16.11.2017 11:07

Tungan tryggir samheldni þjóðfélagsins

Það hefur verið styrkur íslensks samfélags hve einsleitt það er vegna tungumálsins. Það er sjálfstætt markmið með tungumálið að vopni að tryggja þessa samheldni þjóðfélagsins áfram.

Afmælisdagur Jónasar Hallgrímssonar skálds, 16. nóvember er dagur íslenskrar tungu. Í tilefni dagsins birtir Fréttablaðið viðtal við Ara Pál Kristinsson, rannsóknarprófessor við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, sem sendi nýlega frá sér bókina Málheima. Í kynningu á bókinni segir útgefandinn, Háskólaútgáfan, að markmið höfundarins sé að lesandinn sjái íslenskt mál og málsamfélag ekki aðeins frá íslenskum sjónarhóli.

Rætt er um stöðu tungumála í mismunandi ríkjum, minnihlutamál og innflytjendamál, og vikið að stöðu íslensku og fleiri tungumála gagnvart heimstungunni ensku.

Frá því að dagur íslenskrar tungu var fyrst haldinn hátíðlegur árið 1996 hefur orðið miklar breytingar á íslensku þjóðfélagi. Breytingarnar reyna á íslenska tungu bæði vegna ytra áreitis og stórfjölgunar innflytjenda. Það hefur verið styrkur íslensks samfélags hve einsleitt það er vegna tungumálsins. Það er sjálfstætt markmið með tungumálið að vopni að tryggja þessa samheldni þjóðfélagsins áfram.

Fyrir nokkrum misserum sagði viðmælandi minn í þætti á sjónvarpsstöðinni ÍNN að hann kysi að tala ensku þegar hann færi í miðborg í Reykjavíkur vegna allra ferðamannanna sem þar væru og afgreiðslufólksins á veitingastöðum sem ávarpaði gestina á ensku. Þetta er róttækt viðhorf sem endurspeglar þróun sem ber að viðurkenna og takast á við á skynsamlegan hátt.

Hér er stór og sífellt fjölmennari hópur fólks sem á ekki íslensku að móðurmáli en talar og notar íslensku aðfinnslulaust í störfum sínum og daglegu lífi. Laugardaginn 21. október birtist viðtal í Fréttablaðinu við Anetu M. Matuszewsku, skólastjóra Retor-fræðslu sem stendur fyrir vitundarvakningu um notkun íslensku sem leiðandi tungumáls á vinnustöðum í stað ensku.

Aneta flutti til Íslands frá Póllandi fyrir 17 árum og með henni í Retor starfa tvær pólskar konur sem hafa dvalist hér skemur en hún. Í samtali við þær kemur fram að Íslendingar séu alltof fljótir að skipta yfir í ensku þegar þeir tali við innflytjendur, það tefji fyrir að fólk nái tökum á málinu. Nú sé einnig svo komið að hér búi Pólverjar sem hafi verið 10 ár á Íslandi án þess að kunna stakt orð í íslensku. Þeir fái t.d. þjónustu á pólsku í opinberum stofnunum, bönkum og heilsugæslu. „Þannig verður til samfélag inni í samfélaginu og fólk lifir eftir sínum reglum, gerir sín innkaup í pólsku búðinni og horfir á pólskar myndir í bíó. Auðvitað er gott að boðið sé upp á þann möguleika en þar af leiðandi er ekki eins mikill hvati fyrir fólk að bjarga sér,“ segir þar.

Í tilefni af þessu viðtali við starfsmenn Retor segir Fréttablaðið að styrkir til íslenskukennslu fyrir innflytjendur hafi verið 240 milljónir króna árið 2008 en 120 milljónir árin 2016 og 2107.

Í viðtali við Fréttablaðið nú 16. nóvember 2017 segir Ari Páll Kristinsson:

„Þar sem íslenskan er þjóðtunga þá markar færni í íslensku óhjákvæmilega hvers konar framtíð býðst, hvers konar störfum við getum sinnt. Hversu góð tök viðkomandi hefur á verkfærinu skiptir máli þannig að það er mikilvægt að sinna þessu vel.

Þannig að ef við horfum bara á þá sem eru að flytja hingað fullorðnir þá er mikilvægt að fyrirtæki hafi einhverja málstefnu. Ákveði til að mynda hvert er samskiptamálið á vinnustaðnum og ekki síður að liðka til með þjálfun í íslensku, niðurgreiða námskeið, gera starfsfólki fært að sækja þau á vinnutíma og fleira. Þetta er allt spurning um samfélagslega ábyrgð og að taka afstöðu með íslenskunni. Svo þarf samfélagið auðvitað allt að vera samtaka í því að fólk finni ekki fyrir fordómum og neikvæðni þegar viðkomandi er að prófa sig áfram með að nota íslenskuna. Við megum ekki vera svo upptekin af smáatriðum í forminu að við fælum fólk frá því að reyna fyrir sér með málnotkun.“