6.2.2018 10:29

Smitandi minnisblaðastríð í Washington

Birting skjalsins er í raun ekki annað en nýr kafli í togstreitu bandarísku flokkanna um hvað gerðist í samskiptum kosningastjórnenda Trumps og Rússa.

Minnisblaðastríð er nú háð í Washington. Föstudaginn í fyrri viku, 2. febrúar, samþykkti Donald Trump forseti birtingu á minnisblaði Devins Nunes, þingmanns repúblíkana, sem átti að sýna að alríkislögreglan, FBI, og dómsmálaráðuneytið hefði misbeitt valdi sínu með því að hlera starfsmenn kosningastjórnar Trumps árið 2016.

Mánudaginn 5. febrúar samþykkti leyniþjónustunefnd fulltrúadeildarinnar einum rómi að birta trúnaðarskjal frá demókrötum þar sem þessum fullyrðingum repúblíkana er hafnað. Talið er að þessi ákvörðun þingnefndarinnar leiði til átaka við Trump sem hefur fimm daga til að skoða efni minnisblaðs demókrata og ákveða hvort hann bannar eða heimilar birtingu þess.

Næstu daga velta fjölmiðlar, álitsgjafar og stjórnmálamenn fyrir sér hvað Trump gerir og til hvers ákvörðun hans kann að leiða hvort sem hann heimilar eða bannar birtingu skjalsins. Forsetinn getur einnig krafist breytinga á skjalinu í nafni þjóðaröryggis.

Þinghús Bandaríkjanna.

Í aðdraganda þess að leyniskjal repúblíkana birtist var meira gert úr efni þess og afleiðingum birtingar en tilefnið leyfði. FBI taldi að draga ætti efni skjalsins í efa vegna skorts á upplýsingum. Trump sagði að það „hreinsaði sig algjörlega“ af ásökunum sem leitt hafa til rannsóknar sérstaks saksóknara vegna Rússamálanna.

Birting skjalsins er í raun ekki annað en nýr kafli í togstreitu bandarísku flokkanna um hvað gerðist í samskiptum kosningastjórnenda Trumps og Rússa.

Hafni Trump birtingu skjals demókrata heimila þingsköp demókrötum að óska eftir atkvæðagreiðslu á lokuðum fundi fulltrúadeildar þingsins til að hnekkja ákvörðun forsetans. Þar sem nokkrir repúblíkanar styðja birtingu skjalsins eru fjölmiðlar teknir til við að velta fyrir sér afleiðingum þess að meirihluti fulltrúadeildarinnar snúist gegn forsetanum þrátt fyrir minnihluta demókrata þar.

Donald Trump hefur hafið David Nunes, þingmann frá Kalifornæiu, til skýjanna og kallað hann „mikla bandaríska hetju“ fyrir það sem hann hefur „afhjúpað“ og mátt „þola“ vegna þess.

Þess er getið að skjal Nunes hafi verið þrjár og hálf blaðsíða en skjal demókrata sé 10 bls. og fulltrúar repúblíkana í leyniþjónustunefndinni rökstyðja stuðning við birtingu þess með þeim rökum að þeir vilji stuðla að gegnsæi.

Við eigum eftir að heyra mun meira af þessum málatilbúnaði öllum. Niðurstaða er enn ekki fengin. Verst er að þetta virðist allt smita frá sér inn á Alþingi Íslendinga þar sem sumir þingmenn minna á Don Kíkóta í baráttu við vindmyllur þegar þeir með aðstoð fjölmiðlamanna leitast við að halda lífi í málum sem eru löngu upplýst og þarfnast ekki frekari rannsóknar á stjórnmálavettvangi.