30.6.2017 11:21

Þung gagnrýni á seðlabankastjóra

Seðlabankamenn fóru illa með valdið sem þeim var veitt með því að framfylgja gjaldeyrishöftunum. Þeir fóru offari gegn einstaklingum og fyrirtækjum.

Engum blöðum er um það að fletta að stjórn Más Guðmundssonar á Seðlabanka Íslands hefur allt frá árinu 2009 verið með nokkrum ólíkindum og veikt trú á bankanum og stjórnsýslu hans.

Seðlabankamenn fóru illa með valdið sem þeim var veitt með því að framfylgja gjaldeyrishöftunum. Þeir fóru offari gegn einstaklingum og fyrirtækjum.

Hörður Ægisson lýsir skoðun sinni á glímu seðlabankans við aflandskrónueigendur á leiðarastað Fréttablaðsins í dag. Hörður segir í lok greinarinnar:

„Ekki skal gera lítið úr þeirri staðreynd að krónan hefur styrkst umtalsvert í kjölfar útboðs Seðlabankans í júní 2016. Eftir á að hyggja voru það mistök af hálfu helstu stjórnenda bankans að fallast ekki á þeim tíma á tilboð stærstu aflandskrónueigenda um að losna út fyrir höft á genginu 165 krónur fyrir hverja evru. Miðað við núverandi stöðu þjóðarbúsins má jafnframt færa fyrir því rök að það hefði verið góð niðurstaða fyrir Ísland ef allir aflandskrónueigendur hefðu fallist á síðasta tilboð Seðlabankans. Það afsakar hins vegar ekki það fúsk sem hefur einkennt vinnubrögð bankans og stjórnvalda í þessu stóra hagsmunamáli. Það kann nefnilega yfirleitt ekki góðri lukku að stýra þegar stjórnvöld framfylgja stefnu sem felst í því að segja eitt í dag, en gera eitthvað allt annað á morgun.“

Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor birti þennan fróðleiksmola í Morgunblaðinu 17. júní 2017:

„Um skeið höfðu sumir íslenskir fjölmiðlar mikinn áhuga á tapi Seðlabankans af 500 milljón evra neyðarláni til Kaupþings, sem veitt var í miðju bankahruninu, 6. október 2008. Þegar í ljós kom, að Már Guðmundsson var ábyrgur fyrir tapinu, ekki Davíð Oddsson, misstu þessir fjölmiðlar skyndilega áhuga á málinu.

Fyrir neyðarláninu, sem veitt var eftir ákvörðun ríkisstjórnarinnar, tók Seðlabankinn, sem þá var undir forystu Davíðs, allsherjarveð í FIH-banka í Danmörku, sem þá var í eigu Kaupþings. Eftir fall Kaupþings leysti Seðlabankinn til sín veðið. Þegar Már var orðinn seðlabankastjóri, ákvað hann haustið 2010 að selja FIH-bankann hópi danskra fjárfesta fyrir 5 milljarða danskra króna, þá 670 milljónir evra. Á meðal kaupenda voru hinn öflugi ATP lífeyrissjóður og auðmennirnir Christian Dyvig og Fritz Schur kammerherra, en hann er vinur og ferðafélagi Hinriks drottningarmanns.

Sá hængur var á, að aðeins skyldu greiddir út 1,9 milljarðar (255 milljónir evra), en frá eftirstöðvum skyldi draga bókfært tap FIH banka til ársloka 2014. Hinir nýju eigendur flýttu sér að færa allt tap á þetta tímabil. Jafnframt veitti danska ríkið þeim öflugan stuðning. Það framlengdi lánalínu til bankans, tók við áhættusömum fasteignalánum hans og veitti ATP lífeyrissjóðnum sérstaka undanþágu til að eiga meira en helming í bankanum.

Dyvig, Schur og aðrir eigendur lokuðu bankanum í nokkrum áföngum, en sitja eftir með eigið fé hans, sem er nú metið á um fjóra milljarða danskra króna, 60 milljarða íslenskra króna. Seðlabankinn virðist ekkert geta fengið af þessu mikla fé. Hann tapar mörgum tugum milljarða.

Nú hafa Dyvig og Schur fengið nýjan glaðning, sem farið hefur fram hjá íslenskum fjölmiðlum. Þeir unnu 15. september 2016 mál fyrir Evrópudómstólnum um það, að stuðningur danska ríkisins við þá hefði ekki verið óeðlilegur, svo að þeir fá endurgreiddar 310 milljónir danskra króna (nú um 4,6 milljarðar íslenskra króna), sem framkvæmdastjórn ESB hafði áður krafið þá um fyrir stuðninginn. Schur kammerherra á því fyrir kampavíni í veislum með konungsfjölskyldunni, og í dönskum hallarsölum hlýtur að glymja hlátur yfir sauðunum uppi á Íslandi.“

Furðulegt er hve þeir sem hneykslunargjarnastir eru í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum ræða lítið um stjórnarhætti seðlabankamanna frá því að Már Guðmundsson varð einvaldur í bankanum. Hver er ástæða þess? Líta þeir á hann sem einn úr sínu liði?