26.5.2017 11:08

Trump skotspónn vegna vandræðagangs

Að mörgu leyti minnir þetta frekar á frásagnir í skólablaði. Allt er þetta líka barnaleikur miðað við það sem bíður Trumps við heimkomuna.

Stundum bregður því við í íslenskum fjölmiðlum að fundið er að framgöngu íslenskra ráðamanna erlendis og talið að þeir hafi hugsanlega sýnt á sér gagnrýnisverða hlið með orðum eða athöfnum. Fjölmiðlamenn hafa einstakt tækifæri til að setja það sem öðrum þykir smávægilegt í samhengi sem þeir kjósa, stundum til að gera höfuðpersónuna hlægilega eða skapa henni vandræði.

Donald Trump hefur verið í sinni fyrstu utanlandsferð sem Bandaríkjaforseti undanfarna daga. Eftir að hann hitti Frans páfa í Vatíkaninu sagði fréttamaður BBC að Trump hefði verið star-strucked í návist páfans, fallið í stafi af aðdáun. Þetta er varla neikvætt en öðru máli er að gegna um lýsingarnar á því sem gerðist þegar Trump var í Brussel fimmtudaginn 25. maí og hitti fyrst forystumenn ESB og sat síðan ríkisoddvitafund NATO.

Meginviðburðurinn hjá NATO tengdist því að nýjar höfuðstöðvar bandalagsins voru formlega opnaðar. Þar voru afhjúpuð að minnsta kosti tvö minnismerki, annars vegar um árásina á New York og Washington 11. september 2001 og hins vegar um Berlínarmúrinn.

Trump flutti ræðu við afhjúpunina og nú er gert mikið úr því að hann hafi ekki minnst á 5. gr. NATO-sáttmálans um að árás á eitt ríki bandalagsins sé árás á þau öll. Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, taldi ástæðulaust að gera veður út af því að Trump hefði ekki vikið sérstaklega að 5. gr. sáttmálans.

Stoltenberg sagði að minnismerkið um 11. september væri einnig til minnis um að þá hefði 5. gr. sáttmálans verið virkjuð í fyrsta sinn. Ávarp forsetans bæri að skoða í þessu ljósi auk þess sem í fjárlagatillögum Trumps væri gert ráð 40% aukningu á fjárveitingum til herafla Bandaríkjamanna í Evrópu, betri staðfestingu á stuðningi við bandalagið væri ekki unnt að finna.

Þá er nefnt að Trump hafi fundið að því að Þjóðverjar seldu of mikið af bílum, handaband hans og Emmanuels Macrons, nýkjörins Frakklandsforseta, hafi verið vandræðalegt, hnúi Trumps hefði hvítnað.  Þá hefði forsetinn stjakað við Dusko Markovic, forsætisráðherra Svartfjallalands þegar tekin var „fjölskyldumynd“ af ríkisoddvitunum.

Vegna þess hvernig fjölmiðlarnir blésu upp atvikið sagði Markovic: „Þetta var í raun ekkert. Ég sá bara viðbrögð vegna þessa á samfélagssíðum. Þetta var algjörlega meinlaust. Það er bara eðlilegt að Bandaríkjaforseti sé í fremstu röð.“

Í frásögn The New York Times sagði:

„Opinberlega virtust hinir leiðtogarnir meira undrandi en þakklátir [eftir ávarp Trumps]. Við myndatökuna talaði enginn þeirra við Trump fyrir utan Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra NATO. Að henni lokinni sneru nokkrir þeirra sér að Angelu Merkel frá Þýskalandi, sem er orðin sterkasta mótvægið við forsetann.“

Að mörgu leyti minnir þetta frekar á frásagnir í skólablaði. Allt er þetta líka barnaleikur miðað við það sem bíður Trumps við heimkomuna. Nú beinist Rússa-rannsókn alríkislögreglunnar að tengdasyni hans. Hringurinn þrengist í kringum forsetann á heimavelli.