fimmtudaginn 1. febrúar: „Hyggst hún beita sér fyrir því að íslensk stjórnvöld leggi af ómannúðlegar aðferðir sínar í garð fylgdarlausra barna á flótta í samræmi við ákall og ráðleggingar frá fjölda stofnana hérlendis sem erlendis?“ 

Eins og af þessu sést er spurningin verulega gildishlaðin. Ráðherrann svaraði: 

„Hv. þingmaður nefnir hér mál sem mikilvægt er að hafa til skoðunar á hverjum tíma og er mikið álitaefni, ekki bara á Íslandi heldur úti um allan heim. Það er móttaka fylgdarlausra barna, meðferð þeirra og afgreiðsla við hælisumsóknir og þar fram eftir götunum, jafnvel þótt þessi fylgdarlausu börn séu ekki að sækja um hæli. Það er nýtt viðfangsefni fyrir okkur á Íslandi að hingað leiti einstaklingar sem lýsa því yfir að þeir séu börn. Mér skilst að aðeins einu sinni hafi komið hingað fylgdarlaust barn sem lá ljóst fyrir að væri mjög ungt, og var það mál leyst á sínum tíma. En það liggur fyrir að þeim fer fjölgandi sem koma hingað sem menn þurfa að fá staðfest hvort séu raunverulega börn, einstaklingar sem koma hingað án skilríkja. Það liggur fyrir og þarf að vera þannig að meðferð í málum einstaklinga sem eru sannarlega börn er allt annars eðlis en hinna sem ekki eru börn. Ég held að enginn ágreiningur sé um það hjá nokkrum manni. 

Þess vegna þarf að skera úr um með eins óyggjandi hætti og hægt er hvort einstaklingur sé barn eða ekki. Í þeim tilvikum sem þurft hefur að gera það á Íslandi hefur það verið gert með heildstæðu mati, með læknisfræðilegu mati, vissulega, en líka með ýmsum öðrum hætti eins og viðtölum við einstaklinga, t.d. í Barnahúsi. Þau fara fram á Íslandi og hafa verið mjög til eftirbreytni og er fylgst mjög vel með því af löndunum í kringum okkur. Eftir því sem mér skilst er það samdóma álit manna erlendis að móttaka fylgdarlausra barna hér sé til mikillar fyrirmyndar og að mjög sé horft til Íslands í þessum efnum. 

Það er sjálfsagt að skoða á hverjum tíma hvort leita þurfi ýmissa annarra úrræða til að slá því föstu hver aldur einstaklinganna er.“ 

Svar ráðherrans er öfga- og fordómalaust um að á þessu sviði standi stjórnvöld frammi fyrir nýju viðfangsefni. Þá kom sprengjan. Helga Vala sagði: 

„Það er ótrúlega sorglegt að hlusta á hæstv. dómsmálaráðherra tala um fylgdarlaus börn á flótta sem viðfangsefni. Það verður einhvern veginn svo ótrúlega mikil fjarlægð frá því að í fangelsi nú, á Hólmsheiði eftir flutning, situr drengur sem aldursgreiningar hafa farið fram á sem segja að eigi að fá að njóta vafans. Hann er líklega jafn gamall og hann segist vera.“ 

Þessi mynd eftir Hari birtist á mbl.is. Hún sýnir Helgu Völu Helgadóttur í ræðustól alþingis,

Upphlaup þingmannsins vegna þess að dómsmálaráðherra notaði orðið „viðfangsefni“ á þann hátt sem ráðherrann gerði er með öllu tilefnislaust og ber vott um sérkennilega vanstillingu í umræðum á þingi. Að Helga Vala kjósi að fara með mál einstaklings inn á alþingi með þessum hætti er ekki síður sérkennilegt. Maðurinn situr í fangelsi af því að hann hefur ítrekað gert tilraunir til að laumast af landi brott. Loks er undarlegt að þingmaður sem stjórnar þingnefnd sem hefur til meðferðar einhvers konar athugun á því hvað gera skuli þar sem hæstiréttur taldi dómsmálaráðherra ekki hafa sinnt rannsóknarskyldu við skipan dómara í landsrétt skuli í hinu orðinu halda uppi gagnrýni á þennan sama ráðherra fyrir að rannsakað sé meira en góðu hófi gegnir hvort einstaklingur sem kemur ólöglega til landsins segi satt um hagi sína eða ekki. Sýnir það enn á ný að hér er um matskennda reglu að ræða og sitt sýnist hverjum. 

Í lok orðaskiptanna sagði dómsmálaráðherra réttilega: 

„Ég veit ekki hvort það er umræðu um þessi mál eitthvað til framdráttar að hengja sig í framsetningu eða orðræðu einstakra þingmanna eða þess ráðherra sem hér stendur um þessi mál, að telja það sorglegan málflutning sem ég var með í fyrra andsvari þegar ég lýsi því yfir, sem er bara staðreynd, að fylgdarlaus börn væru nýtt viðfangsefni og væru áskorun fyrir Íslendinga og íslenska stjórnsýslu og vörðuðu alvarlegt mál. Það þurfa allir að horfast í augu við það. Það er auðvitað eins og hvert annað verkefni og það gerir ekkert lítið úr málinu þótt um það sé talað sem slíkt, enda er það á dagskrá hjá okkur.“ 

Fyrir þá sem utan standa verður æ undarlegra að meirihluti alþingis skuli treysta Helgu Völu Helgadóttur fyrir formennsku í stjórnarskrár- og eftirlitsnefnd alþingis. Á stuttum tíma kemur í ljós að henni er ósýnt um að nálgast viðfangsefni á þingi á málefnalegan og yfirvegaðan hátt.