5.3.2018 11:13

Sjálfstæðismenn taka af skarið um samgöngumiðstöð

Árum saman hefur blasað við að ákveða yrði stað fyrir nýja samgöngumiðstöð í Reykjavík. Strætisvagnamiðstöðinni á Hlemmi hefur verið breytt í mathöll.

Kynnt var tillaga um skipulag á svonefndu nýju Kringlusvæði 8. nóvember 2017. Þar var um að ræða niðurstöðu í hugmyndasamkeppni Reykjavíkurborgar og fasteignafélagsins Reita. Hlutskörpust var tillaga frá Kanon arkitektum. Boðaði Friðjón Sigurðarson, forstjóri Reita, að framkvæmdir gætu hafist árið 2020 og lokið árið 2025. Byggingamagn á svæðinu er aukið um 180.000 fermetra ofan jarðar samkvæmt tillögunni og þar er gert ráð fyrir að byggðar verði 500 til 600 íbúðir.

Hjálmar Sveinsson, formann umhverfis- og skipulagsráðs, taldi allar líkur á að þessi tillaga færi í uppbyggingu og yrði í takt við það sem birtist í henni. „Dómnefnd tiltekur það sem kosti við tillöguna að auðvelt sé að áfangaskipta henni, hún feli í sér sveigjanleika og feli í sér þekkt byggðamynstur. Þ.e.a.s. klassískt gatnanet með blandaðri umferð. Hús standa út við götur og það eru inngarðar. Það er hið klassíska borgarumhverfi sem við þekkjum úr Vesturbænum og víðar. Að því leyti eru engir meiriháttar þröskuldar í vegi þess að svæðið byggist upp í þessum stíl,“ er haft eftir Hjálmari í Morgunblaðinu.

GMN120RBMMyndin er af síðunni reitir.is og sýnir Kringlusvæðið

Samkvæmt tillögunni verður biðstöð fyrir fyrirhugaða borgarlínu vestur af Kringlusvæðinu til móts við Suðurver. Spurður um þetta segir Hjálmar ekki útilokað „að síðari tíma útfærslur taki borgarlínuna í gegnum svæðið“. „Þá lest eða hraðvagnakerfi,“ segir Hjálmar og ítrekar að allt bendi til að borgarlínan verði kerfi hraðvagna en ekki léttlesta. Myndi borgarlínan liggja þar sem nú er akbraut. Gerir tillagan ráð fyrir að byggt verði yfir götuna.

Þegar blaðamaður spurði Hjálmar um hvernig brugðist yrði við meiri bílaumferð svaraði hann: „ekki mikið meira pláss í borginni fyrir mikla aukningu bílaumferðar“. Eina leiðin gegn vandanum væri „að efla almenningssamgöngur“.

Árum saman hefur blasað við að ákveða yrði stað fyrir nýja samgöngumiðstöð í Reykjavík. Strætisvagnamiðstöðinni á Hlemmi hefur verið breytt í mathöll. Hlemmur er þó enn ein helsta skiptistöð strætisvagna í borginni. Um tíma var ráðgert að stöðin sem kennd er við BSÍ hyrfi úr Vatnsmýrinni en í september 2017 tilkynnti Reykjavíkurborg að stofnaður yrði starfshópur um að BSÍ yrði „alhliða samgöngumiðstöð“ og tæki við af Hlemmi sem tímajöfnunarstöð Strætó auk þess að vera endastöð áætlunarleiða út á land og flugrútu.  

Eyþór Arnalds og félagar hans á D-lista sjálfstæðismanna í borginni kynntu stefnu sína fyrir kosningarnar í vor sunnudaginn 4. mars. Þeir leggja til að  samgöngumiðstöð rísi í Kringlunni. „Kringlan gæti tekið á móti Strætó þannig að gengið yrði út innandyra, þ.e.a.s. undir einhvers konar þaki, líkt og á lestarstöðvum erlendis,“ sagði Eyþór og benti réttilega á að eigendur Kringlunnar væru að skoða framtíðaruppbyggingu á svæðinu og því þyrfti að nýta tækifærið. Taldi Eyþór Kringluna réttilega meira miðsvæðis en BSÍ í Vatnsmýrinni.

Með ákvörðun sinni hefur D-listinn boðið skýran kost andspænis vandræðalausn meirihlutans. Þetta hafa Eyþór og félagar gert á fleiri mikilvægum sviðum.