1.7.2017 19:07

Um sr. Tómas Sæmundsson Fjölnismann á Breiðabólstað

Þeim mun meira sem ég fræðist um sr. Tómas Sæmundsson kemur í hugann hvort hann hafi verið fyrsti íslenski nútímamaðurinn.

Í dag flutti dr. Marion Lerner, dósent í þýðingafræðum á hugvísindasviði Háskóla Íslands, erindi um Fjölnismanninn sr. Tómas Sæmundsson ferðaskrif hans og ferðalög í Hlöðunni hjá okkur á Kvoslæk í Fljótshlíðinni, skammt fyrir austan Breiðabólstað þar sem sr. Tómas var prestur 1835 til 1841, tæplega sex ár, og andaðist aðeins 34 ára.

Í kirkjugarðinum á Breiðabólstað er minnisvarði um sr. Tómas sem þangað var fluttur, allt að 1,4 tonn að þyngd árið 1855 en hann var gerður fyrir söfunarfé meðal almennings í Kaupmannahöfn og hér á landi og fluttur á skipi til Eyrarbakka þar sem hann lá þar til Sigurður hreppstjóri Ísleifssonar Barkarstöðum í Fljótshlíð, mágur sr. Tómasar kom „varðanum á æki [vagn eða sleða] ekki að eins austur öll sléttlendin af Bakkanum að Þjórsá og svo þaðan fyrir  framan (sunnan) Holtin og upp Landeyjarnar og Aurana upp að Þverá, heldur líka upp hlíðlendið, sem er frá Þverá að sækja, upp að sjálfum staðnum,“ eins og segir í Þjóðólfi í september 1855.

Sr. Sváfnir Sveinbjarnarson sem var prestur á Breiðabólstað og ólst þar upp hjá föður sínum sr. Sveinbirni Högnasyni segir í erindi sem hann flutti á árinu 2007 þegar minnst var að 200 ár voru liðin frá fæðingu sr. Tómasar að sér hafi það verið „ásækin ráðgáta hvernig [varðanum] hefði verið komið síðasta spölinn upp snarbratta brekkuna og í sæti sitt í kirkjugarðinum“.  Eftir að hafa flutt fyrirlesturinn heyrði sr. Sváfnir haft eftir Oddgeiri Guðjónssyni í Tungu að hann hefði eftir sér eldri mönnum þá sögn að steininum hefði, með miklum mannskap, verið velt kant af kanti upp alla brekkuna og í stæði sitt í kirkjugarðinum.

Við fórum með Marion og skoðuðum minnisvarða sr. Tómasar í fylgd sr. Önundar Björnssonar, prests á Breiðabólstað. Upprunalegu lágmyndirnar fjórar á varðanum hafa verið fjarlægðar og eru í Þjóðminjasafninu. Hefur ekki tekist að fá þær aftur á sinn stað eða til varðveislu í krosskirkjunni á staðnum eftir Rögnvald Ólafsson. Þar hangir falleg grafskrift Sr. Tómasar á vegg.

Grafskrift sr. Tómasar Sæmundssonar í kirkjunni á Breiðabólstað.

Í stað upphaflegu lágmyndanna var sett eftirgerð af þeim sem hefur myndað efnasambönd sem spillir steininum en í Þjóðólfi er efninu í honum lýst á þennan hátt:

„Efnið í sjálfum varðanum er steintegund sú sú, er Danir nefna „Sandstein“, á lit eins og dauft kaffe, mjólkurblandið eins og það er almennast til búðið, og hafa oss verið sendar einstöku smá flísir af, sem kvarnazt höfðu utan úr í meðförunum; steintegund þessi er móbergskennd og í meirara lagi, og því er uggvænt að varði þessi haldist ekki ef til vill ómáður og óveðurbarinn til lengdar, og það því síður, sem mælt er, að 2 eður fleiri sprúngur séu þegar sýnilegar á honum, og hafa þær að líkindum komið í hann á útflutningnum hingað.“

Vissulega er varðinn veðurbarinn og máð áletrun á hann enda rúm 150 ár liðin frá uppsetningu hans. Hann stendur þó enn og hefur staðið af sér nokkra jarðskjálfta en sr. Sváfnir segir að í þeim hafi hann snúist um 45 gráður. Það sem farið hefur verst með varðann er að lágmyndirnar voru fjarlægðar og afsteypur sem gefa frá sér efnablöndu settar í staðinn, úr þeim hefur lekið í steininn og leikið hann grátt. Er næsta öfugsnúið að slíkt skuli gert af þjóðminjavörslunni í verndarskyni.

Sr. Önundur Björnsson, Marion Lerner og Rut Ingólfsdóttir. Lágmyndin er talin gerð af Bissens. Hvítir taumar niður af henni spilla varðanum en þeir stafa frá eftirgerð lágmyndanna, frummyndirnar eru í Þjóðminjasafninu.

Marion Lerner flutti afar fróðlegan fyrirlestur um ferðir og ferðabókarskrif sr. Tómasar. Fyrir honum vakti að afla sér hagnýtrar þekkingar með kynnum af öðrum þjóðum og flytja hana með sér til Íslands. Honum entist ekki aldur til að ganga frá drögum sínum að ferðabókinni. Marion benti á að hann hefði vantreyst valdi sínu á íslensku ritmáli og leitað til Konráðs Gíslasonar og Jónasar Hallgrímssonar, vina sinna, sem yfirlesara en þótt þeir of smámunasamir sem enn hefði fælt hann frá skriftum auk þess sem annir og veikindi hefðu lagst þungt á hann eftir heimkomuna til Íslands.

Hluti gesta á fyrirlestri Marion Lerner í Hlöðunni að Kvoslæk.

Þeim mun meira sem ég fræðist um sr. Tómas Sæmundsson kemur í hugann hvort hann hafi verið fyrsti íslenski nútímamaðurinn. Eftir að því hafði verið lýst í Þjóðólfi árið 1855 hvernig minnisvarðanum um sr. Tómas var komið frá Eyrarbakka að Breiðabólstað sagði:

 „[M]enn sjá hér af, hversu mikills til oflítið far Íslendíngar gjöra sér um, að nota æki á vetrum til ýmsra framkvæmda, aðdrátta og aðflutnínga, sem hér á landi eru svo erfiðir og kostnaðarsamir, heldur líka af því, að eptirtekt manna á þessu skyldi einmitt vekjast fyrir minnisvarða þess manns, sem mest og bezt og ljósast allra manna á þessari öld hefir leitazt við að leiða landsmenn og leiðbeina þeim til hverskyns skynsamlegrar ráðdeildar og verklegrar framtaksemi og framkvæmdar.“