4.6.2018 11:12

Um 100 hæfniviðmið 8 ára barns

Hæfniviðmiðum hvers nemanda fjölgar eftir því sem hann eldist og fer í fleiri námsgreinar.

Rök gegn prófum eru meðal annars þau að með þeim sé náminu „stýrt“. Í þessu felst væntanlega að prófin geri þær kröfur að kennt sé með ákveðin skýr markmið í huga, að nemandinn sé þjálfaður til að standast kröfur sem í prófinu felast og það sé hlutverk kennarans að búa hann undir það.

Þetta er einföld og skýr aðferð til að miðla þekkingu og mæla síðan árangurinn. Hún hefur verið notuð öldum saman og frásagnir úr Lærða skólanum í Reykjavík sýna að þar var framgangur nemandans meira að segja mældur viku frá viku. Aðferðin krefst mikils bæði af kennara og nemanda. Þunginn við framkvæmd hennar eykst ef margir skólar keppa að sama marki og greint er opinberlega frá því hvernig þeir standa innbyrðis.

Á háskólastigi fer fram heimsmeistarakeppni skóla og tekur Háskóli Íslands þátt í henni. Háskólanám verður sífellt alþjóðlegra og nota nemendur þessa mælistiku til að velja sér skóla hvar sem er í heiminum enda hefur enskan tekið við af latínunni sem háskólamálið.

Í Morgunblaðinu í dag (4. júní) birtist frásögn af framkvæmd nýs námsmatskerfis í íslenskum grunnskólum þar sem nú er stuðst við „hæfniviðmið“. „Dæmi eru um að átta ára gömul börn fái hátt í 100 einkunnir, þar af 28 í íslensku og 11 í stærðfræði,“ segir þar.

Er þessi sýn að hverfa úr íslenskum grunnskólum?

Þorgerður Laufey Diðriksdóttir, formaður Félags grunnskólakennara, segir: „Þetta námsmat átti að gefa betri sýn á stöðu nemandans, en það virðist ekki ná að gera það. Svo virðist sem foreldrar séu litlu betur settir með að átta sig á stöðu barna sinna.“

Nefnt er dæmi um kennara sem þarf að gefa samtals 1.254 einkunnir í 3. bekk grunnskólans.

Hæfniviðmiðum hvers nemanda fjölgar eftir því sem hann eldist og fer í fleiri námsgreinar. Skólar hafa ekki val þar sem þetta er samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla. Hún er sett af menntamálaráðuneytinu og var innleidd árið 2016.

Hugmyndafræði að baki námskrám breytist eins og annað. Þróunin hefur því miður orðið í þá átt að flækja í stað þess að einfalda, að gera foreldrum erfiðara að átta sig á árangri innan skólanna frekar en auðvelda þeim það. Ef átta ára barni fylgja um 100 einkunnir og þeim fjölgar síðan ár frá ári þar til það verður 16 ára sjá allir að í óefni stefnir – eða hvað? Er þetta barninu til góðs? Hefur þeirri spurningu verið svarað eða eru þau andlag tilrauna í þágu uppeldis- og kennslufræði?