11.8.2017 10:01

Velgengni Airbnb kallar á opinberar gagnaðgerðir

Umsvif Airbnb eru langmest hér á landi sé tekið mið af því sem gerist annars staðar á Norðurlöndunum. Brátt ganga í gildi reglur í Reykjavík sem þrengja að þeim sem stunda leigusölu fyrir milligöngu Airbnb.

Frönsk stjórnvöld sjá ofsjónum yfir því að í fyrra hafi Airbnb fyrirtækið sem hefur höfuðstöðvar í San Fransisco í Bandaríkjunum greitt innan við 100.000 evrur í skatta í Frakklandi þótt rúmlega 10 milljónir manna hafi nýtt sér þjónustu undir merkjum Airbnb í Frakklandi. Af hálfu Airbnb er sagt að fyrirtækið sé „gjörólíkt“ fyrirtækjum sem flytji mikla fjármuni frá stöðum þar sem þau stunda viðskipti.

Airbnb segir að „viðskiptalíkan“ sitt sé einstakt vegna þess að heimamenn sem leigja út íbúðir sínar fái tekjurnar en þær renni ekki í vasa fyrirtækisins. Fyrir tilstuðlan Airbnb hafi franska hagkerfið eitt vaxið um 6,5 milljarða evra í fyrra. Heimamenn eflist með þessu og heimabyggð þeirra og þar með aukist skatttekjur þar. Airbnb fari að skattalögum hvers lands þar sem starfsemi sé undir merkjum þess.

Í Frakklandi og innan ESB leggja menn Airbnb að jöfnu við Google, Faeebook og Amazon sem nýta sér skattareglur á þann veg að vakið hefur gagnrýni ráðamanna í Evrópu og undrun almennings. Er nú boðað að Frakkar og Þjóðverjar ætli að taka höndum saman innan ESB til að þrengja skattanetið utan um fyrirtækin. Í Írlandi og Lúxemborg hafa gilt hagstæðar skattareglur sem alþjóðafyrirtæki nýta sér.

Í maí árið 2018 taka gildi nýjar persónuverndarreglur á EES-svæðinu sem setja söfnun upplýsinga þessara fyrirtækja um einstaklinga skorður en persónubundnar upplýsingar eiga verulegan þátt í fjárhagslegri velgengni þeirra.

Fleira hangir þó á spýtunni gagnvart Airbnb eins og best sannast á Spáni þar sem starfsemi þess hefur leitt til mótmælaaðgerða í borgum eins og Barcelona og San Sebastian og á eyjunum Majorka og Ibiza vegna ásakana um að hún raski öllu jafnvægi á húsnæðismarkaðnum.

Airbnb bauð fyrsta herbergið til leigu árið 2008 og á síðari helmingi ársins 2016 varð í fyrsta sinn hagnaður af starfsemi fyrirtækisins að sögn Bloomberg-fréttastofunnar. Tekjur félagsins eru 6-12% af gestum og smáþóknun frá þeim sem skrá húsnæði á vefsíðu Airbnb. Á vegum þess eru rúmlega 3 milljónir eignir í boði í rúmlega 190 löndum. Airbnb er einkafyrirtæki og birtir ekki reikninga sína opinberlega en virði þess er metið á 25 milljarða evra.

Vefsíðan Voucher Cloud kannaði meðalverð á Airbnb gistingu í allri Evrópu. Leitað var að gistingu fyrir eina manneskju í febrúar 2017. Aribnb-gisting reyndist langdýrust á Íslandi og var meðalverðið hér um 15.400 krónur. Næstdýrust er gistingin í Svíþjóð á 11.200 krónur. 

Um miðjan apríl 2017 birti vefsíðan Túristi niðurstöðu athugana sinna og sagði að um 4.000 leigusalar á Íslandi ættu eignir á skrá Airbnb, hver íslenskur leigusali hefði að jafnaði tekið á móti 130 gestum árið 2016 og hefði hver gestur að jafnaði dvalið 2,5 nætur eða 325 nætur yfir árið. Gistinætur seldar um Airbnb á Íslandi árið 2016 voru 1,3 milljónir, gistinætur á hótelum 2016 voru 3,8 milljónir 2016.

Umsvif Airbnb eru langmest hér á landi sé tekið mið af því sem gerist annars staðar á Norðurlöndunum. Brátt ganga í gildi reglur í Reykjavík sem þrengja að þeim sem stunda leigusölu fyrir milligöngu Airbnb. Hér eins og annars staðar vex mörgum velgengnin undir merkjum fyrirtækisins í augum. Hún á hins vegar rætur að rekja til þess að um frábæra viðskiptahugmynd er að ræða sem er hagkvæm fyrir alla sem nýta sér hana. Opinberu afskiptin hafa að markmiði að draga úr hagkvæmninni í þágu þeirra sem hafa orðið undir í samkeppninni.

ps. skömmu eftir að ég birti þetta fékk ég ábendingu um að Ísland væri langdýrasta Airbnb-landið í Evrópu, sjá hér.