14.4.2018 12:19

Sýrland - Comey - orðaval

Árásin í Sýrlandi dregur athygli frá umræðum um væntanlega bók eftir James Comey, fyrrv. forstjóra bandarísku alríkislögreglunnar, FBI, þar sem hann lýsir samskiptum sínum við Donald Trump forseta.

Nú hafa Bandaríkjamenn, Bretar og Frakkar ráðist á þrjú skotmörk til að eyðileggja eiturefnavopnasmiðjur Bashars al-Assads, forseta Sýrlands. Lýsingin á aðgerðinni er á þann veg að hún sé takmörkuð í tíma og rúmi. Markmiðið er að eyðileggja getu sýrlenskra yfirvalda til að nýta efnavopn. Þá er ætlunin að hræða Assad og bandamenn hans frá að grípa enn á ný til efnavopna í Sýrlandsstríðinu. Þetta er í annað sinn sem reynt er að halda aftur af Assad á þennan hátt.

Sjónvarpsmyndir frá Damaskus eiga að sýna að þar fagni íbúar því að árásin hafi engin áhrif og mörgum árásarflaugum hafi verið grandað. Meira að segja er birt myndskeið sem á að sýna Bashar al-Assad ganga til skrifstofu sinnar eins og ekkert raski ró hans.

Myndin sýnir eldflaugar yfir Sýrlandi i nótt.

Áfram verður af áhuga fylgst með því sem gerist í Sýrlandi því að þar er öðrum þræði háð „staðgenglastríð“, stórveldin berjast þar án þess að átökin séu beint þeirra á milli. Rússar hafa nýtt sér stöðuna í Sýrlandi til að gera sig gildandi í stærra samhengi. Taka verði tillit til þeirra sem áhrifaaðila fyrir botni Miðjarðarhafs. Þeir þrá að keppa í meistaraflokki og beita miskunnarlaust valdi til að komast í hann.

*

Árásin í Sýrlandi dregur athygli frá umræðum um væntanlega bók eftir James Comey, fyrrv. forstjóra bandarísku alríkislögreglunnar, FBI, þar sem hann lýsir samskiptum sínum við Donald Trump forseta.

Að maður sem lýst er á þennan hátt skuli skipa embætti forseta Bandaríkjanna er ekki traustvekjandi svo að ekki sé meira sagt. Hér eru dæmi úr bókinni sem birtust á íslensku hér:

„Þegar ég hitti Trump komu upp í hugann minningar frá fyrri störfum mínum sem saksóknari gegn mafíunni.“

„Í kringum hann sátu þögulir samþykkjendur. Bossinn hafði alla þræði í hendi sér. Hollustueiðar. Heimsmyndin: við-á-móti-þeim. Logið um alla hluti, stóra og smáa, einskonar hollustudulmál sem skipaði samtökunum ofar siðferði og ofar sannleika.“

„Sem forseti ógnar Donald Trump mörgu sem telst gott meðal þjóðarinnar.“

 „Forsetinn en ósiðlegur, ótjóðraður við sannleikann og gildi stjórnskipulagsins.“

„Þeir glata getu til að skilja á milli þess sem er satt og hins sem er ósatt. Þeir raða í kringum sig öðrum lygurum. Sporslur og aðgengi fá þeir sem eru tilbúnir að ljúga og sætta sig við lygar. Við þetta skapast „kúltúr“ sem setur svip sinn á allt daglegt líf.“

Það stóð ekki á svörum frá Trump og hann sagði meðal annars um Comey á Twitter:

„Hann er veiklyndur og ósannsögull slordóni sem var, eins og komið hefur í ljós, hræðilegur forstjóri FBI.“

 *

Í þessum texta er að finna sterk orð og sumum er forvitnilegt að velta fyrir sér, til dæmis orðið untethered. Enska sögnin to tether er af sama stofni og íslenska sögnin að tjóðra. Þess vegna er rökrétt að íslenska texta Comeys á þann veg að Trump sé „ótjóðraður“ við sannleikann.

Trump segir að James Comey sé slime ball. Í ríkisútvarpinu var þetta þýtt sem skíthæll í Fréttablaðinu er talað um slímklessu hvað sem það nú er. Í textanum hér fyrir ofan er skammaryrðið þýtt sem slordóni -slime er slor og það er engum líkar að vera kallaður slordóni – þunginn af árásinni ræðst þó af því hver gerir hana og hvenær.