29.3.2017 16:29

Staðfastur ásetningur til blekkinga

Að alhæfa út frá blekkingunum við söluna á Búnaðarbankanum á þann veg að allir fjárfestar starfi eins og Ólafur Ólafsson og samverkamenn hans stenst ekki gagnrýni.

Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, lýsti snemma efasemdum um að ekki væri allt  sem sýndist við sölu á 45,8% eignarhlut ríkisins í Búnaðarbankanum í janúar 2003. Hann er ánægður yfir að í dag var birt skýrsla rannsóknarnefndar alþingis um söluna. Í tilkynningu nefndarinnar sem var birt í dag segir meðal annars:

„Rannsóknarnefnd Alþingis hefur sannreynt að þýski bankinn Hauck & Aufhäuser var aldrei í reynd fjárfestir í Búnaðarbankanum þegar 45,8% hlutur ríkisins í honum var seldur í janúar 2003, ólíkt því sem haldið var fram allt frá upphafi. Það er afdráttarlaus niðurstaða rannsóknarnefndar Alþingis að stjórnvöld hafi skipulega verið blekkt í aðdraganda og kjölfar sölunnar.

Ítarleg skrifleg gögn sýna með óyggjandi hætti að þýski bankinn Hauck & Aufhäuser, Kaupþing hf. á Íslandi, Kaupthing Bank Luxembourg og hópur manna sem vann fyrir og í þágu Ólafs Ólafssonar fjárfestis notuðu leynilega samninga til að fela raunverulegt eignarhald þess hlutar sem Hauck & Aufhäuser átti í orði kveðnu. Í raun var eigandi hlutarins aflandsfélagið Welling & Partners, skráð á Tortóla á Bresku Jómfrúaeyjum. Með fjölda leynilegra samninga og millifærslum á fjármunum, m.a. frá Kaupþingi hf. inn á bankareikning Welling & Partners hjá Hauck & Aufhäuser var þýska bankanum tryggt skaðleysi af viðskiptunum með hluti í Búnaðarbankanum.“

Um þetta segir Vilhjálmur á mbl.is:

„Ýmislegt þarna reynist rétt um það sem grunur minn lék á hér á árum áður. En það kemur á óvart að það sé svona staðfastur ásetningur og að þarna koma í það minnsta tveir bankar að málum við að dylja og ljúga. Það er lítill vilji hjá stjórnvöldum framan af til þess að komast að hinu rétta í þessu máli.“

Að alhæfa út frá þessu máli á þann veg að allir fjárfestar starfi á sama veg og Ólafur Ólafsson og samverkamenn hans stenst ekki gagnrýni. Þá er rétt að muna að þetta voru miklir umbrotatímar þar sem Davíð Oddsson, þáv. forsætisráðherra, var sakaður um óvild í garð einstakra fésýslumanna og er þá skemmst að minnast frægu ræðunnar sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir flutti í Borgarnesi 9. febrúar 2003, nokkrum dögum eftir að hún sagði af sér sem borgarstjóri og hóf valdabaráttu innan Samfylkingarinnar.

Að mati Ingibjargar Sólrúnar var Kaupþing meðal þeirra fyrirtækja sem voru þyrnir í auga Davíðs auk Baugs Jóns Ásgeirs og fjölmiðlafyrirtækisins Norðurljósa sem þá voru í eigu athafnamannsins Jóns Ólafssonar.