18.9.2017 8:35

Takmarkalaus óvild í garð Sjálfstæðisflokksins

Birti ég glefsur af Facebook þar sem Eiríkur Guðmundsson, þáttagerðamaður á ríkisútvarpinu og rithöfundur, kemur við sögu.

Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor vakti máls á því á Facebook laugardaginn 16. september áður en Bjarni Benediktsson gekk á fund forseta Íslands á Bessastöðum að Bjarni mundi biðjast lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt og segjast vilja rjúfa þing og efna til kosninga. Forseti samþykkti lausnarbeiðnina og þingrofstillöguna, en bæði Bjarna að starfa áfram í starfsstjórn ásamt núverandi stjórnarflokkum. „Ég á erfitt með að sjá neitt, sem komið geti í veg fyrir þessa atburðarás, sem er í samræmi við reglur og venjur hér á landi,“ sagði Hannes Hólmsteinn.

Prófessorinn hafði að sjálfsögðu rétt fyrir sér en nokkur orðaskipti urðu í tilefni af færslu hans og birti ég glefsur þar sem Eiríkur Guðmundsson, þáttagerðamaður á ríkisútvarpinu og rithöfundur, kemur við sögu.

Eiríkur Guðmundsson: En það mikilvægasta er að Sjálfstæðisflokkurinn er farinn frá völdum, og það er gott [...] það eina sem sá flokkur hefur kallað yfir okkur eru hrun, og spillingarmál, eins og nýjustu dæmin sanna best. En nú fer hann væntanlega að skolast burt.

Björn Bjarnason: Eiríkur Guðmundsson boðar hér á hvaða vallarhelmingi hann vill að umræðurnar fram að kosningum verði. Hann vill að vinstri menn hafi Sjálfstæðismenn eins og bolta á sínum helmingi og sparki þeim á milli sín með illmælgi um spillingu og lágmenningu. Eiríkur hefur flutt ófáa pistla um þetta í ríkisútvarpið en þegar menn misnota það í þessum tilgangi eru gagnrýnendur sakaðir um ofríki. Vinstrimennska í anda Eiríks á alls staðar undir högg að sækja en hér þrífst hún best í skjóli ríkisútvarpsins. Sé umræðan færð yfir á hægri vallarhelminginn þar sem rætt er um framtak og frumkvæði einstaklinga, minni ríkisumsvif og að ríkisfyrirtæki séu rekin fyrir opnum tjöldum fer allt á annan endann hjá þeim sem standa á vinstri helmingnum. Full ástæða er til að láta enn einu sinni á þetta reyna í komandi kosningabaráttu.

Eiríkur Guðmundsson: Sjálfstæðisflokkurinn er í íslensku samhengi rússneskur kommúnistaflokkur, við komumst ekkert áfram fyrr en hann hverfur, en því miður eru 30 prósent þjóðarinnar afar illa gefin.

Björn Bjarnason: Það þarf að ramma þessi síðustu orð Eiríks Guðmundssonar inn og hafa þau til marks um umburðarlyndi póst-módernískra ríkisútvarpsmanna við upphaf 21. aldarinnar.

Hannes Hólmsteinn Gissurarson: Mér finnst svo sem allt í lagi, að ‪Eiríkur Guðmundsson láti gamminn geisa í RÚV. En það mætti ef til vill hafa meiri fjölbreytni þar í vali pistlahöfunda.

Björn Bjarnason: ‪Ég hef löngum sagt, Hannes Hólmsteinn Gissurarson, að þú sért mildari og víðsýnni en myndin sem vinstraliðið dregur upp af þér.