23.2.2018 11:09

Þáttaskil á D-lista í Reykjavík

Einhugur ríkti að lokum í kjörnefndinni og einnig á Varðarfundinum. Nýr D-listi og nýr borgarstjórnarflokkur kemur til sögunnar.

Sjálfstæðismenn í Reykjavík hafa ákveðið framboðslistann vegna borgarstjórnarkosninganna í vor. Borgarfulltrúum fjölgar úr 15 í 23 og þess vegna sitja 46 manns á listanum í stað 30 áður. Ferlið við ákvörðun um listann var tvískipt. Í leiðtogaprófkjöri 27. janúar 2018 sigraði Eyþór Arnalds með yfirburðum (61% atkvæða). Fimmtudaginn 22. febrúar samþykkti síðan fulltrúaráð Varðar einróma tillögu uppstillingarnefndar undir formennsku, Sveins H. Skúlasonar, gamalreynds innanbúðarmanns í flokknum. Aðeins einn fyrrverandi borgarfulltrúi, Marta Guðjónsdóttir, er á listanum.

Andstæðingar Sjálfstæðisflokksins létu fyrir fund Varðar eins og þar mætti búast miklum átökum, til dæmis birti Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, stjórnmálaskýringu á vefsíðu sinni undir fyrirsögninni: Valdatafl í Sjálfstæðisflokkum í Reykjavík. Hún hófst á þessum orðum: „Það er ólga á meðal Sjálfstæðismanna í Reykjavík í kjölfar þess að væntanleg uppstilling á framboðslista flokksins fyrir komandi borgarstjórnarkosningar lak út.“

1028028Kristinn Magnússon tók þessa mynd fyrir mbl.is á Varðarfundi í Valhöll fimmtudaginn 22. febrúar.  Eyþór Arnalds 1. maður á D-listanum í Reykjavík ræðir við Hildi Björnsdóttur sem situr í 2. sæti listans.

Var þar um dæmigerða skrifborðsæfingu ritstjórans að ræða. Henni var ætlað að blása í átakaglæður sem reyndust aðeins í hugskoti höfundarins. Hafi verið stríðandi fylkingar slíðruðu þær sverðin og stóðu einhuga að lista sem horfir til framtíðar eins og áhorfendur frétta ríkissjónvarpsins sáu að kvöldi fimmtudags 22. febrúar.

Þar var Þórdís Arnljótsdóttir glaðbeitt í beinni útsendingu í höfuðstöðvum Sjálfstæðisflokksins í Valhöll. Hún hafði greinilega trúað mati álitsgjafanna um að til átaka kæmi á fundinum og var undrandi hve stuttur hann var. Ekki tók betra við þegar hún vildi hughreysta Hildi Björnsdóttur, í öðru sæti á D-listanum, með því að líklega næði hún kjöri í borgarstjórn! Benti Sveinn H. fréttakonunni á að í orðum hennar fælist of mikil svartsýni, hann gerði sér vonir um 9 eða 10 fulltrúa D-listans af 23 borgarstjórnarfulltrúum.

Þá vildi Þórdís vita hvort Hildur sæi ekki eftir því að borgarfulltrúarnir Áslaug Friðriksdóttir og Kjartan Magnússon væru ekki á listanum. Hildur svaraði: „Ég hef því miður aldrei hitt Kjartan og Áslaugu.“ Þetta svar segir í raun allt um þau þáttaskil sem verða innan Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík með nýja borgarstjórnarlistanum.

Þáttaskilin verða án þess að til prófkjörs sé efnt um annan en oddvita listans. Menn geta velt fyrir sér hvort niðurstaðan hefði orðið önnur hefði verið blásið til prófkjörs, hvort um 150 manns hefðu látið í ljós áhuga á að taka þátt í prófkjöri til að komast á listann. Hvort þeir sem skipa nú efstu sæti  á eftir Eyþóri hefðu yfirleitt komið til álita. Í lok fyrrgreindrar stjórnmálaskýringar segir Þórður Snær, ritstjóri Kjarnans:

„Viðmælendur Kjarnans úr baklandi þeirra [Áslaugar og Kjartans] telja þetta mjög grófa aðför gegn þeim. Þeir telja augljóst að bæði Áslaug og Kjartan hefðu gjörsigrað margt af því fólki sem nú fær öruggt sæti á lista ef prófkjör hefði verið haldið. Með undirróðri og innanflokksátökum hafi málum hins vegar verið komið þannig fyrir að þeir sem eru með meirihluta í kjörnefnd og í fulltrúaráði hafi getað raðað sínu fólki á lista.“

Þegar á reyndi misstu þessi skrif marks. Einhugur ríkti að lokum í kjörnefndinni og einnig á Varðarfundinum. Nýr D-listi og nýr borgarstjórnarflokkur kemur til sögunnar. Hann gengur ekki afturábak inn í gamlan heim innanflokksátaka heldur fram á veginn og verður að ná til stórs hóps kjósenda til að tryggja Reykvíkingum bjartari framtíð.