3.1.2018 10:08

Skattaglaður álitsgjafi ríkisútvarpsins

Það eru ekki aðeins skattaglaðir stjórnmálamenn sem tala á þennan veg heldur einnig hagfræðiprófessorinn sem er helsti álitsgjafi ríkisútvarpsins um efnahagsmál.

Á Morgunvaktinni á rás 1 ríkisútvarpsins var fyrsti stórgestur nýs árs Þórólfur Matthíasson prófessor í hagfræði. Í þættinum að morgni þriðjudags 2. janúar 2018 var rætt við hann um fjármál ríkisins.

Þórólfur var í tíð skammlífu stjórnarinnar með þátttöku Viðreisnar á árinu 2017 skipaður í trúnaðarnefndir, til dæmis af Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, núverandi formanni Viðreisnar. Lá við bændauppreisn þegar hún skipaði Þórólf til að koma að ákvörðunum um afkomu bænda. Þórólfur hefur verið hallur undir ESB-aðildarstefnuna sem átti lokavígi sitt innan stjórnarráðsins í Viðreisn. Óðni Jónssyni, stjórnanda Morgunvaktarinnar, þótti rétt að minna hlustendur á gamalkunnan tón í upphafi nýs árs með samtali við prófessorinn.

Af því sem Þórólfur sagði rataði þetta á ruv.is:

„Það er minni kerfisbundin hugsun í tekjuöfluninni núna heldur en var í [fjárlaga]frumvarpi Benedikts Jóhannessonar [þáv. formanns Viðreisnar]. Sem er afturför, mikil afturför. Þar sá maður heildarhugsun þar sem menn voru að leggja út frá því að það átti að draga úr kolefnislosun og haga skattlagningunni í samræmi við það. Það var byrjað að taka inn auknar tekjur af ferðamennskunni, það var horfið af þeirri braut. [...]

Það má ekki nefna það að taka greiðslur af ferðamönnum. Það má ekki hækka virðisauka á þjónustu sem ferðamönnum er veitt, nema þá í afar hægum skrefum...“

Þessi ummæli benda til að Þórólfur hafi verið þáv. formanni viðreisnar innan handar þegar hann lagði til að tvöfalda kolefnisgjald og hækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustu.

Í grein í Morgunblaðinu í morgun (3. janúar) vitnar Sjálfstæðismaðurinn Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar alþingis, í umræður um skattamál á þingi við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2018. Í ár verða skatttekjur og tryggingagjald rúmlega 187 milljörðum krónum hærri að nafnverði en árið 2013. Á föstu verðlagi er hækkunin um 150 milljarðar króna eða yfir 27%.

Þórólfur Matthíasson var að boða stefnu Samfylkingarinnar þegar hann lýsti vanþóknun sinni á ónógri tekjuöflun í fjárlögunum. 

Þegar Ágúst Ólafur Ágústsson, fulltrúi Samfylkingar í fjárlaganefnd, gerði grein fyrir nefndaráliti sagði hann meðal annars:

„Við erum núna í dag eða vorum að greiða atkvæði um í morgun að ekki ætti að hækka kolefnisgjaldið eins og til stóð. Það eru tveir milljarðar sem ríkisstjórn Vinstri-grænna er að afsala sér.“

Ágúst Ólafur spurði hvers vegna fjármagnsskattur væri ekki hækkaður í 25%. Þá taldi hann viljann skorta til að leggja á auðlegðarskatt að nýju, skatt þeirra Jóhönnu og Steingríms J. „Þetta er ekkert svo flókið, það sem skortir er pólitískur vilji þessara blessuðu stjórnarflokka,“ sagði Ágúst Ólafur þingmaður Samfylkingarinnar og Þórólfur Matthíasson endurómaði þetta í samtalinu við Óðin Jónsson.

„Það er eitthvað öfugsnúið við þá röksemdafærslu að ríkissjóður sé að „afsala“ sér tekjum með því að hækka ekki skatta og álögur meira en lagt er til,“ segir Óli Björn réttilega og einnig: „Virðingin fyrir sjálfsaflafé og eignum einstaklinga er lítil. Engu er líkara en hinir skattaglöðu stjórnmálamenn líti svo á að ríkið eigi rétt á öllu því sem einstaklingurinn aflar...“

Það eru ekki aðeins skattaglaðir stjórnmálamenn sem tala á þennan veg heldur einnig hagfræðiprófessorinn sem er helsti álitsgjafi ríkisútvarpsins um efnahagsmál.