25.10.2017 9:56

Svört skýrsla um skipulagða glæpastarfsemi

Stjórnmálamenn verða að bregðast við nýrri skýrslu um skipulagða glæpastarfsemi í landinu á þann veg að framkvæma nauðsynlegar úrbætur.

Greiningardeild ríkislögreglustjóra sendi þriðjudaginn 24. október frá sér skýrslu um skipulagða glæpastarfsemi hér á landi árið 2017. Fyrir tveimur árum birtist sambærileg skýrsla. Síðan hefur þróunin orðið á þann veg að augljóst er að grípa verður til skjótra og markvissra aðgerða af opinberri hálfu.

Greiningardeildinni var komið á fót fyrir um áratug í því skyni að greina stefnu og strauma í innri öryggismálum þjóðarinnar og auðvelda stjórnmálamönnum að taka ákvarðanir um nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja öryggi borgaranna. Frumskylda stjórnmálamanna er að sjá til þess að borgararnir þurfi ekki að óttast um öryggi sitt.

Undanfarin ár hefur þjóðfélagið tekið stakkaskiptum vegna tæknivæðingar og fjölgunar fólks í landinu. Fjölgun aðkomumanna og ferðamanna kallar á víðtæk félagsleg viðbrögð. Lítið er því miður rætt um nauðsyn þeirra. Háværari er gagnrýnin á þá sem vara til dæmis við aðstreymi tilhæfulausra hælisleitenda. Um það segir í nýju skýrslu greiningardeildarinnar.

„Lögreglan telur að smygl á fólki færist í vöxt og haldist m.a. í hendur við mikla fjölgun þeirra sem óska alþjóðlegrar verndar [hælisleitenda] hér á landi. Þess þekkjast dæmi að einstaklingar frá löndum sem útlendingastofnun skilgreinir sem „örugg ríki“ færi sér markvisst í nyt móttökukerfi um alþjóðlega vernd á Íslandi í þeim tilgangi að stunda hér „svarta atvinnu“ eða brotastarfsemi. Dæmi eru um að menn sem dvalist hafa hér á landi sem umsækjendur alþjóðlegrar verndar hafi stundað ólöglega starfsemi, „svarta atvinnu“ eða afbrot, og hafi, eftir að hafa verið neitað um vernd og vísað frá Íslandi, snúið aftur fáum dögum síðar og tekið upp fyrri ólöglega iðju.

Í skýrslu greiningardeildar frá 2015 var í kafla um horfur og framtíðarþróun varað sérstaklega við hættu á vinnumansali og vændi. Í skýrslunni sagði:

  „Vændi og mansal gætu aukist m.a. í tengslum við stóraukin umsvif í byggingariðnaði og ferðamannaþjónustu. Vöxtur í byggingariðnaði skapar hættu á ólöglegum innflutningi á verkafólki og dæmi eru um að viðkomandi þræli myrkranna á milli við slæm kjör. Dæmi eru um að brotamenn tengdir vinnumiðlunum eigi þátt í mansali með því að blekkja og misnota einstaklinga sem koma á þeirra vegum. Þá eykst hættan á að svört atvinnustarfsemi muni þrífast í tengslum við aukin umsvif í ferðaþjónustu og byggingariðnaði.“

Þessi virðist því miður hafa orðið raunin. Lögregla hefur sterkar grunsemdir um mansal í hinum ýmsu geirum atvinnulífsins ekki síst þeim sem hafa vaxið hratt á undanförnum tveimur árum. Vændisstarfsemi hefur aukist mikið á síðustu tveimur árum og er þjónustan auglýst á vefsíðum og samfélagsmiðlum.

Í skýrslum liðinna ára hefur greiningardeild ítrekað varað við því að þeir sem leiti alþjóðlegrar verndar á Íslandi kunni, sökum bágrar félagsstöðu, að sæta misnotkun og jafnvel kúgunum af ýmsum toga. Slík misnotkun er þekkt í nágrannaríkjum og tengist oft „svartri atvinnustarfsemi“. Augljóslega er slík misneyting ekki bundin við þá sem óska alþjóðlegrar verndar. Þekkt er frá nágrannaríkjum að konur séu þvingaðar til að stunda vændi og að skipulagt vinnumansal fari fram innan „svarta hagkerfisins“.“

Í þessum orðum er lýst ástandi sem ekki verður einungis leyst með því að auka umsvif lögreglunnar. Hér er um að ræða samfélagsmein sem verður aðeins upprætt  með samstilltu átaki. Það verður að hefjast með aðgerðum til að halda þeim frá landinu sem ætla að koma hingað í þessum ólögmæta tilgangi. „Svört vinna“ er ekki stunduð nema með þátttöku þeirra sem ráða fólk í slíka vinnu.

Vorið 2009 samþykkti nær allur þingheimur lög sem áttu að duga til að sigrast á vændisstarfsemi í landinu. Var það gert að sænskri fyrirmynd og vegna háværrar kröfu þingmanna VG. Þessi löggjöf er ekki til marks um annað en hvítþvott stjórnmálamanna vegna vandamáls sem verður ekki leyst á þennan hátt. Það hefur rækilega sannast hér og beint umræðum og aðgerðum inn á rangar brautir eins og nýja skýrslan sýnir.

Stjórnmálamenn verða að bregðast við nýrri skýrslu um skipulagða glæpastarfsemi í landinu á þann veg að framkvæma nauðsynlegar úrbætur, ekki með gervilausnum á borð við lagbreytingarnar vorið 2009. Það verður að búa þannig um hnúta að lögreglan sé alltaf skrefi á undan glæpamönnunum, í því felst meðal annars að auka getu lögreglu til frumkvæðisrannsókna með auknum forvirkum rannsóknarheimildum. Starf greiningardeildarinnar hefur sýnt hve mikilvægt er að afla upplýsinga og greina þær. Það eitt hvetur til árvekni.