22.3.2017 15:53

Þjóðarbúskapur - ólík viðhorf til leiksýninga

Í dag ræddi ég við Ásdísi Kristjánsdóttur, forstöðumann efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins, í þætti mínum á ÍNN. Við förum yfir stöðu þjóðarbúsins sem er sterkari núna en nokkru sinni fyrr. - Það eru ólík viðhorf þeirra sem hafa séð Ellý í Borgarleikhúsinu eða Endastöð - upphaf í Tjarnarbíói.

Í dag ræddi ég við Ásdísi Kristjánsdóttur, forstöðumann efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins, í þætti mínum á ÍNN. Við förum yfir stöðu þjóðarbúsins sem er sterkari núna en nokkru sinni fyrr. Þá ræðum við stöðuna eftir afnám haftanna og verkefni líðandi stundar en Ásdís var skipuð í nefnd við afnám haftanna sem á að ræða peningastefnuna. 

Við ræðum stóru myndina en ekki tortryggnina sem brýst fram núna þegar eigendur Kaupþings nýta sér gildandi leikreglur til að hagnast sem mest um leið og þeir fjárfesta í Arion banka. Það ríkir andi sem endurspeglar ótta um að einhverjir séu að plata okkur. 

Fyrir nokkrum vikum ræddi ég á ÍNN við Svein Einarsson leikstjóra um nýtt bindi af leiklistarsögu hans. Þar sagði hann (sjá hér) að áhugi á leikritun og leikhúsi væri meiri hér en annars staðar. 

Á dögunum var frumsýnt leikrit um söngkonuna vinsælu, Ellý Vilhjálmsson, sem hefur hlotið svo góðar viðtökur að sýningin hlýtur að draga að sér þúsundir áhorfenda. Stefán Eiríksson, fyrrv. lögreglustjóri en núv. borgarritari, sagði meðal annars á Facebook:

„Stórkostleg sýning þar sem allt gekk fullkomlega upp. Einstakri sögu gerð frábær skil, svo áhrifamikið að reglubundið grét fólk í salnum, ég þar á meðal.“

Um svipað leyti og leikritið Ellý var frumsýnt var leikritið Endastöð – upphaf eftir leikarana Rúnar Guðbrandsson og Árna Pétur Guðjónsson frumsýnt í Tjarnarbíói. Silja Björk Huldudóttir skrifar um leikritið í Morgunblaðið í dag, 22. mars, og segir meðal annars:

„Í ljósi þess hve áhrifaríkar, vel leiknar og sjónrænt spennandi sýningar Lab Loka hafa iðulega verið var það með allnokkurri eftirvæntingu sem rýnir lagði leið sína í Tjarnarbíó sl. fimmtudag á svonefnt stefnumót við leikhópinn í tilefni af 25 ára starfsafmæli Lab Loka. [...]

Fyrr í sýningunni höfðu félagarnir, í hljóðupptöku, rifjað upp þegar þeir á táningsaldri snemma á áttunda áratug síðustu aldar sáu Í húsi föður míns hjá Odin-leikhúsinu í Danmörku og ræddu í framhaldinu vináttu sína og samstarf sem á tímum var markað óhóflegri drykkju. Í sama kafla lýstu þeir aðdáun sinni á því sjónarmiði að áhorfendur mættu eiga sig. Sú afstaða sveif óneitanlega yfir vötnum í Tjarnarbíói sl. fimmtudag, enda virtist gjörningurinn fyrst og síðast ætlaður til heilunar og úrvinnslu fyrir þátttakendur á sviðinu.“