12.11.2017 23:21

VG veikir tiltrúna

Þótt varaformaður VG láti eins og hann sé aðeins boðberi annarra þegar hann vegur að formanni Sjálfstæðisflokksins á lúalegan hátt leynir óvildin sér ekki og viljinn til að spilla fyrir framgangi mála.

 Á vefsíðunni ruv.is laugardaginn 11. nóvember var sagt frá því sem Edward H. Huijbens, varaformaður vinstri grænna (VG), skrifaði í lokuðum hópi stuðningsmanna VG að „umdeilt meðal flokksmanna hvort Bjarni Benediktsson fái ráðherrastól, og því séu uppi hugmyndir um að leita út fyrir raðir flokkanna um skipan ráðuneyta“.

Varaformaðurinn segir ófrávíkjanlega kröfu að Katrín Jakobsdóttir verði forsætisráðherra. Hann biður stuðningsmenn um að anda með nefinu enda séu heitar tilfinningar meðal margra um málið. Á ruv.is segir:

„Miklar umræður spinnast á þræðinum á Facebook og ljóst að skiptar skoðanir eru um ágæti væntanlegs ríkisstjórnarsamstarfs, þá sérstaklega við Sjálfstæðisflokk.[...] Edward segir Facebook-færsluna hafa vakið hörð viðbrögð en hann fagni umræðunni. „Ég var að biðja félagsmenn um að treysta forystunni til þess að kanna hvort það sé yfirhöfuð einhver flötur á einhvers konar samtali og það er það sem er akkúrat í gangi núna, það er verið að ræða hvort það er tilefni til þess að setjast formlega saman og reyna að mynda stjórn.“

Varformaðurinn segir að fyrir marga sé það „algjört eitur í beinum“ að Bjarni Benediktsson fái ráðherrastól og það sé „skiljanlegt

Á vefsíðunni Stundinni sem leggur sig jafnan fram um að gera hlut Sjálfstæðisflokksins og Bjarna Benediktssonar sem verstan er rætt við Edward H. Huijbens og spurt hvort það sé raunveruleg afstaða hans að Bjarni eigi að verða utan ríkisstjórnar með VG. Edward segir að svo sé ekki. Hann hafi verið að lýsa röddum innan flokksins. Sjálfur treysti hann Katrínu Jakobsdóttur og Svandísi Svavarsdóttur til að meta hvað sé skynsamlegast í þessum efnum.

Föstudaginn 10. nóvember sögðust Samfylking, Píratar og Viðreisn vilja ræða við VG um myndun vinstri stjórnar, annaðhvort með Framsóknarflokknum eða Flokki fólksins. Að litið sé á Viðreisn sem einn vinstri flokkanna er nýmæli sem endurspeglar sveiflur forráðamanna flokksins að kosningum loknum. Kvöldið fyrir kjördag hrópaði Þorgerður Katrín, formaður Viðreisnar, höstuglega á Loga, formann Samfylkingarinnar, að hann stjórnaði „argasta vinstri flokki“ og virtist ekki par hrifin af honum. Nú vill Þorgerður Katrín í vinstri stjórn með Samfylkingu og VG.

Allt er þetta stórundarlegt og sýnir hve erfitt er að ná þráðum saman í stjórnmálunum svo að unnt sé að mynda meirihluta á alþingi. Þótt varaformaður VG láti eins og hann sé aðeins boðberi annarra þegar hann vegur að formanni Sjálfstæðisflokksins á lúalegan hátt leynir óvildin sér ekki og viljinn til að spilla fyrir framgangi mála.

Ef fréttastofa ríkisútvarpsins (FRÚ) hefði viljað leita að viðbrögðum Sjálfstæðismanna við þessu frumhlaupi varaformanns VG hefði hún auðveldlega fundið þau á Facebook. Reiðin og hneykslunin leyndi sér ekki. Einn sagði á þræði hjá mér: „Varaformaðurinn [Edward H. Huijbens] fékk ekki sæti á lista sem líklegt væri til þess að hann hlyti kosningu á þing. Með því að orða svona kröfu er hann að grafa undan því sem formaður hans er að reyna. Etv eru villikettirnir enn að innan VG.“ Og annar: „Skrýtið að kveikja í húsinu sínu til að sefa íbúana.“

Meginniðurstaðan er að upphlaup nýja varaformanns VG sýni að varla sé unnt að taka flokkinn alvarlega sem samstarfsaðila í ríkisstjórn.

Í kvöldfréttatíma FRÚ laugardaginn 11. nóvember reyndi Katrín Jakobsdóttir að klóra í bakkann fyrir flokk sinn. Hún sagði meðal annars:

„Varaformaður Vinstri grænna var að enduróma umræðu og það sem sagt hefur verið á samskiptamiðlum. Það liggur hins vegar algerlega fyrir að fyrir kosningar sögðum við að við útilokuðum engan flokk. [...]Við sögðum þetta fyrir kosningar. Og ég tel það mjög mikilvægt sem stjórnmálamaður að skipta ekki um plötu eftir kosningar og þess vegna er ég reiðubúin að eiga samtal við aðra flokka sem eru reiðubúnir að vinna að þessum mikilvægum markmiðum. Og ég hef nú fulla trú á því að okkar félagsmenn séu það líka og telji mikilvægt að við reynum að ná málefnagrunni með þeim sem vilja vinna með okkur að þessum markmiðum sem við settum á oddinn fyrir kosningar.“

Í sjálfu sér er ekki einkennilegt að FRÚ flytji hvert viðtalið og hverja fréttina eftir aðra um afstöðu forystumanna VG. Nýleg könnun sýnir að í þeim flokki eru þeir hvað flestir sem hafa trú á FRÚ og hlusta á það sem þar er flutt. FRÚ er einskonar flokksmiðill VG. Hvort með aðstoð FRÚ tekst að stilla til friðar um stefnu Katrínar Jakobsdóttur innan VG kemur í ljós. Hjá annarra flokka mönnum veikir þetta trú þeirra á að VG sé stjórnhæfur flokkur.