18.5.2018 11:24

Snorri og Game of Thrones

Fyrirlestur Carolyne Larrington og vinsæl bók hennar um Game of Thrones eru einmitt dæmi um það hvernig norræn goðafræði, höfundarverk Snorra, verður lifandi í samtímanum.

Fyrir þá sem hvorki hafa lesið Game of Thrones eftur George R.R. Martin né séð sjónvarpsþættina var fróðlegt að hlusta á Carolyne Larrington, prófessor í enskum miðalda-bókmenntum við Oxford-háskóla, flytja fyrirlestur á vegum Miðaldastofu í Háskóla Íslands í gær um tengslin milli bókanna og þáttanna við fornnorrænar-íslenskar sagnir og hefðir. Prófessorinn hefur þegar gefið út eina bók um þetta efni og leggur nú lokahönd á aðra. Þá hefur hún þýtt Snorra-Eddu á ensku og skrifað bók fyrir almennan markað um norræna goðafræði.

Í sögu Martins má kynnast ógnar-úlfum, þríeygðri kráku sem prófessorinn segir stílbrot, þetta sé í raun hrafn sem flytur fréttir úr öllum heimshornum eins og hrafnar Óðins.

Allt birtist þetta í sjónvarpsþáttunum þar sem Norðrið er kynnt með tilvísunum til Óðins, Valhallar, víkinga og drauga.

Ísveggurinn í sjónvarpsþáttum HBO Game of Thrones. Hann minnir á fimbulvetr og ógnir Norðursins.

Í Game of Thrones skiptir Norðrið miklu og þeir sem þar búa. Fimbluvetr boðar ragnarök eins og Snorri Sturluson segir í Gylfaginningu:

„Mikil tíðendi eru þaðan at segja ok mörg, þau in fyrstu, at vetr

sá kemr, er kallaðr er fimbulvetr. Þá drífr snær ór öllum áttum. Frost eru þá mikil ok vindar hvassir. Ekki nýtr sólar. Þeir vetr fara þrír  saman ok ekki sumar milli, en áðr ganga svá aðrir þrír vetr, at þá er  um alla veröld orrostur miklar. Þá drepast bræðr fyrir ágirni sakar, ok engi þyrmir föður eða syni í manndrápum eða sifjasliti. [...] 

Þá verðr þat, er mikil tíðendi þykkja, at úlfrinn gleypir  sólna, ok þykkir mönnum þat mikit mein. Þá tekr annarr úlfrinn tunglit, ok gerir sá ok mikit ógagn.  Stjörnurnar hverfa af himninum. Þá er ok þat til  tíðenda, at svo skelfr jörð öll ok björg, at viðir losna ór jörðu upp, en  björgin  hrynja, en fjötrar allir ok bönd brotna ok slitna.“

Carolyne Larrington vitnaði einmitt í orðin í fyrri efnisgreininni hér að ofan um fimbulvetr sem lykil að skilningi á Game of Thrones.

Snorrastofa í Reykholti og Háskóli Íslands ýttu árið 2016 úr vör alþjóðlegu rannsóknarverkefni, „Höfundarverk Snorra Sturlusonar og viðtökur verka hans“ („Snorri Sturluson‘s Authorship and Afterlife“), þar sem í brennidepli er lífshlaup Snorra Sturlusonar (1179-1241), rithöfundarferill hans  og þau verk sem honum hafa verið eignuð.

Meðal annars verður fjallað um túlkunarmöguleika á verkum Snorra með hliðsjón af kenningum og stefnum á sviði bókmenntafræði, sagnfræði, heimspeki, sálfræði og mannfræði. 

Síðast en ekki síst verður hugað að viðtöku verka Snorra – hvernig samfélög á ólíkum tímum og við ólíkar aðstæður brugðust við og bregðast við þessum bókmenntum.  Ætlunin er skoða notkun – og misnotkun bókmenntanna útfrá félagsfræðilegum og pólitískum aðstæðum – sumsé flétta saman bókmennta- og sagnfræðirannsóknum. 

Fyrirlestur Carolyne Larrington og vinsæl bók hennar um Game of Thrones eru einmitt dæmi um það hvernig norræn goðafræði, höfundarverk Snorra, verður lifandi í samtímanum. Fyrir utan að rannsaka þetta á fræðilegan hátt er nauðsynlegt að kynna niðurstöðurnar á aðgengilegan hátt. Í því efni ber að nýta aðstöðuna í Reykholti í Borgarfirði sem best og höfum við í Snorrastofu sett fram hugmyndir um að nota Héraðsskólahúsið á staðnum í þessum tilgangi.