17.5.2017 15:00

Tilvistarkreppa stjórnarandstöðunnar

Eigi einhver í pólitískum tilvistarvanda er það ekki ríkisstjórnin heldur stjórnarandstaðan, sundruð og málefnasnauð.

Stjórnarandstöðuflokkarnir og stjórnmálaskýrendur láta eins og ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir standi frammi fyir tilvistarvanda vegna þess að ekki sé alveg samhljómur í öllu sem stjórnarþingmenn segja. Þeir hafi ólík viðhorf til einstakra mála og þess vegna sé séu líkur á upplausn stjórnarsamstarfsins. Stjórnarsamstarf þriggja flokka sem er reist á eins atkvæðis meirihluta krefst annarrar stjórnlistar en þegar meirihluti að baki ríkisstjórnar er ríflegur. 

Líf ríkisstjórna ræðst af mörgum þáttum. Ríkisstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins hafði góðan meirihluta á síðasta kjörtímabili en hún sat ekki út kjörtímabilið. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði af sér eftir að þingflokkur hans hafnaði honum, þing var rofið og efnt til kosninga.

Framsóknarflokkurinn tapaði fylgi. Hann er utan ríkisstjórnar og logar stafna á milli vegna átaka um formann flokksins, Sigurð Inga Jóhannsson. Látið er í veðri vaka að hann verði settur af næsta haust og gerð verði hörð hríð að honum á miðstjórnarfundi flokksins laugardaginn 20. maí.

Pírataflokkurinn sem ætlaði að mynda meirihlutastjórn á lokadögum kosningabaráttunnar en lagði þar með grunn að fylgishruni sínu og markleysu logar einnig stafna á milli vegna ágreinings innan þingflokksins sem enginn vill nú frekar en fyrri daginn segja um hvað snýst. Undirrótin er sú sama og jafnan áður þegar Birgitta Jónsdóttir á í hlut: krafa hennar um skipulagsleysi í flokksstarfi svo að hún og klíka hennar geti komið sínu fram án tillits til umsaminna leikreglna.

Meðal vinstri-grænna (VG) ríkir ekki einhugur. Þar er greinilega brestur milli 101-liðsins og landsbyggðarþingmanna. Katrínu Jakobsdóttur flokksformanni tekst að breiða yfir ágreininginn en innan þingflokksins fer Svandís Svavarsdóttir með formennsku og býr sig undir að sölsa undir sig allan flokkinn. 

Málstaður VG er enginn á þingi. Flokkurinn er einfaldlega á móti og þar er nýr þingmaður, Kolbeinn Óttarsson Proppé, fremstur í fylkingu. Hann telur að engu máli verði til lykta leitt án þess að hann segi skoðun sína, ekki endilega á málinu heldur til að lýsa hve mikla fyrirlitningu framkvæmdarvaldið sýni þinginu. 

Hjá þingmönnum sem hafa ekkert efnislegt til málanna að leggja er þrautaráðið til að draga að sér athygli með því að saka andstæðinga sína um að svara ekki spurningum sem lagðar eru fram eftir að þingmaðurinn las eða heyrði frétt um eitthvað sem hann telur að breyta megi í vandamál fyrir ráðherra. Umræðurnar á þingi snúast nú að verulegu leyti um formsatriði eins og þessi ræða sem Katrín Jakobsdóttir flutti á þingi 15. maí eftir umræðu um sölu ríkisins til Garðabæjar á landi nálægt Vífilsstöðum. Katrín sagði: 

„Finnst frú forseta í lagi að fara fram með þessum hætti, að hæstv. ráðherra, sem á hér síðasta orðið, nýti þau með þessum óásættanlega hætti sem við sjáum hér? Finnst frú forseta það í lagi? Hyggst hún taka málið upp í forsætisnefnd? Hyggst forsætisnefnd eiga orðastað við hæstv. ráðherra? Því að svona getur framkvæmdarvaldið ekki komið fram við löggjafarvaldið. Það er bara ekki í boði. Ég geri þá kröfu að forsætisnefnd taki þetta mál upp. Þetta er ekki í lagi og við látum ekki bjóða okkur svona framkomu, frú forseti. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)“

Þetta er gott dæmi um innantóma ræðu sem flutt er í tilgangsleysi. Forsætisnefnd alþingis hefur einfaldlega ekkert um það að segja hvernig ráðherrar tala til þingmanna.

Eigi einhver í pólitískum tilvistarvanda er það ekki ríkisstjórnin heldur stjórnarandstaðan, sundruð og málefnasnauð.