27.7.2017 8:40

Sumarleyfi stjórnmálanna lýkur

Man einhver eftir skýringum Loga Einarssonar á fylgistapi Samfylkingarinnar? Eða hvernig skýrir hann að flokkurinn undir hans formennsku nær sér ekki nema lítillega á strik í stjórnarandstöðunni?

Loga Einarssyni, formanni Samfylkingarinnar, kemur ekki á óvart að Flokkur fólksins mælist stærri í nýrri skoðanakönnun er Viðreisn og Björt framtíð. Hann segir smáflokkana „súpa seyðið af því að hafa gengið alltof langt á forsendum Sjálfstæðisflokksins í stjórnarsamstarfinu og gengið á bak orða sinna frá því í kosningabaráttunni“.

Eftir haustkosningarnar 2016 sat starfsstjórn frá 30. október fram undir miðjan janúar 2017. Mátti ekki síst rekja það til þess hve margir smáflokkar eiga fulltrúa á þingi. Þar er Samfylkingin minnst og sat hún þó ekki í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum fram að kosningum. Man einhver eftir skýringum Loga Einarssonar á fylgistapi Samfylkingarinnar? Eða hvernig skýrir hann að flokkurinn undir hans formennsku nær sér ekki nema lítillega á strik í stjórnarandstöðunni?

Kenningin um að smáflokkar tapi á samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn er fyrst og fremst skýring þeirra sem halda ekki velli vegna þess hve illa þeim tekst að kynna eigin stefnu og halda sjálfsmynd sinni – án tillits með hverjum þeir starfa.

Forystumenn Viðreisnar reyna að skerpa eigin mynd með talinu um evruna sem allir vita að eykur aðeins einangrun þeirra nema þeir voni að þeim takist að samsama sig með Samfylkingunni og mynda breiðfylkingu með henni. Ef til vill á að lesa orð formanns Samfylkingarinnar sem áskorun til Viðreisnar og Bjartrar framtíðar um samstarf við Samfylkinguna – eftir kosningar var einmitt sagt að flokkarnir hefðu gengið að Samfylkingunni dauðri.

Undir það skal tekið sem segir í leiðara Morgunblaðsins í dag að ríkisstjórnin verður að skerpa stefnu sína og markmið. Stjórnarsáttmálinn ber þess merki að hafa orðið til í því skyni að skapa starfhæfan meirihluta á alþingi. Nú þegar hálft ár er liðið frá myndun ríkisstjórnarinnar og stjórnmálastarfið hefst að nýju af þunga eftir sumarleyfi er óhjákvæmilegt fyrir ríkisstjórnina að boða hvað skuli sett í forgang á næsta vetri.

Þá verða flokkarnir einnig að huga að framboðsmálum vegna sveitarstjórnakosninganna. Þar er brýnast að leggja á ráðin um nýja stjórnarhætti í Reykjavíkurborg. Í því efni hvílir þung ábyrgð á Sjálfstæðisflokknum.