2.4.2018 11:49

Þaulhugsað launmorð í Salisbury

Aðgerðin hafi bæði verið táknræn og áhrifarík. Það hefði verið unnt að drepa Skripal á annan hátt með byssu eða sviðsettu slysi.

Hér hafa birst nokkrar færslur tengdar eiturefnaárásinni í Salisbury 4. mars sem leitt hefur til víðtækra aðgerða vestrænna ríkisstjórna gegn Rússum. Þessar færslur hafa vakið nokkrar umræður á Facebook.

Í dag birti ég stutta endursögn af langri frétt sem birtist um málið í The New York Times (NYT) í dag (2. apríl).

Þar segir frá því að breskir embættismenn sem vinna að rannsókn eituratlögunnar að Sergej Skripal, fyrrv. njósnara Rússa, telji líklegt að taugaeitrinu hafi verið smurt á hurðarhúninn á útidyrunum á heimili Skripals. Þetta hafi verið svo viðkvæm og áhættusöm aðgerð að ólíklegt sé að til hennar hafi verið gripið án þess að fyrir lægi samþykki frá Kremlverjum. Það hefðu ekki aðrir en menn þjálfaðir til að fara með efnavopn getað gert þetta vegna þess hve mikil hætta stafi af taugaeitrinu. Til þessa hafi ekkert sýnt að rekja megi ákvörðun í málinu beint til Vladimirs Pútíns, hann sé hins vegar fyrrverandi KGB-foringi og kunni að fela slóð sína.

Útidyrnar á heimili Skripals í Salisbury. Eitri var smurt á hurðarhúninn.

Aðgerðin hafi bæði verið táknræn og áhrifarík. Það hefði verið unnt að drepa Skripal á annan hátt með byssu eða sviðsettu slysi. Launmorðingjarnir hafi hins vegar vitað að unnt yrði að greina eitrið og að það yrði rakið til Rússa. Með því hefðu óhugnanleg skilaboð verið send til þeirra sem vildu feta í fótspor Skripals og ganga til liðs við Vesturlönd. Að velja Salisbury, sögufrægan smábæ fyrir utan London, eigi að sýna að Rússar geti látið að sér kveða alls staðar.

NYT segir að Bretar hafi kynnt bandamönnum sínum þrjár meginröksemdir fyrir því að Rússar standi að baki árásinni:

Í fyrsta lagi niðurstöður rannsókna á taugaeitrinu. Þær leiði í ljós upprunaland eitursins.

Í öðru lagi að Rússar hafi opinberlega lýst yfir áformum sínum um að myrða liðhlaupa búsetta erlendis. Árið 2006 samþykkti rússneska þingið lög sem veittu forseta landsins heimild til að beita valdi gegn andstæðingum, búsettum í öðrum löndum. Nokkrum mánuðum eftir samþykkt laganna var fyrrv. KGB-maður, Alexander V. Litvinenko, myrtur með geislavirku efni í London. Rússar hafa aldrei viðurkennt að lagaheimildin hafi verið nýtt.

Í þriðja lagi hafi Bretar lagt fram leynilegar upplýsingar frá njósnurum annaðhvort reistar á frásögnum heimildarmanna, hlerunum eða öðru. Frá slíku sé ekki skýrt opinberlega.