13.9.2018 11:18

Þögn um öryggis- og útlendingamál í stefnuumræðum

Þegar rennt er yfir þær vekur athygli að enginn ræðumaður víkur einu orði að öryggismálum þjóðarinnar eða nýjum og breyttum viðhorfum til öryggismála á N-Atlantshafi.

Katrín Jakobsdóttir forstætisráðherra flutti stefnuræðu sína í gærkvöldi (12. september). Ræða hennar og allra annarra sem tóku til máls í umræðunum eru birtar á vefsíðu alþingis.

Þegar rennt er yfir þær vekur athygli að enginn ræðumaður víkur einu orði að öryggismálum þjóðarinnar, hvort sem litið er til nýrra og breyttra viðhorfa til öryggismála á N-Atlantshafi eða varna vegna hættu af net- eða tölvuárásum svo að ekki sé minnst á íhlutun erlendis frá með upplýsingafölsunum eða lyga- og falsfréttum. Þögnin um þessa þætti auk þagnarinnar um útlendingamálum og þörfina fyrir að standa vaktina á því sviði skilur íslenska stjórnmálamenn frá stjórnmálamönnum lýðræðisríkjanna austan hafs og vestan.

1072485Eggert Jóhannesson tók þessa mynd af forsætisráðherra flytja stefnuræðuna og birtist hún á mbl.is

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, vék að nauðsyn þess að taka upp evru og ganga í Evrópusambandið. Samfylkingin gekk á sínum tíma lengst í þeim lygaáróðri að sækja þyrfti um aðild að ESB til að vita hvað um væri að semja er því síst af öllu ástæða til að treysta flokknum þegar kemur að ESB-aðildarmálum. ESB ræðir við þjóðir um aðild til að tryggja að þær fullnægi öllu skilyrðum sambandsins en ekki til að verða við óskum um sérkjör nýrra ríkja.

Logi, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (Viðreisn) og Smári McCarthy (Píratar) vöruðu réttilega við úrtöluröddum um gildi aðildarinnar að EES. Logi talaði í því samhengi um „þjóðernispopúlískar“ raddir. Þorgerður nefndi „Trumpara þessa lands“ í þessu samhengi eftir að hún lýsti von um „að skynsamlega þenkjandi repúblikanar stöðvi vitleysuna í Trump“.

Smári McCarthy sagði: „Jafnvel hér í þessum sal er til fólk sem man ekki hvernig lífið var fyrir EES-samninginn og efast um ágæti þess að eiga greiðan aðgang að alþjóðamörkuðum, en íslenskt samfélag er að öllu leyti grundvallað á því að geta átt mikil viðskipti við önnur lönd og því er nauðsynlegt að verja, styrkja og þróa EES-samninginn, jafnvel þótt einhver lönd kjósi að fórna framtíð sinni á altari einangrunarstefnu.“

Karl Gauti Hjaltason, Flokki fólksins, sagðist ætla beita sér „fyrir því að gerð verði skýrsla um hag okkar Íslendinga af þátttöku í Schengen-samstarfinu þar sem teknir verði saman kostir þess og gallar“. Þetta yrði gert samhliða skýrslugerð um EES-samstarfið. Mátti skilja hann svo að það væri séstakur hagur eyþjóða að standa utan við Schengen og jafnvel vilji lögreglunnar á Íslandi.

Reglulega hafa verið gerðar skýrslur um hag okkar af Schengen-samstarfinu og niðurstaðan jafnan orðið á þann veg að ekki beri að hrófla við aðildinni. Á hinn bóginn er ljóst að áherslan á landamæravörsluna hefur ekki verið næg. Schengen-aðildin tryggir okkur aðgang að sameiginlegu, borgaralegu öryggiskerfi og ekkert kemur í stað hennar.